Kratisminn og kalda stríðið; Egill og sagan afturábak

Til að fá vinnu í Tollinumm á Keflavíkurflugvelli á áttunda áratug síðustu aldar varð maður að vera krati. Í Keflavík voru þetta almenn sannindi; Tollurinn var herfang Alþýðuflokksins í kalda stríðinu. Kratar stóðu þétt við hlið sjálfstæðismanna í téðu stríði.

Í hermanginu sjálfu skiptu flokkarnir með sér verkum eftir átthögum og pólitík. Aðalverktakar komu úr Reykjavík að græða á ameríska hernum, þar voru sjálfstæðismenn og kratar á ferðinni. Keflavíkurverktakar voru Suðurnesjamenn sem fengu aðgang að efnahagskerfi Bandaríkjanna á Miðnesheiði. Stjórnmálaflokkar hermangsins voru Sjálfstæðisflokkur, Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur.

Viðskiptatengsl við herinn voru hluti af velferðarkerfi kratismans. Félagsmálafulltrúinn í Keflavík, sem var krati, útvegaði skjólstæðingum sinum vinnu á Keflavíkurflugvelli.

Þeir sem stóðu utan við hermangið voru róttækir þjóðernissósíalistar, Alþýðubandalagið. Félagar í þeim flokki voru almennt ekki í vinnu á Keflavíkurflugvelli og alls ekki hjá hernum.

Því eru þessi atriði rifjuð upp að Egill Helgason fær ákúrur fyrir að gagnrýna tvo dóma um bók Styrmis Gunnarssonar. Í umræðu á bloggsvæði Egils ber á því viðhorfi að Sjálfstæðisflokkurinn hafi einn og sér verið flokkur bandarískra hagsmuna hér á landi og ,,vinstrimenn" verið í hlutverki fórnarlamba. Ekkert er fjarri sanni. Alþýðuflokkurinn var ekki síður en Sjálfstæðisflokkur nátengdur bandarískum hagsmunum.

Í kalda stríðinu voru hugtök eins  ,,vinstrimenn" og ,,félagshyggjufólk" ekki notuð enda vísuðu þau orð ekki í neinn pólitískan veruleika. Það voru til kratar og kommar og allir voru með það á hreinu að hugtökin tilgreindu pólitískar andstæður.

Sagan er alltaf skrifuð afturábak. Á leið sinni aftur til fortíðar er hætt við að samtímafarangur þvælist með um of og getur það torveldað skilning.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband