Sunnudagur, 27. júlí 2014
Óðinn skriðdreki, fótbolti og pansari
Heimsmeistarar Þjóðverja í fótbolta eru helst kenndir við panzer í ítölskum og öðrum rómönskum fjölmiðlum. Panzer er þýskt orð yfir skriðdreka og er ásamt kindergarten og blitz fremur sjaldgæf útflutningsvara frá Þýskalandi, enda kaupa flestir annað þýskt en orð.
Einn fyrsti nothæfi skriðdreki Þjóðverja í fyrri heimstyrjöld hét Óðinn, Wotan upp á þýsku, sem vísar til germanskrar fortíðar.
Í íslenskum konungasögum kemur orðið pansari fyrir í merkingunni brynja. En bryndreki var á íslensku haft um stálbrynjað herskip, hliðstætt Panzerkreuzer. Skriðdreki átti einmitt upphaflega að vera bryndreki á hjólum eða beltum.
Athugasemdir
Sem betur fer eigum við Íslendingar engan skriðdreka þótt eigum varðskip vopnuð fallbyssum sem bera nöfn, sem vísa til germanskrar fortíðar.
Samt var það sérstök lífsreynsla að sitja í Gálgahrauni 21. október í fyrra þegar stærsta skriðbeltatæki landsins kom skröltandi að okkur, sem þar sátum, í fylgd 60 sérsveitarmanna með handjárn, gasbrúa og kylfur til að ryðja okkur úr vegi. Ég legg til að þessi jarðýta hljóti nafnið Baldur, en hann var friðsamastur ása.
Ómar Ragnarsson, 27.7.2014 kl. 13:40
Baldur,? Sem lifnaði jafnan við þótt drepinn væri,tækið verður þá aldrei til friðs.
Helga Kristjánsdóttir, 28.7.2014 kl. 03:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.