Bjartur í Urðarseli

Sjálfstætt fólk, saga Halldórs Laxness um Bjart í Sumarhúsum, er saga kotbúskapar sjálfstæðismanns í harðbýlu landi. Vinstrimenn, einkum kratar, eru gjarnir að taka eina setningu úr bókinni til marks um fánýti stritsins.

Sagan af Bjarti í Sumarhúsum er saga mannsins, sem sáði í akur óvinar síns alt sitt líf, dag og nótt. Slík er saga sjálfstæðasta mannsins í landinu.

Hvergi kemur fram hver sé óvinur Bjarts. Þeir sem nota þessa tilvitnun láta að því liggja að kúgarinn sé nefndur í setningu á undan eða eftir. Það er rangt. Á undan ofanritaðri setningu stendur þetta:

Það er til í útlendum bókum ein heilög saga af manni sem varð fullkominn af því að sá í akur óvinar síns eina nótt.

Bjartur gerir meira en að sá í akur óvinarins eina nótt; það er iðja hans lífið út í gegn. Samkvæmt því er Bjartur mörgum sinnum fullkomnari en sá útlendi er sáði aðeins eina nótt í óvinaakur.

Hver er þá óvinurinn? Svar Laxness er á ská. Þegar Bjartur tapar Sumarhúsum, vegna þeirrar skammsýni að byggja of stórt og dýrt, fær hann ábúð á öðru örreitiskoti, Urðarseli, og fer þangað með lífsblóminu, Ástu Sóllilju, ásamt tveim börnum hennar og gamalli kerlingu. Guðbjartur er þess albúinn að hefja búskap að nýju.

Óvinurinn er brauðstritið, lífsbaráttan. Allir tapa þeirri baráttu að lokum. Spurningin er hvernig lífsbaráttan er háð; fullkomnun felst í að heyja baráttuna með reisn. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Áhugaverð pæling. Gaman væri samt að fá nánari upplýsingar um vinstrimennina og kratana sem Páll segir að taki orð Kiljans úr samhengi.

En var ekki Kiljan sjálfur vinstrimaður á þessum tíma og að mæra Sovét kommúnisma? Það breytir að sjálfsögðu engu um snilld skáldsögu hans. Eins og D. H. Lawrence sagði, „Never trust the teller, trust the tale."

Wilhelm Emilsson, 23.8.2014 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband