Laugardagur, 9. ágúst 2014
Hryðjuverk til heimabrúks virka ekki á netöld
Íslamistar í Sýrlandi og Írak nota villimannslegar aðfarir til að ýkja styrki sinn andspænis tvístruðum mótherjum. Hryðjuverk í þágu landvinninga og kúgunar er viðtekin venja í sögunni fremur en afbrigði.
Heimskringla segir frá Magnúsi berfætta sem beygði íbúa skosku eyjanna undir sig með hryðjuverkum. Vilhjálmur sigurvegari slátraði fólki og búfé í Norður-Englandi til að fylgja eftir sigrinum á Engilsöxum við Hastings. Hryðjuverk var herstjórnarlist krossfaranna, Djengis Kahn, spænsku landvinningamannanna og svo framvegis. Jafnvel í okkar friðsömu sögu koma fyrir hryðjuverk; í höfðingjaátökum Sturlungaaldar voru menn augnstungnir, aflimaðir og geltir.
Hryðjuverk til heimabrúks ná oft tilætluðum árangri. Norsku herkonungarnir frá Ólafi Tryggvasyni að telja brutu undir sig smákóngadæmin og stofnuðu eitt ríki; Normannar urðu herrar Englands og spænsku landvinningamennirnir réðu heilli heimsálfu.
Hryðjuverk brjóta á bak andstöðu fórnarlömbin eru hjálparlaus. Fjölmiðlar breyttu valdahlutföllunum með því að fórnarlömbin fengu rödd og ásýnd. Eftir því sem leið á 20. öldina varð erfiðara að stunda hryðjuverk til heimabrúks. Bandaríkjamenn töpuðu Víetnam-stríðinu vegna þess að fjölmiðlar afhjúpuðu grimmdina og tilgangsleysið: ,,við verðum að eyða þorpinu til að bjarga því."
Íslamistar, sem ætla að búa til kalífadæmi í Sýrlandi og Írak, fremja hryðjuverk til að lama mótstöðuna. En þegar fjölmiðlar kynna alþjóð hryðjuverkin kallar samúðin með fórnarlömbunum á hernaðaraðgerðir gegn íslamistum. Fjölmiðlar segja íslamista nýja vídd villimennskunnar sem vestrænum þjóðum ber skylda til að herja á.
Fréttir um níðingsverk íslamista á kristnum munu stórauka þrýstinginn á vestræn stórveldi að grípa í taumana. Illu heilli fyrir alla viðkomandi munu sprengjuárásir Breta og Bandaríkjamanna ekki bjarga neinu. Aðeins íbúar Sýrlands, Íraks og annarra ríkja á ófriðarsvæðum fyrir botni Miðjarðarhafs geta leyst úr þeim vanda sem þar er við að etja.
Bretar íhuga þátttöku í árásum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er kjánaleg einföldun, að halda að hernaðarsérfræðingar hafa ekki aðlagað sig að breittum aðstæðum.
Þegar þú lest grein, eins og þá vitnar í og lest að bandaríkjamenn hafi lagt heilan bæ í eyði í vietnam, en aðeins um hundrað mans dáið ... þá ættir þú að spyrja þig, hvort þú kallir það bæ, þar sem aðeins hundrað manns búa.
Vanadmál bandaríkjamanna í vietnam, voru fjölmiðlar ... alveg rétt. Eftir það, er aðeins sérstaklega völdum fjölmiðlamönnum heimilaður aðgangur. Þú ættir að spyrja sjálfan, af hverju ætti bandaríkjaher, að skipta sér af því "hver" fái að bera fréttirnar. Jú, það er til þess að einungis "þeirra" hlið komi fram.
Almenningur, eins og þú hefur alltaf verið "kjánar", sem aldrei sjá nema aðra hlið málsins. Og það er vegna slíkra kjána, sem stríð á sér stað. Stríð á sér ekki stað, vegna þess að menn deili ... heldur vegna þess að annar aðilinn, hefur fundið leið sem hann telur geta veitt sér sigur.
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 9.8.2014 kl. 15:07
góð lesning hjá ykkur báðum, Páli og Bjarne !!!
el-Toro, 9.8.2014 kl. 17:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.