Sunnudagur, 1. febrúar 2015
Tsipras er And-Merkel; sæmdin í gríska harmleiknum
Angela Merkel kanslari er hagsýna húsmóðir evru-heimilisins sem krefst þess að endar nái saman og heimilið safni ekki ósjálfbærum skuldum. Alexi Tsipras forsætisráðherra Grikkja er töffarinn (kallaður sexý Alexi) sem segir nóg komið af hallærislegum húsráðum miðaldra þýskrar kerlingar, nú sé kominn tími skuldaafsláttar svo að Grikkir fái tilbaka sæmd sína.
Þýska tímaritið Spiegel rekur eitt fyrsta embættisverk Tsipras, að leggja blóm við minnismerki grískra andspyrnumanna sem Þjóðverjar tóku af lífi í seinni heimsstyrjöld. Pólitísku skilaboðin eru ótvíræð, samstaða gegn Merkel í dag í nafni samstöðunnar gegn Hitler fyrir 70 árum.
Sæmd Grikkja mun kosta stórt. Die Welt segir skuldaafsláttinn, sem Tsipras krefst, vera þann langstærsta í gervallri sögu afskrifta af skuldum þjóðríkja.
Til að knýja á um sæmd Grikkja er Tsipras orðinn nýjasti vinur Pútíns Rússlandsforseta á vesturlöndum. Þar er marxistinn Tsipras kominn í félag með öfgahægriflokk Maríu Le Pen í Frakklandi. Grikkland er á Balkanskaga þar sem fyrir hundrað árum braust út fyrri heimsstyrjöld. Sæmd Serba var í húfi og Rússar tóku ábyrgð á henni andspænis særðu þýsku stolti með sögulegum afleiðingum.
Sæmd Grikkja er annað heiti á grískum lífstíl, sem er að eyða í dag og borga skuldir eftir minni. Þýskur lífstíll er að spara í dag til að eiga fyrir útgjöldum á morgun.
Evran bindur saman gagnólíka efnahagsmenningu. Annað tveggja hlýtur að gefa eftir, efnahagsmenning Þjóðverja eða sjálf evran. Sá sem veðjar á að sæmd Grikkja fari með sigur af hólmi er áhættufíkill.
Þurfum tíma til að anda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.