Sunnudagur, 3. ágúst 2014
100 ára sjálfsmorð Evrópu
3. ágúst 1914 kl. 19:00 tókust þeir í hendur Wilhelm von Schoens sendiherra Þjóðverja og Rene Viviani forsætisráðherra Frakklands eftir að sá fyrrnefndi afhenti stríðsyfirlýsingu Þjóðverja. Þýska útgáfan Die Welt minnist atburðarins með fyrirsögninni Á þessum degi framdi Evrópa sjálfsmorð.
Víða í Evrópu var fagnað. Stríð var langþráð tilbreyting frá leiðinlegum hversdagsleika. Almannarómur var að stríðið stæði ekki nema i nokkrar vikur, líkt og síðasta stríð Frakka og Þjóðverja 1870/71. Stefan Zweig segir frá þýsk-austurrískri stríðshrifnæmi þessa sumardaga fyrir hundrað árum í bókinni Veröld sem var.
Zweig var austurrískur gyðingur og gerði það gott sem rithöfundur á árunum milli stríða. Ef einhver einn einstaklingur persónugerir sjálfsmorð Evrópu þá er það Stefan Zweig. Hann skrifaði um þýsk, frönsk og rússnesk skáld; Maríu Stúart drottningu Skota og lögreglustjóra Napoleóns. Viðfangsefnin sótti hann út um alla álfuna. Fyrst og fremst var hann þekktur fyrir smásögur sínar þar sem innri angist ef ekki sálfræðistríð keyrði áfram frásögnina.
Sjálfsmorð Evrópu dróst á langinn. Bandaríkin komu Evrópu til bjargar 1917 og ári seinna var saminn friður kenndur við Versali. Friðurinn stóð ekki lengi. Samlandi Zweig, maður að nafni Adolf Hitler, náði völdum í Þýskalandi undir þeim formerkjum að endurreisn með stríði væri hin rétta þýska aðferð.
Zweig flúði Hitler, fyrst til Bretlands, þá Bandaríkjanna og loks Brasilíu. Hann var einn mest lesni höfundur samtímans og þokkalega fjáður - ólíkt þorra flóttamanna. Zweig eignaðist nýja konu þrjátíu árum yngri og hélt skrifum áfram, lauk m.a. við Veröld sem var og Manntafl.
Sjálfsmorð Evrópu hófst með fyrri heimsstyrjöld og hélt áfram í þeirri seinni. Stefan Zweig fékk nóg af veröldinni eins og hún var orðin. Hann þreifst ekki í nýjum heimkynnum og örvænti um þau gömlu. Ásamt konu sinni, Charlotte Elisabeth Altmann, framdi Zweig sjálfsvíg þremur árum fyrir lok seinna stríðs.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.