Þriðjudagur, 2. september 2014
Vinstripólitík í tilvistarklemmu
Samfylking með 20%, Björt framtíð með 14% og Vg með 12% eru þeir þrír flokkar sem mynda vinstri væng stjórnmálanna. Engar líkur eru á því að þessir flokkar nái meirihluta í fyrirsjáanlegri framtíð.
Kannanir á kjörtímabilinu sýna að fylgisflæði er á milli Samfylkingar og Bjartar framtíðar en Vg er pikkfastur með stöðugt 12 prósent fylgi. Í kosningabaráttu eru áhrif formanna meiri en annars og þar flaggar Vg sterkum leiðtoga en hvorki formaður Bf né Samfylkingar halda máli.
Þegar dregur nær kosningum munu vinstriflokkarnir, einkum Samfylking og Björt framtíð, gera hosur sínar grænar fyrir Sjálfstæðisflokknum, sem er eini turn íslenskra stjórnmála. Eftir bæjarstjórnarkosningarnar í vor stungu fulltrúar Bf undan félögum sínum í Samfylkingu og hoppuðu upp í með Sjálfstæðisflokknum á lykilstöðum, s.s. Hafnarfirði og Kópavogi.
,,Kósí-pólitík" Bf leitar sjálfkrafa í hlýju valdsins en er algerlega ófær um að móta stefnu upp á eigin spýtur. Vinstripólitík mun ekki endurnýjast innan raða Bjartrar framtíðar.
Samfylkingin mun leggja sig í líma fyrir næstu þingkosningar að verða valkostur fyrir Sjálfstæðisflokkinn, m.a. fórna Evrópustefnu sinni og taka upp hægripólitík í efnahagsmálum. Við það opnast sóknarfæri frá vinstri fyrir Vg sem skartar formanni sem (oft) er tekið mark á. Vg er á hinn bóginn niðurnegldur minnihlutaflokkur sem ekki er í færum að komast yfir 15% - nema hrun komi til.
Við þessar kringumstæður verður ekki til vinstripólitískur valkostur í landsstjórninni. Spurningin er aðeins hvort Sjálfstæðisflokkurinn muni starfa með Framsóknarflokknum eða hægrivæddri Samfylkingu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.