Föstudagur, 19. september 2014
Rithöfundar eru verðlausir
Rithöfundar þjónuðu einu sinni því hlutverki á Íslandi að bera menningarverðmæti milli kynslóða; að skrifa á íslensku um þjóðina og fyrir þjóðina um sögu okkar og menningu. Ekki síst stóðu rithöfundar vörnina um þjóðmenninguna og fullveldið.
Á seinni árum eru rithöfundar meira skraut en að þeir þjóni menningarlegum tilgangi. Viðfangsefni rithöfunda eru alþjóðleg, í besta falli norræn, en varða íslenska þjóð fremur litlu; sakamálasögur tröllríða öðrum bókmenntum. Sambærilegar sögur um áþekk viðfangsefni má lesa á norsku, ensku eða þýsku.
Þó er þetta mikilvægast: íslenskir rithöfundar láta sig litlu varða þjóðmenninguna og fullveldið. Nema - auðvitað - þegar stendur til að hækka virðisaukaskatt á bækur. Þá verða rithöfundar fjarska þjóðlegir.
Sorrí strákar, og þið fáu stelpur sem kallið ykkur rithöfunda, vagninn er farinn. Þið voruð geldneyti þegar umræðan um framtíð þjóðmenningarinnar og fullveldisins stóð sem hæst í kjölfar ESB-umsóknar Samfylkingar. Þá skiluðu þið auðu, ef ekki að þið beinlínis vilduð fórna þjóðararfinum og ganga í samband sem lítur á íslenska menningu eins og geirfugl; sniðugt stofustáss en hinum þræðinum hálfvitalega úrelt.
Fyrir daga netsins reyndu rithöfundar á þanþol málsins og stunduðu nýrækt. Í dag sjá aðrir um endurnýjun tungutaksins án þess að þiggja ritlaun úr sjóðum almennings.
Þjóðin sem sigraði umræðuna um ESB-umsókn Samfylkingar þarf ekki á rithöfundum að halda, - amk ekki íslenskum umfram útlenda. Menningarverðmæti íslenskra rithöfunda er nákvæmlega núll.
Athugasemdir
Ég get ekki sagt að mín viðfangsefni sé sérlega norræn. Kannski alþjóðleg að einhverju leiti - en ég hef oft rekið mig á að lesandinn þarf að skilja íslenska menningu.
Gaurarnir hjá BwS klóra sér a.m.k mikið í hausnum yfir sumu sem ég sendi þeim.
Menningin skín í gegn hjá mér - menning í bókstaflegri merkingu, ekki í venjulegu yfirfærðu merkingunni. Þú veist, það sem fólki hefur verið kennt að hugsa þegar það heyrir orðið "menning."
Allt sem ég segi, geri og skrifa er litað af landinu, landanum, og, ja, landa.
Og VSK angrar mig lítið:
1: upplagið er of lítið,
2: selst ekkert hvort eð er.
Ágætt væri (ef ósanngjarnt) að fá þessi ritlaun úr almanna-sjóðum, þó ekki væri til annars en að fá til baka eitthvað af því sem ég hef verið rukkaður um í gegnum tíðina.
... en... ekki í 101 elítunni.
Blegh.
Ásgrímur Hartmannsson, 19.9.2014 kl. 20:16
Ásgrímur, þú gætir kannski skrifað reifara um Ísland og ESB. Ég myndi lesa þá bók og kannski Páll líka :)
Reyndar held ég að Páll gæti skrifað mjög skemmtilega skáldsögu um þetta efni líka, ef hann kærði sig um.
Wilhelm Emilsson, 19.9.2014 kl. 21:20
Prófaðu bara að lesa Guðmund Andra Icesave, Wilhelm.
Elle_, 19.9.2014 kl. 23:30
Evrópa er fín, Asía er allt í lagi, Ameríka er mjög sniðug...
Það er ESB sem ég fæ grænar bólur af. Og geópólitík. Það dót hljómar nákvæmlega jafn spennandi og að þurrka garnir.
Ásgrímur Hartmannsson, 19.9.2014 kl. 23:33
Í þessari grein kennir of mikilla alhæfinga, Páll minn.
