Mánudagur, 1. desember 2014
Guðmundur Andri afhjúpar fésýslusinna í Samfó
Guðmundur Andri Thorsson skrifar þjóðlega krónikku í Baugsútgáfuna vegna ferðaskatts á útlendinga, sem vegna ESB-reglna verður að leggjast á landsmenn alla. Rithöfundurinn kemst vel að orði
Við eigum samt þetta, sem verður varla komið í orð. Einhver hulin tilfinning fyrir landinu og víðáttunni, viss rýmiskennd sem er öðruvísi hér en víðast hvar, hvernig svo sem uppruna og ætt er annars háttað og hvað sem líður skömmustunni yfir þjóðrembudellu útrásarinnar. Einhvers konar samband við landið, þessi kennd að elska landið, eiga landið og láta landið eiga sig.
Sjálfstæðismenn vilja ekki að fólk hafi þessa tilfinningu fyrir landinu sínu. Því á að finnast sem Ísland sé í eigu annarra en þjóðarinnar. Þeir líta svo á að vatnið og vindurinn, víðáttan og veðrið anganin af blóðberginu og birkibrekkunni þetta sé allt bara vörur á markaði sem einhver verði að eiga, annars sé það einskis virði.
Ábyggilega er það rétt hjá Guðmundi Andra að sumir, einkum frjálshyggjumenn, eiga það til að líta á gæði sem ekki er hægt að merkja peningum sem einskins virði. Frjálshyggjumenn eru á hinn bóginn ekki allir í einum flokki og það er rangt að útrásin hafi verið þjóðremba.
Útrásin var í skjóli EES-samningsins og helstu klappstýrur hennar voru ESB-sinnar eins og Björgvin G. Sigurðsson,Vilhjálmur Þorsteinsson, fjárfestir og Ólafur Ágústsson, já, þessi sem vildi gera stjórnsýsluna tvítyngda, og fleiri kappar úr Samfylkingunni.
Eftir hrun vildi enn einn samfylkingurinn, Róbert Marshall, sem nú stýrir Bjartri framtíð, falbjóða íslenskan ríkisborgararétt útlendingum. Róbert er líka vitanlega ESB-sinni fram í fingurgóma. Rök ESB-sinna eru öll á sömu bókina lærð; við græðum peninga á aðild.
ESB-sinnar og fésýslusinnar eru iðulega sama fólkið. Það fólk finnur ekki ilminn af landinu og lætur sér fátt um finnast að skila því fullvalda og undir forræði þjóðarinnar til óborinna kynslóða. ESB-sinnar og fésýslusinnar eru með peningalykt fyrir vitum sér alla daga.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.