Sunnudagur, 12. október 2014
Dauði blaðamennskunnar
Fjölmiðlum tekst illa að fjármagna sig á netinu samtímis sem lestur blaða og áhorf/hlustun ljósvakamiðla skreppur saman. Kreppueinkennin eru mörg og misjöfn.
Hér á Íslandi reyna fjölmiðlar að bæta sér upp skort á efnahagslegum forsendum með stöðutöku í opinberri umræðu þar sem fjölmiðill berst fyrir tiltekinni niðurstöðu. RÚV reynir þetta reglulega, núna síðast í MS-málinu. ,,Blaðamennska" DV í lekamálinu er einnig þessu marki brennd.
Erlendis eru tilraunir með ,,konsept-blaðamennsku" til að draga til sín athygli. Jákvæðar fréttir og lífstílsefni eru hluti af þessari tegund blaðamennsku. Mette Fugl, danskur reynslubolti í faginu, telur ,,konsept-blaðamennsku" bera dauðann í sér.
Blaðamennskan verður á 19.öld með tilurð dagblaða í fjöldadreifingu. Blaðamennska er í hnotskurn að segja frá tíðindum dagsins en hvorki að stjórna niðurstöðu opinberrar umræðu, t.d. hvort lög skulu afnumin eða ráðherra vikið frá, né heldur að skemmta lesendum eða kynna glassúrheimsmynd.
Blaðamennska er stunduð á fjölmiðlum sem fá tekjur til að borga blaðamönnum laun. Þegar blaðamennskan á fjölmiðlum dettur niður í bloggskrif verða fjölmiðlarnir óþarfir. Þar með deyr blaðmennskan enda borgar enginn fyrir það sem fæst ókeypis.
Athugasemdir
Blaðamennskan var drepin þegar farið var að smala ungu áhrifagjörnu fólki í háskóla og forrita það í pólitískri rétthugsun.
Fyrr á árum voru blaðamenn hins vegar afar mislitur söfnuður. Mest bar á prófleysingjum af ýmsu tagi, oft vínhneigðum, afdönkuðum lögfræðingum, prestum eða öðrum menntamönnum, sem rekið hafði á land í þessari stétt. Þeir höfðu þrátt fyrir allt oft víðtæka reynslu og góða yfirsýn yfir mannlíf og þjóðfélag. Fyrir þeim vakti fyrst og fremst að skýra frá atburðum ekki að stýra þeim eða dæma og vandlætast. Þeir töluðu fátt um „fjórða valdið”, „ábyrgð fjölmiðla” eða „hlutverk blaðamanna”. Þeir voru bara að vinna vinnuna sína.
Þetta hefur mikið breyst með kröfum um „fagmennsku”, þ.e. nám í „fjölmiðlafræði”. Kennslu í þessari „fræðigrein” hafa um langt skeið að mestu annast gamlir liðsmenn hins íslenska stuðningsflokks alræðis og gúlags, Alþýðubandalagsins, en hann klofnaði fyrir nokkrum árum, eins og menn vita Helstu kennarar (og þar með forritarar) fjölmiðlamanna hafa lengi komið úr gamla bolsévíka- arminum, nú VG, en afgangurinn mikið til úr mensévíka- arminum, sem nefnist “Samfylking”, en sá flokkur hefur án nokkurs vafa hæst kjána- hlutfall allra íslenskra stjórnmálaflokka.
Þetta er undantekningarlítið fólk af því tagi, sem enn í dag réttlætir Castro samhliða háværu lýðræðis- og mannréttindahjali.
Vilhjálmur Eyþórsson, 12.10.2014 kl. 15:59
Það er mikið til í þessari greiningu á vanda íslenskrar blaðamennsku, sem stafar mestan part af nýjum tæknilegum veruleika til dreifingar og fjármögnunar.
En það er engin ástæða til að hlakka yfir því að afl og áhrif fjölmiðla fari dvínandi. Þeir sem hlakka yfir því eru auðvitað þeir sem hagnast helst á því að nauðsynlegum upplýsingum sé haldið frá dagsljósinu.
Dæmi um blaðamennsku, sem bæði upplýsti um mál, sem annars hefði aldrei upplýst, og hafði með umfjöllun sinni áhrif sem ollu falli forseta Bandaríkjanna, er umfjöllun Washington Post um Watergate málið.
Annað dæmi er þegar Walther Chroncite fór sjálfur í fréttaferð til Vietnams til að kynna sér ástandið í stríðinu þar.
Umfjöllunin hans þegar hann kom heim var eitt áhrifamesta atriðið í því að Bandaríkjamenn urðu fráhverfir stríðinu og töpuðu því að lokum. Johnson Bandaríkjaforseti sagði eftir að hafa séð umfjöllun Chroncites: "Nú getur maður víst pakkað saman." Og hætti við að fara í framboð 1968.
Ég átti því láni að fagna að ná stuttu viðtali við Chroncite þar sem ég spurði hann hvort völd (power) fjölmiðlunar væru orðin of mikil. Þess ber að gæta að enska orðið "power" hefur margþættari merkingu en orðin völd eða afl í íslensku.
Hann svaraði: "No. In democratic society the power of the media to distribute necessary facts and different opinions is never to great so the people can use their power."
Þetta er aðall góðrar blaðamennsku og harmsefni ef hún er að koðna niður.
Ómar Ragnarsson, 12.10.2014 kl. 20:04
Biðst velvirðingar á tvítekinni villu í innslætti á nafni Walthers Cronkite.
Ómar Ragnarsson, 12.10.2014 kl. 20:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.