Laugardagur, 28. júní 2014
Sígildi stjórnmála: 10 ára goðadeila Davíðs og Ólafs Ragnars
Tíu ár eru síðan Ólafur Ragnar Grímsson forseti neitaði að skrifa undir fjölmiðlalög ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Fjölmiðlalögin áttu að takmarka veldi auðmanna, einkum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem átti stærstan hlut fjölmiðla í landinu.
Synjun Ólafs Ragnars á fjölmiðlalögum staðfesti yfirvald auðmanna sem fóru sínu fram hvað sem leið lögum og reglum. Afleiðingin birtist í hruninu fjórum árum síðar.
Oft er litið á slaginn um fjölmiðlalögin sem orustu á milli Davíðs Oddsonar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Jón Ásgeir reyndi ýmist að kaupa Davíð eða eyðileggja stjórnmálaferil hans.
Jón Ásgeir er engu að síður réttur og sléttur fjármálamaður með hugann við auðssöfnun. Völd í hans huga eru verkfæri til að eignast peninga.
Þegar Ólafur Ragnar synjaði fjölmiðlalögum staðfestingu var hann fyrst og fremst að veita Davíð Oddssyni pólitískt högg. Þeir tveir voru höfuðandstæðingar íslenskra stjórnmála allt frá Viðeyjarstjórninni 1991 þegar Davíð innbyrti Alþýðuflokk Jóns Baldvins frá Ólafi Ragnari sem vildi halda í vinstristjórn Steingríms Hermannssonar.
Ólafur Ragnar fann sér nýjan pólitískan vettvang þegar hann náði kjöri til forseta 1996. Meginástæðan fyrir kjöri Ólafs Ragnars, sem var þekktur pólitískur vígamaður á vinstrikantinum, var einmitt að litið var á hann sem mótvægi við hægrimanninn Davíð Oddsson sem gerðist nokkuð einráður í flokkastjórnmálum á þessum tíma.
Ólafur Ragnar og Davíð eru í þeim skilningi líkir goðum á þjóðveldisöld, t.d. Arnkeli Þórólfssyni og Snorra Þorgrímssonar í Eyrbyggju, að deilur þeirra voru málefnalega persónulegar. Harðsnúnir stuðningsmenn eru í liði beggja sem gera sitt til að málefnadeilur verði sem persónulegastar.
Mikilvægasta deilan í aðdraganda forsetasynjunar á fjölmiðlalögum var í febrúar sama ár. Davíð og Ólafur Ragnar tókust á um hlutverk forseta Íslands, þar sem Davíð lagði áherslu á hlutlausan þjóðhöfðingjaþáttinn en Ólafur Ragnar veigameiri hlutverk forsetans í stjórnskipuninni. Lagaþrætur eru einmitt drjúgur þáttur í deilum goða á þjóðveldisöld.
Forsetinn fór halloka í febrúardeilunni. Nánustu stuðningsmenn forsetans létu þau boð út ganga að það yrði að setja Davíð stólinn fyrir dyrnar með öllum tiltækum ráðum. Tækifærið kom um sumarið.
Ólafur Ragnar vísaði ekki með aukateknu orði í febrúardeilu þeirra Davíðs þegar hann synjaði fjölmiðlalögum staðfestingar 2. júní 2004. Allir sem fylgjast með stjórnmálum vissu þó að meira bjó að baki en snotur orð um að á hafi ,,skort samhljóminn sem þarf að vera milli þings og þjóðar í svo mikilvægu máli."
Nærfellt allir vinstrimenn studdu Ólaf Ragnar þegar hann veitti Davíð þungt pólitískt högg með synjun fjölmiðlalaga. Vinstrimönnum fannst ekkert athugavert við það að Ólafur Ragnar muldi undir þekktasta auðmann landsins sem hélt fjölmiðlum í heljargreipum. Mestu skipti að Davíð yrði fyrir pólitískri hneisu. Davíð hætti í stjórnmálum rúmu ári eftir synjun fjölmiðlalaga.
Jón Ásgeir og auðmannahópurinn skildi eftir sig nær gjaldþrota þjóð og forseta sem átti um sárt að binda vegna vinfengi við auðmenn. Icesave-málið var efnahagspólitískt uppgjör við skuldir auðmanna. Ríkisstjórn vinstrimanna, Jóhönnustjórnin, vildi fyrir alla muni hengja óreiðuskuldir einkabanka um háls almennings að kröfu Breta og Hollendinga.
Ólafur Ragnar synjaði Icesave-lögum staðfestingar í tvígang, 2010 og 2011, eftir umtalsverðan þrýsting frá sjálfssprottnum samtökum. Vinstristjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sú fyrsta hreina í lýðveldissögunni, átti allt undir framgangi Icesave-laganna. Þjóðin hafnaði lögum ríkisstjórnarinnar í tveim þjóðaratkvæðagreiðslum og vinstristjórnin bar ekki sitt barr eftir það.
Vinstrimenn töldu forsetann fremja pólitískan höfuðglæp með synjun Icesave-laganna og sóru af sér fyrrum oddvita sinn. Vinstrimenn blésu til vinsældakeppni um heppilegasta áskoranda Ólafs Ragnars í forsetakosningunum 2012 og fundu sjónvarpskonu. Ólafur Ragnar sigraði afgerandi og fékk meðal annars stuðning frá Davíð Oddssyni ritstjóra Morgunblaðsins.
Tíu ára afmæli goðadeilu Davíðs Oddssonar og Ólafs Ragnars um fjölmiðlalögin er áminning um að stjórnmál eru nokkru meira en summa þátttakendanna og heldur minna en hlutlæg vísindi. Stjórnmál eru sögulega skilgreind og iðkun þeirra samspil oddvita, stuðningsmanna, stofnana og almennings.
Athugasemdir
Þú skrair þetta eins og epilog, en þegar þessir tveir eru annars vegar þá er ekkert gefið.
Ragnhildur Kolka, 28.6.2014 kl. 13:15
Hanaslagur! Við mér blasir einn dáðasti rithöfundur þjóðarinnar,Guðbergur Bergsson í viðtali. Get ekki annað en hrifist af fínlegu háði hans,er hann hefur m.a.þetta að segja.Honum finnst samfélag okkar mjög heillandi og sérstaklega þessir útrásarvíkingar og fallið (fellan). Þeir eru algerir snillingar,settu landið á hausinn með samþykki þjóðarinnar,enda nákvæmlega eins og þjóðin,höfðu ekkert menningarvit,hugsuðu bara um munað,keyptu bara glingur ekkert sem er varanlegt. Þjóðin hefur óbeit á öllu sem stenst tímans tönn og kann ekki að meta það sem er mikils virði. Menning okkar er svo grunn.- - Báðir hafa þessir landshöfðingjar lagt áherslu á menningu í hátíðaræðum sínum,skal viðurkenna að í mínum eyrum hljómaði það sem fegrun ræðunnar. Ætli hinn almenni sívinnandi Íslendingur hafi haft nokkuð annað í huga,tækist honum að öngla saman meiru en til nauðþurfta,en að kaupa glingur. Þeir uxu ekkert upp úr þvi Ú-víkingarnir,frekar gleyptu þeir gull. -- Það er til marks um hverju tíminn fær áorkað,að maður lætur stópyrðin lönd og leið,sem áður fylgdu þessum óttalegu hruntíðindum.
Helga Kristjánsdóttir, 28.6.2014 kl. 15:05
Hér er hálfsögð sagan. Rétt fyrir aldamótin 2000 var svo komið að hægri menn réðu bæði yfir Morgunblaðinu og DV og Davíð hafði yfirburði á blaðamarkaðnum.
Þegar Fréttablaðið ruddist inn á þennan vettvang kom setning fjölmiðlalaganna í beinu framhaldi af þv og almenningur fann lykt af þessu eins og fleiru sem Davíð aðhafðist á þessum hárum þegar hann var einhver valdamesti maður í sögu landsins með stuðningi og í bandalagi við Halldór Ásgrímsson.
Þess vegna voru meira en 70% landsmanna á móti fjölmiðlalögunum í skoðanakönnunum og skópu "gjána" sem Ólafur Ragnar réttlæti synjunina með.
Afar langsótt er sú kenning að eignarhald og útgáfa á Fréttablaðinu hafi safnað efni í Hrunið og ekkert annað. Safnað var í þann báköst fyrst og fremst með einkavinasölu eða nánast gjöf á ríkisbönkunum og fleiru til einkavina Davíðs og Halldórs.
Ómar Ragnarsson, 28.6.2014 kl. 19:10
Ágætt að fá sýn Páls og viðauka Ragnhildar, Helgu (og Guðbergs) og Ómars um þessa merku atburði og pólitísku vígamennina, Davíð og Ólaf Ragnar.
Wilhelm Emilsson, 28.6.2014 kl. 22:50
Forvitnileg samantekt og e.t.v. hárrétt. Ómar Ragnarsson reynir þó að malda í móinn sé ég en horfir algerlega framhjá því áróðursstríði sem sett var í gang að undirlagi fjölmiðla Jóns Ásgeirs og annarra, sbr. RUV, sem sáu sér leik á borði að gera "kónginum" skráveifu.
Ólafur Als, 29.6.2014 kl. 08:07
Já og ekki má gleyma hryðjuverka Sollu einn höfuð andstæðing fjölmiðlalaganna sem líka rústaði orkuveitunni og hljóp svo undan sínum skyldum og henti í hausinn á okkur vitlausasta stjórnmálamanni Íslandsögunnar þá við höfðum minnst brúk fyrir svoleiðis.
Hrólfur Þ Hraundal, 30.6.2014 kl. 12:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.