Frjálshyggja, samfélag og áfengi

Frjálshyggja í merkingunni lágmarksríkið sem tryggir eignaréttinn en fátt meira er í mótsögn við samfélag. Hvort heldur litið er til sögulegra dæma eða röklegs samhengis gengur frjálshyggja ekki upp í samfélagi.

Í samfélagi verða til lög og reglur um viðurkennd samskipti. Eftir atvikum eru lögin rædd og túlkuð. Meðal forn-grískra borgríkja var umræðan um hvað væri leyfilegt í samskiptum bandamanna og óvina í stríði, samkvæmt frásögn Þúkídídesar af Pelópsskagastríðinu.  Fyrir rúmum þúsund árum var á alþingi Íslendinga tekist á um hvort tvennir siðir og tvenn lög mættu gilda í landinu. Málamiðlun milli kristni og heiðni er lögð Þorgeiri Ljósvetningagoða í munn. Lykilsetning Þorgeirs  er eftirfarandi

miðlum svo mál á milli þeirra, að hvorir tveggju hafi nakkvað síns máls, og höfum allir ein lög og einn sið

Málamiðlun Þorgeirs vísar til samfélags þar sem margvísleg lög og reglur setja mönnum hömlur og mæla fyrir um hvernig skuli halda friðinn. Þó var ekkert ríkisvald á Íslandi á þjóðveldisöld og lifnaðarhættir fábrotnir í samanburði við nútíma.

Ef Þorgeir hefði verið frjálshyggjumaður myndi hann hafa sagt eitthvað á þá leið að ef heiðnir og kristnir gætu sameinast um að virða eignaréttinn og um helstu reglur um verslun og viðskipti mætti hver hafa sína trú.

Þorgeir var trúlaus í boðskap sínum, sagði að Íslendingar skyldu kristnir að nafninu til en leyfa iðkun heiðni, en hann var raunsær í áherslu sinni að lög og reglur halda samfélaginu saman. 

Kjarninn í klassískri frjálshyggju er eignarétturinn. Hversdagsleg reynsla segir að önnur gæði eru okkur ofar í huga en eignarétturinn, s.s. öryggi og heilbrigði. Við sættum okkur við margvíslegar takmarkanir á eignaréttinum. Bifreiðaeigendur mega til dæmis ekki aka bílum sínum hraðar en 30 km á klst. nærri skólum og við takmörkum skotvopnaeign.

Frjálshyggju og einstaklingsfrelsi er oft splæst saman og látið eins og þar falli flís við rass. En það er rangt. Frjálshyggjan snýst um eignaréttinn en ekki einstaklingsfrelsi. Eignarétturinn er skilgreindur af samfélagi; einn maður eyðieyju þarf ekki á eignarétti að halda.

Endrum og sinnum gýs upp umræða um að þessi og hin lögin takmarki einstaklingsfrelsi. Einatt eru frjálshyggju- og frelsisrök þar tvinnuð saman. Þessa dagana eru það áhugamenn um að dagvöruverslanir fái leyfi til að selja áfengi sem eru háværustu frjálshyggjumenn landsins.

Áfengi er vara sem hvorttveggja snertir gæði eins og öryggi, sbr. umferðaröryggi, og heilbrigði. Við búum við fyrirkomulag í áfengisverslun sem er þrautreynt til áratuga. Fyrirkomulagið tryggir aðgengi neytenda að áfengi en einnig samfélagslegt eftirlit og öryggi, t.d. með því að takmarka aðgang barna og unglinga.

Frjálshyggjurökin í áfengisumræðunni undirstrika málefnafátækt frjálshyggjumanna í tvennum skilningi. Í fyrsta lagi lítilmótlegar hugsjónir frjálshyggjumann - brennivín í búðirnar - og í öðru lagi fyrirlitningu frjálshyggjumanna á almennt viðurkenndum gæðum samfélagsins um öryggi og heilbrigði.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Tek undir þetta. Um "brennivín í búðirnar" gildir allt annað en þegar bjórinn var leyfður á sinni tíð og þegar vínbann var afnumið á fjórða áratugnum.

Hvort tveggja var gert að því að við gátum ekki verið eyland í þessum efnum, allt öðruvísi en aðrar þjóðir, vorum álitin viðundur í augum útlendinga.

Öðru máli gegnir um áfengissöluna sjálfa. Nágrannaþjóðir á borð við Svía hafa strangar reglur um hana og þar í landi er þjóðarvilji fyrir því. Svíar hafa í huga yfirgnæfandi niðurstöður rannsókna sem sýna fylgni á milli aðgengis og neyslu og þar með, að hið óhefta sölufrelsi er of dýru verði keypt.

Ómar Ragnarsson, 20.7.2014 kl. 15:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband