Vestfirðingar og við erum sama fólkið

Þorsteinn heitinn Gylfason heimspekingur ræddi einu sinni héraðsbrag nokkurra landshluta og sagði verðleika manna í Skagafirði metna eftir hagmælsku, gáfum í Þingeyjarsýslum og dugnaði á Vestfjörðum. Gott ef Þorsteinn hafði mælistikuna ekki eftir móðurafa sínum, Vilmundi Jónssyni þingmanni og héraðslækni á Ísafirði á millistríðsárunum.

Dugnaður Vestfirðinga síðustu daga við að koma málum sínum í umræðuna er ótvíræður. Þeir keyra málið áfram og vilja skýr og refjalaus svör. Skilaboðin sem koma að vestan eru hins vegar misskilin þegar þau berast hingað suður enda um langan veg að fara.

Vestfirðingar hafa lent í stælum vegna ásakana um að þeir krefjist opinberra starfa til að rétta af halla í atvinnulífinu sem myndaðist þegar fyrirtæki lokuðu fyrir vestan.

Reynslan af hreppaflutningum heilla stofnana, Landmælinga upp á Skaga fyrir nokkrum árum og Byggðastofnunar á Sauðárkrók, er ekki þess eðlis að menn reyni slíkar aðgerðir í bráð.

En landsbyggðarmenn hafa nokkuð til síns máls þegar þeir gagnrýna fjölgun opinberra starfa á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir almennar yfirlýsingar um að nýjum störfum á vegum hins opinbera skuli komið fyrir á landsbyggðinni, ef því sem við á, fjölgar störfum örar hér fyrir sunnan en annars staðar. Skyldi ætla að ýmis gagnavinnsla og verkefni á sviði upplýsingatækni gætu allt eins átt heima úti á landi og í Reykjavík. Kannski er það mest fyrir sinnuleysi að ekki sé skipulega hugað að því að koma nýjum opinberum störfum fyrir þar mest gagn er af þeim.

Líklega líður landsbyggðin fyrir það að hún er ekki til nema sem hugtak. Egilsstaðir og Ísafjörður eru hvorutveggja landsbyggðin. En hvað eiga bæirnir sameiginlegt? Er einhver sem talar máli þeirra beggja?

Í stjórnmálaumræðunni eru byggðamál nánast skammaryrði. Um leið og einhver tillaga að framkvæmd fær á sig þann stimpil er hún orðin óhrein og allt að því lítilmótleg. Löng saga er hér á bakvið og fáir þáttakendur í opinberri umræðu síðustu áratuga geta firrt sig ábyrgð.

En það er ekki sagan eða umræður liðinna ára sem Vestfirðingar standa frammi fyrir í dag heldur eru þeir í nauðvörn fyrir byggðinni. Enginn veit hvar þanmörkin eru, hvenær þolinmæðina þrýtur og fólk tekur sig upp í hrönnum þannig að byggðabrestur verður.

Vestfirðingar hafa látið í sér heyra. Og þjóðin verður að hlusta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Þú veist þú átt að vitna í hvar þú færð hugmyndinar. Hérna 

Tómas Þóroddsson, 14.3.2007 kl. 01:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband