Sunnudagur, 30. nóvember 2014
Stríð, smáríki og stórþjóðir
Stríð bjó til smáríkið Danmörku, sem lærði þá lexíu í stríðinu við Prússa 1864 að smáríkjum sé hollast að rækta garðinn sinn. Fyrir 1864 taldi Danmörk sig til stórríkja með nýlendur eins og Ísland, Grænland og Færeyja í Norður-Atlantshafi en jafnframt með ítök í Vestur-Indíum, Afríku og Asíu. Í dönskum kennslubókum er Danmörk sögð á nýöld meðalstórt nýlenduríki.
Suður af Danmörku tilheyrðu þýskumælandi þegnar Danakonungi frá miðöldum, í hertogadæmunum Slésvík og Holsetalandi.
Danir töldu sig eiga í fullu tré við Prússa, sem undir stjórn Vilhjálms konungs og Bismarcks, gerðu sig líklega til að taka forystuna af Austurríkismönnum við að sameina þýskumælandi í eitt ríki - Þýskaland.
Prússar lærðu af Napoleónsstyrjöldunum að með hernaðarmætti mætti hvorttveggja sundra þjóðir og sameina. Höfundur kenningarinnar um að stríð væri pólitík með öðru verklagi er einmitt Prússinn Carl von Causewitz og hann lærði sín fræði af hernaði Korsíkumannsins knáa.
Danir gjörtöpuðu stríðinu 1864 fyrir Þjóðverjum, sem lögðu undir sig mestallt Jótland. Tap Dana var hernaðarleg, diplómatískt og hugsjónalegt, segir í Politiken um stríðið 1864, en sjónvarpsþættir byggðir á stríðinu eru sýndir í DR og RÚV.
Í friðarsamningunum eftir 1864 kom til tals í Danmörku að bjóða Prússum Ísland í skaðabætur til að halda nyrsta hluta Slésvíkur, sem var einkum byggð Dönum. Prússar, góðu heilli, voru að svo komnu máli ekki á höttunum eftir heimsveldi heldur þýsku heimalandi og Ísland féll ekki undir það hugtak.
Prússar gengu á lagið eftir sigurinn yfir Dönum. Þeir herjuðu á Austurríkismenn 1866 og fjórum árum síðar Frakka og sigruðu báða auðveldlega. Prússakonungur var krýndur keisari Þýskalands árið 1871.
Danmörk varð þannig smáríki eftir stríðsreynslu en Þýskaland stórríki. Íslendingar, sem þekkja mennsk stríð mest af afspurn en því betur stríð við náttúruöflin, gera rétt í að halda sér í sem mestri fjarlægð frá bandalögum og hrossakaupum stríðsþjóðanna á meginlandi Evrópu.
Athugasemdir
Ég held að það hafi verið rétt ákvörðun miðað við stöðu heimsmála 1949 og 1951 að ganga í NATO og gera varnarsamning við Bandaríkin og halda sig ekki frá bandalögum. Hlutleysi reyndist hvorki Norðmönnum né Dönum nein vörn 1939 og í ljósi þess gengu báðar þjóðirnar í NATO 1949.
Síðar hefur komið í ljós að í hugsanlegu stríði hefði NATO ekki varið Danmörku þannig að það fer algerlega eftir aðstæðum og stöðumati hvað réttast sé fyrir smáþjóðir að gera.
Stöðumat Dana var kolrangt 1864. Þeir héldu að þeir væru stórþjóð og vonuðust eftir hjálp Breta, en hvort tveggja klikkaði.
Ómar Ragnarsson, 30.11.2014 kl. 14:29
Einhverntíma þarf ég að stúdera hernað Bismarks. Hvað olli því að hann vann alltaf. Það er alltaf eitthvað einfalt.
Ég las bókina hans Clausewitz. Hún er allt í lagi. Publius Flavius Vegetius Renatus var betri. Fór meira út í smáatriði. Sagði hverskyns mannskap þú þarft (og færð aldrei, og hvers vegna það er.)
Um danina:
Skoðum bara wiki:
"Unrealistic expectations of the potency of the Danish army and incompetence at the political level had overruled the command of the army's wishes to defend Jutland according to the above plan, and instead favoured a frontal defense of Jutland on or near the historical defense (and legendary border) line at the Danevirke, near the city of Schleswig in the south. Hence resources had been put into the Danevirke line and not into the flank positions, which stayed akin to battlefield fortifications rather than modern fortifications capable of withstanding a modern bombardment."
... já.
Ásgrímur Hartmannsson, 30.11.2014 kl. 15:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.