Jafnvel glæpaspennubókmenntir geta verið þjóðlegar að auki. Þær geta jafnvel verið menningarlegri en margt það sem við birtum á bloggsíðum. Lestu bara Konungsbók Arnalds Indriðasonar, þá skilurðu hvað ég á við. Og eins og föður hans, Indriða G. Þorsteinssyni, lét svo vel, þá fangar Arnaldur í þessari o.fl bókum sínum íslenzka skapgerð, persónumótun og þankagang sem tilheyrir okkar þjóðmenningu og varðar líka stöðu okkar meðal þjóða. Við þurfum sízt að fyrirverða okkur fyrir slíka rithöfunda.
Og menningarverðmæti þeirra máttu ekki vanmeta.
Og það er engin ástæða til að hækka skatt á bókmenntir þessarar gömlu bókmenntaþjóðar upp í það fjórða hæsta í víðri veröld ! Skömm sé þeirri ríkisstjórn, sem það gerir.
Jón Valur Jensson, 19.9.2014 kl. 23:42
Páll er engum líkur:” Á örlagatímum skiluðu rithöfundar auðu,þess albúnir að fórna þjóðararfinum til sambands sem leit öðrum þræði á íslenska menningu sem hálfvitalega úrelda.”....en úrkynjaða rithöfunda til nokkurs gagns...
Helga Kristjánsdóttir, 20.9.2014 kl. 02:57
"Menningarverðmæti íslenskra rithöfunda er nákvæmlega núll." Ætli þetta sé ekki alvitlausasta fullyrðing sem fram hefur komið á þessu ári?
Björn Birgisson, 20.9.2014 kl. 13:50
Ég ætlaði ekki að nenna að gera athugasemd við þessa færslu. Svo út í bláinn er hún.
En ég skrái mig inn til að segja að ég er fullkomlega sammála JVJ.
Það er hæpið að afskrifa íslenskar nútímabókmenntir því það deyr og margt fólk eða koma ekki nógu margar kindur fyrir í sögunni.
Þetta VSK dæmi er vanhugsað, eins og sést á því að Illugi ráðherra talar um undanþágur hingað og þangað. Það er ekki gott kerfi sem þarf endalausar undanþágur.
Villi Asgeirsson, 20.9.2014 kl. 14:01
Guðmundur Andri Thorsson og Hallgrímur Helgason eiga enga virðingu skilið. Verð að bæta þessu við svo það sem ég skrifaði að ofan verði ekki rangtúlkað.
Elle_, 20.9.2014 kl. 17:37
Elle, takk fyrir athugasemdina. Ég hef gaman af því að lesa bækur eftir Íslendinga, hvort sem þeir eru ESB-sinnar eða í Heimssýn.
Ég tek undir það sem Jón Valur segir um Arnald Indriðason. Mér finnst Arnaldur mjög þjóðlegur.
Wilhelm Emilsson, 20.9.2014 kl. 18:05
Aldrei hef ég lesið neitt eftir Hallgrím Helgason. Seinasta verk eftir íslenskan höfund sem ég las var eftir Elí Freysson.
Það var allt í lagi. Man ekki eftir neinum kindum, en það voru fáein morð. Sem lá nokkuð ljóst fyrir hver framdi, svo það þurfti ekki að spökulera mikið í því.
Ásgrímur Hartmannsson, 21.9.2014 kl. 00:00
Það hendir alla að fá heimskulegar hugmyndir, vanhugsaðar og/eða órökréttar. Flestir eru gangrýnir á eigin hugsanir og hegðan og því fara bullhugmyndirnar sjaldan á kreik opinberlega. En aðrir hafa engan bremsubúnað eða lélegan. T.d. Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar með meiru. En Páll Vilhjálmsson er bremsulaus garmur.
Hjálmtýr V Heiðdal, 21.9.2014 kl. 08:42
Þegar ég les þennan texta dettur mér í hug að hér skorti höfund dýpri bókmenntaþekkingu. Merkileg alhæfing höfð hér í frammi þegar við eigum í okkar samtíma rithöfunda á borð við Þórarinn Eldjárn, Steinunni Sigurðardóttur, SJón, Vigdísi Grímsdóttur, Einar Kárason, Braga Ólafsson og gæti ég talið upp lengi, lengi.
PV ætti sennilega að lesa meira. Ef hann telur sig lesa mikið; ætti hann samt að lesa meira.
Það má einnig hafa í huga að sjálfur Laxness leit á margt í íslenskri samtímamenningu sem "geirfugl".
Hjörleifur Valsson, 22.9.2014 kl. 07:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.