Þriðjudagur, 30. desember 2014
Evran eyðileggur innviði þjóðríkja
Verðmæti gjaldmiðils Grikkja er ekki í neinu samræmi við efnahag landsins og enn síður í samhengi við pólitískt ástand Grikklands. Evran er 30 til 50 prósent of dýr fyrir Grikki en þeir ráða engu þar um. Verðmæti evrunnar ræðst af stóru hagkerfinum í norðri, einkum Þýskalands.
Grikkir finna ekki til ábyrgðar gagnvart evrunni og líta á hana sem aðskotahlut í hagkerfinu, sem þeir þó geta ekki verið án. Grikkir miða innanlandspólitík sína við að taka evruna í gíslingu. Þeir hóta hinum 17 evruríkjum að æsa markaðsöflin til ófriðar gegn evrunni.
Verkfæri Grikkja í gíslatökunni er róttæki vinstrimaðurinn Alexis Tsipras sem fer fyrir Syriza-flokknum. Tsipras vill að ríku evru-þjóðirnar aflétti skuldum af Grikkjum, sem urðu til vegna þess að Grikkir lifðu um efni fram í áratug einmitt vegna þess að evran bauð upp á þýska vexti en grískt aðhald í fjármálum. Sem er uppskrift að þjóðargjaldþroti.
Tsipras hótar að taka evruna með Grikklandi í fallinu. Gríska þingið ætlar að veðja á Tsipras og gefur þjóðinni færi á að taka þátt í veðmálinu með því að efna til kosninga í lok janúar.
Þjóðverjar vita hvað klukkan slær. Í Spiegel er Tsipras kallaður sjarmerandi brennuvargur. Þýskir hagfræðingar eru leiddir fram til að segja að evru-samstarfið þoli brotthvarf Grikkja.
Hlutlausari greinendur, til dæmis Jeremy Warner í Telegraph, telja þennan gríska kafla evru-tragedíunnar leiða til eyðileggingar hvorttveggja á evrunni og grískum efnahag.
Með því að stjórnmál í Grikklandi snúast ekki lengur um sjálfsbjörg þjóðarinnar heldur hvernig sé heppilegast að standa að fjárkúgun á hendur Þýskalandi er evran þegar búin að eyðileggja pólitíska innviði grísku þjóðarinnar.
Þjóð sem hættir að bera ábyrgð á sjálfri sér er komin út í kviksyndi. Gríska þjóðin er hlutverki fjölskyldunnar sem sagði sig til sveitar með því að kasta frá sér ábyrgðinni á eigin fjármálum. Engar líkur eru á því að Grikkir læri sjálfsbjörg með því að kreista peninga frá Þjóðverjum. Betlarar verða ekki að betri mönnum við að fá í hendur skammbyssu.
Tókst ekki að kjósa forseta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.