Auðmenn, fjölmiðlar og trúnaður

Þrjár stórauðugar fjölskyldur, Baugsfjölskyldan, Bakkavararbræður og Björgólfsfeðgar stjórna einkareknum fjölmiðlum á Íslandi. Um helgina toguðust á Baugsfjölskyldan og Björgólfsfeðgar um vikuritið Krónikuna sem þrátt fyrir að vera aðeins nokkurra vikna gamalt virðist komið á fjárhagslegan vergang.

Góðu fréttirnar eru þær að fleiri en ein forrík fjölskylda gefur sig að fjölmiðlun. Það er gömul og gild uppskrift frá samfélagsrýninum E.B. White að sérvisku eins blaðaútgefanda sé best mætt með sérvisku annars og að almannahagsmunum sé betur borgið eftir því sem útgáfurnar eru fleiri.

Ýfingar milli fjölskyldnanna um Krónikuna gefa til kynna að einhver samkeppni sé á milli þeirra á fjölmiðlamarkaðnum. Baugsfjölskyldan vill vikuritið í götublaðaútgáfuna sína, þar sem DV og Fréttablaðið er fyrir, en Björgólfsfeðgar eru ekki á því að sleppa takinu á blaðinu sem prentað er hjá Morgunblaðinu þar sem feðgarnir eru ráðandi.

Þar sem fjölskyldurnar þrjár taka sér tiltölulega afmarkaða stöðu, Baugsliðið er með götublöðin, feðgarnir með Morgunblaðið ásamt fylgifiskum og bræðurnir Viðskiptablaðið og Skjá einn, eru nokkrar líkur á að enn um hríð niðurgreiði fjölskyldurnar fjölmiðlaneyslu landsmanna. Aðeins Baugsfjölskyldan hefur grímulaust misbeitt eignarhaldi sínu á fjölmiðlum. Of snemmt er að skrifa aflátsbréf til hinna tveggja, eigendasaga þeirra er ekki nógu löng.

Fjölmiðlar eru vettvangur umræðunnar í samfélaginu. Ritstjórnir fjölmiðla ákveða hvað sé helst í fréttum hverju sinni og matreiða þær ofan í almenning. Dagskrárvaldið er að forminu til hjá ritstjórnum en eins og dæmin af Baugsmiðlum sanna eiga beygðar ritstjórnir það til að vera viljugt verkfæri eigenda sinna.

Misbeiting dagskrárvaldsins veldur trúnaðarbresti, annars vegar milli ritstjórna og eigenda og hins vegar milli fjölmiðla og almennings. Það er engin tilviljun að Baugsmiðlar skora lágt í könnunum þar sem traust á fjölmiðlum er metið. Ef einhvern tíma yrði gerð athugun á sjálfmati ritstjórna myndu ritstjórnir Baugsmiðla koma út með lélegustu sjálfsímyndina.

Ábyrgir eigendur setja útgáfum sínum almenna stefnu. Þar með ætti afskiptum þeirra af ritstjórn fjölmiðla að vera lokið. Það er svo undir ritstjórum og blaðamönnum að uppfylla þá einu skyldu sem réttlætir starf þeirra: Trúnaður við lesendur. Og það er trúnaður sem hvorki verður seldur né keyptur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Fjölskyldurnar þrjár (ekki fjórtán lengur) hafa gríðarleg völd yfir almenningi, þær geta ekki bara ráðið fjárhag okkar heldur líka möguleikum okkar til opinberrar tjáningar.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 19.3.2007 kl. 11:13

2 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Rétt er að óska nýbúanum Kenny til hamingju með að vera svona fljótur að lesa sig inn í íslenskt samfélag. Ef hann er að leita sér að íslensku nafni er eftirfarandi við hæfi: Hreinn Jón Ásgeir.

Páll Vilhjálmsson, 19.3.2007 kl. 16:17

3 Smámynd: Rögnvaldur Hreiðarsson

Það er athyglisvert þegar þú Kenny skrifar um það að eignarhald á fjölmiðlum skipti hér engu og ferð svo að vitna í að eignarhaldið á mogganum hafi verið vandamál. Mér sjálfum finnst barnalegt ef menn trúa því að eignarhald skipti ekki máli.  Eflaust er það að einhverju leyti rétt að menn freistast til að koma sér upp skoðunum og gera svo allt til að réttlæta þær. En það er samt augljóst að fæstir hafa nennt að kynna sér málsatvik baugsmála enda hafa þau varla fengist rædd fyrir órökstuddum dylgjum um stjórnmálamenn, lögreglumenn og nánast alla þá sem vogað hafa sér að koma með ásakanir á hendur þessu fólki. Við smáfuglarnir getum ekki varið okkar í eigin fjölmiðlum alla daga eins og þetta fólk gerir. Enda sennilega aldrei gerst áður með þessum hætti, eða hvað Og ráðið okkur dýra lögfræðinga árum saman til að þurfa helst aldrei að svara neinu. Enda sýnist mér baugsmenn hafa verið fremur lánsamir með saksóknara því þeim hefur tekist að gera málið svo ílla úr garði að önnur hver ákæra er ekki dómtæk.

Það er ekki nýtt að hæfasta fólkið starfar ekki hjá ríkinu. Og lögfræði snýst ekki um hvað er satt og rétt. Hún snýst um það hver borgar launin. Og sagan kennir okkur að saklaust fólk hefur svo sannarlega setið inni og engin getur efast um að sekir ganga líka lausir.

Og varðandi kolkrabbann þá voru þeir bara í karamellubransa sé tekið mið af þessum fínu herrum. Er ekki viss um að Kenny opni veskið sitt mjög oft án þess að þeir aurar renni í vasa baugsmanna. 

Ætli fólk geti verið haldið þráhyggju varðandi fólk sem það telur haldið þráhyggju?

Rögnvaldur Hreiðarsson, 19.3.2007 kl. 17:18

4 Smámynd: Ólafur Als

Ef fyrir liggur að fjölmiðlar á Íslandi eru reknir með tapi, er hin niðurgreidda fjölmiðlaveisla þá einhvers konar friðargjöf til almennings, leikvöllur auðmanna sem leiðist eða telja sig vera að gera gott eða býr eitthvað annað að baki? Hér er ekki verið að matreiða samsæriskenningu heldur leggja fram spurningu sem menn mættu velta fyrir sér: Hvað býr að baki, ef ekki á að hagnast á rekstrinum? Lýsi eftir viðunandi svörum.

Ólafur Als, 19.3.2007 kl. 18:09

5 identicon

eigendur fjölmiðla stjórna umfjöllun þeirra með mannaráðningum.  ef við gefum okkur að helmingur blaðamanna sé hliðhollur viðkomandi eigenda og hinn helmingurinn á móti þá ræður eigandinn auðvitað ritstjóra sem er hliðhollur eigendanum.  ritstjórinn mótar stefnu blaðsins og fær sér til aðstoðar fólk á sömu línu og hann er á.   ef upp kemur mál sem varðar eigenda fjölmiðilsins þá lætur hann blaðamann úr þeim helmingi sem er hliðhollur eigendanum, fjalla um málið.

ólafur jóhannsson

ólafur jóhannsson (IP-tala skráð) 19.3.2007 kl. 19:00

6 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Mér finnst nú ekki rétt að kalla Fréttablaðið "götublað" og sé engin haldbær rök fyrir því.

Svala Jónsdóttir, 19.3.2007 kl. 21:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband