Föstudagur, 20. febrúar 2015
Hatrammar deilur kennara um kaup og kjör
Nýtt vinnumat framhaldsskólakennara mælir í fyrsta sinn vinnu kennara utan kennslustunda. Sumir kennarar, til dæmis þeir sem kenna íslensku, vinna verulega vinnu utan kennslu við undirbúning og yfirferð verkefna.
Aðrir kennarar, s.s. verknáms- og íþróttakennarar, vinna minna utan kennslustunda en þorri bóknámskennara. Óánægjuraddirnar koma einkum frá þessum hópi kennara sem í krafti aðstöðunnar eru oft með töluverða yfirvinnu.
Fyrir nokkrum árum var reynt að koma til móts við bóknámskennara með svokölluðum ,,stílapeningum" sem skólastjórnendur áttu að greiða þeim sem unnu mikið utan kennslustunda. Sú tilraun fór út um þúfur þar sem íþrótta- og verknámskennarar linntu ekki látunum fyrr en þeir fengu líka ,,stílapeninga."
Nýja vinnumatið er hluti af þeim skipulagsbreytingum sem ríkisvaldið knúði á um í kjarasamningum við kennara. Annar þáttur í skipulagsbreytingum var afnám skila á milli kennslu og prófa. Verknáms- og íþróttakennarar ráku upp ramakvein við þá breytingu enda voru þeir ekki beinlínis önnum kafnir yfir prófatímabilið - ólíkt bóknámskennurum.
Skipulagsbreytingarnar á starfi framhaldsskólakennara eru teknar út með sársauka. Í lokuðum umræðuhópum kennara hóta verknáms- og íþróttakennarar að segja sig úr Félagi framhaldsskólakennara.
Vægast sagt umdeilt meðal kennara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.