Miðvikudagur, 29. október 2014
Eitruð sósíalísk frjálshyggja Gísla Marteins - íhaldið best
Reykjavíkurflugvöllur er sósíalismi, segir Gísl Marteinn Baldursson fyrrum borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og leggur til stórfelld inngrip þar sem þrautreynt fyrirkomulag samgangna höfuðborgar og landsbyggðar skal varpað fyrir róða.
Gísli Marteinn stendur nærri þeim hópi sjálfstæðismanna sem gengur undir nafninu samfylkingardeildin sökum hugmyndavensla við flokk Árna Páls. Skrautfjöðrin i hatti samfylkingardeildarinnar var Árni Sigfússon fyrrum bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Árni blandaði saman sósíalisma og frjálshyggju í rekstri bæjarfélagsins með þeim afleiðingum að Reykjanesbær er svo gott sem gjaldþrota.
Gísli Marteinn og aðrir líkt þenkjandi taka það versta úr vestrænum hugmyndaöfgum, þ.e. sósíalíska forræðishyggju og græðisvædda frjálshyggju, og setja saman í eitraðan kokteil þar sem helst í hendur pólitískur stórmennskugalskapur og fjárhagsleg ævintýramennska.
Íhaldsstefnan hrein og tær segir okkur að kasta því ekki á glæ sem reynslan kennir að virki vel. Í meira en hálfa öld þjónar flugvöllurinn í Vatnsmýri sameiginlegum þjóðarhagsmunum höfuðborgar og landsbyggðar. Íhald byggt á reynslu er besta pólitíkin.
Athugasemdir
GMB er eins og maðurinn sem telur að Rafmagn komi úr innstungunni og hefur því verr og miður verið staðinn að því að hafa hjálpað til við stórskaðlegar breytingar til hins verra á gatnakerfi Reykjavíkur ( td. Langahlíð, Hofsvallagata).
Því miður er hann þess umkominn og enn bara sem lítið barn að fikta í sandkassa! Fikt sem því miður getur og hefur þegar valdið stórskaða, enn að leika sér á litlu afmörkuðu svæði 101, 105 Rvk!
Hagsmunir og gjaldeyrissköpun þjóðarinnar kemur piltinum akkúrat ekkert við. Bara að fá að byggja sandkastalann sinn, eftir eigin geðþótta þótt þjóðin skaðist í heildina.
Að stórskaða allan þorra landsmanna með verri samgöngum til og frá landinu skiptir Gísla því miður ekki minnsta máli.
Lélegri stundvísi og áreiðanleika flugfélaga, sem í mörgum tilfellum getur leitt til þess að fólk muni óafvænt missa hvað eftir annað af tengiflugi í útlandinu, þegar öruggur stuðningur Reykjavíkurflugvallar nýtur ekki lengur við sem varaflugvöllur fyrir Keflavík.
Seinkanir frá KEF skipta hinn mikla mann ekki minnsta máli. Að missa af næstu flugvél í útlandinu er smámál, bara ef hægt er að loka og verktakavinir fái að byggja í friði á Reykjavíkurflugvelli.
Sniðugt á Íslandi, eða hitt þó heldur.
Kolbeinn Pálsson, 29.10.2014 kl. 21:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.