Þriðjudagur, 28. október 2014
Ofbeldi er sexí, lýðræðið náttúrulaust
Þýskir stjórnmálamenn standa ráðþrota gagnvart nýju bandalagi hægriöfgahópa gegn herskáum múslímum, sem þýskir kalla salafista. Öfgahóparnir til hægri, sem eiga m.a. rætur í menningu fótboltabulla, sýndu styrk sinn í Köln nýverið og hóta uppákomu í Berlín.
Herskáir múslímar eru áberandi undanfarið. Evrópuvaktin segir frá aðdráttarafli þeirra, ekki síst hjá konum sem finnst karlar með stríðstól eftirsóknarverðir þegar þeir láta vopnin tala eins og í Sýrlandi og Írak.
Í Frankfurter Allgemeine er giskað á að um sjö þúsund herskáir múslímar, salafistar, séu þess albúnir að gerast hermenn trúarinnar. Sumir þeirra eru þegar á bardagaslóðum í ríki íslams fyrir botni Miðjarðarhafs og aðrir í startholunum. Strákar allt niður í 12 ára gamlir láta sig dreyma um að verða stríðsmenn spámannsins. Gelgja og stríðsfýsn haldast í hendur.
Hægriöfgahópar vilja ekki missa af fjörinu og melda eindreginn áhuga á að etja ofbeldiskappi við salafista. Aðalálitsgjafi Die Welt segir ofbeldishópana eiga margt sameiginlegt, til dæmis ofbeldisdýrkun.
Lýðræðisleg meðul slá lítt á stríðsólguna. Ekki frekar en sumarið fyrir hundrað árum stríðslystin í Evrópu sauð yfir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.