Knoll &Tott og byltingin að ofan

Allt frá dögum Forn-Grikkja er bylting undanfari framþróunar lýðræðis. Ameríska byltingin 1776 og sú franska þrettán árum síðar skiluðu vestrænum þjóðum stjórnarskrám sem enn í dag eru undirstaða stjórnskipunar lýðræðisþjóða.

Eftir hrunið á Íslandi vildu sumir meina að gerð hafi verið bylting hér á landi, samanber ,,búsáhaldabyltingin." Fólk sem þannig talar skilur ekki að bylting felur í sér að stjórnskipun sé umbylt; þeirri gömlu sé hent út og ný komi í staðinn, sbr. lénsskipulagið sem féll frönsku byltingunni og stjórnskipun keisaraveldis Rússlands fauk með októberbyltingunni.

Á Íslandi eftir hrun var ekki bylting heldur þingræðislegt valdarán. Annar stjórnarflokkurinn, Samfylking, gerði bandalag við stjórnarandstöðuflokk, Vg, um að breyta valdahlutföllum í samfélaginu í skjóli upplausnarástandsins í kjölfar hrunsins. Móðurflokkur íslenskra stjórnmála, Sjálfstæðisflokkur, skyldi fá varanlegt sæti hornkerlingar. 

Valdaránið fékk lýðræðislegt lögmæti með kosningunum vorið 2009 þegar Samfylking og Vg mynduðu ríkisstjórn. Í beinu framhaldi stóð til að gera byltingu að ofan með því umbylta stjórnskipun lýðveldisins.

Stjórnlagaráðið, sem skipað var upp úr ólögmætu stjórnlagaþingi, var byltingarverkfærið. Tveir vígamóðir byltingarliðar, Þráinn Bertelson, fyrrum þingmaður, og Þorvaldur Gylfason, stjórnlagaráðsmaður, ræða um byltinguna sem ekki varð í nýrri útgáfu TMM, tímarits vinstrimanna alla lýðveldissöguna.

Í úrdrætti samtalsins í Kvennablaðinu er fyrirsögnin Svik á svik ofan. Svikin sem þeim félögum svíður sárast er samherjanna, sem í orði kveðnu studdu byltinguna, en brugðust þegar á reyndi. Lykilsetning samtalsins er eftirfarandi:

Það er lítill vandi fyrir stjórnmálamann sem heitið hefur stuðningi sínum við að koma stjórnarskrá gegnum þingið en síðan ekki staðið við orð sín að segja: Þetta var í sjálfu sér ágætt en þessi drög urðu aldrei eins og ÉG vildi hafa þau...

Fyrsta persóna í hástöfum lýsir hversu sjálfhverft vinstraliðið var eftir valdatökuna vorið 2009. Það bjó ekki að neinni pælingu um hvað ætti að gera við nýfengin völd. Í huga vinstrimanna átti byltingin að ofan að snúast um að halda völdum sem Samfylking og Vg fengu í þingræðislega valdaráninu veturinn 2009.

Engin bylting í veraldarsögunni er framin til þess eins að halda illa fengnum völdum. Í byltingum er ávallt um stórar hugsjónir að tefla. Nema, altso, í byltingartilraun ríkisstjórnar vinstrimanna á Íslandi kjörtímabilið 2009 til 2013. Enda sló ríkisstjórn Jóhönnu Sig. Evrópumet í fylgishruni vorið 2013, - þegar almenningur fékk loksins, loksins að segja álit sitt á byltingartilrauninni.

     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Satt er þetta hjá þér Páll, en eru til einhver lögmál fyrir byltingar?

Eyjólfur Jónsson, 20.11.2014 kl. 13:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband