Þriðjudagur, 17. júní 2014
Forsetinn, Moggi og lýðveldissinnar
Þriggja síðna viðtal við forseta Íslands í málgagni þjóðarinnar er vel við hæfi á sjötíu ára afmæli lýðveldisins. Ritstjóri Morgunblaðsins, Davíð Oddsson, og Ólafur Ragnar Grímsson voru fyrrum höfuðandstæðingar íslenskra stjórnmála. Þeir eru núna sömu megin víglínu stjórnmálaskeiðs þar sem í húfi er framtíð lýðveldisins.
Átök Davíðs og Ólafs Ragnars hófust þegar báðir voru á þingi. Þau náðu hámarki þegar forsetinn synjaði staðfestingar fjölmiðlalögum ríkisstjórnar Davíðs sumarið 2004. Milli þeirrar synjunar og hrunsins 2008 er það samhengi að auðmönnum héldu engin bönd.
Vinstristjórnin, sú fyrsta ,,hreina" á lýðveldistíma, sem stofnað var til vorið 2009 af Ólafi Ragnari breytti stjórnmálum meira en hrunið sjálft. Hrunið skók efnahaglegar undirstöður okkar og fékk þjóðina til að efast um lýðveldið sjálft, - að Íslendingar gætu farið með forræði eigin mála.
Vinstristjórn Jóhönnu Sigurðardóttur leiddi hrunið til rökréttarar pólitískrar niðurstöðu þeirra sem gáfust upp á lýðveldinu með því að sækja um aðild að Evrópusambandinu þann 16. júlí 2009.
Íslensk vinstristjórnmál eru tveggja þátta. Alþýðuflokkurinn var pólitískt heimili þeirra sem ekki vildu stofna lýðveldi fyrir 70 árum og þar er að finna hörðustu ESB-sinna samtímans. Feðgarnir Hannibal Valdimarsson og Jón Baldvin sameina þennan þátt; bók Hannibals, með greinum andsnúnum lýðveldisstofnun 1944, kom út um sama leyti og Jón Baldvin reisti merki ESB-sinna í Alþýðuflokknum um miðjan níunda áratug síðustu aldar.
Hinn meginþáttur íslenskra vinstristjórnmála er róttæk þjóðernishyggja Einars Olgeirssonar sem sat í bresku fangelsi í seinna stríði fyrir að berjast fyrir rétti íslenskra launamanna gegn breska setuliðinu. Einar og félagar hans í Sósíalistaflokknum, síðar Alþýðubandalaginu, urðu eindregnustu andstæðingar herstöðva bandaríska hersins á Íslandi. Ólafur Ragnar gekk Keflavíkurgöngur sem ungur stjórnmálamaður til að mótmæla herstöðinni á Miðnesheiði.
Íslendingar voru of uppteknir af útrás til að taka eftir því að bandaríski herinn hvarf úr landi eins og þjófur að nóttu árið 2006. Þar með var horfin mótsögnin milli sjálfstæðismanna, sem töldu herinn tryggingu gegn ásælni Rússa, og sjálfstæðismanna sem sáu í bandaríska hernum tilræði við sjálfstæði landsins.
Icesave-málið í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sig. leiddi saman pólitíska hópa sem áður voru á öndverðum meiði. Sjálfstæðismenn, bæði úr hægriflokkunum tveim og róttækir vinstrimenn (Ragnar Arnalds, Hjörleifur Guttormsson og fleiri), litu á Icesave-málið sem lið í að festa Ísland í viðjar Evrópusambandsins.
Ef Icseve-skuld Landsbankans hefði verið samþykkt sem þjóðarskuld Íslendinga gagnvart Bretum og Hollendingum væru Íslendingar hvorki með fjárhagslegt né siðferðilegt þrek til að standa gegn innlimun Íslands inn í Evrópusambandið.
Ólafur Ragnar Grímsson synjaði í tvígang Icesave-lögum vinstristjórnarinnar staðfestingar. Morgunblaðið var miðstöð málefnalegrar andstöðu við málið. Þriðji þátturinn voru sjálfssprottnar fjöldahreyfingar þar sem menn eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Frosti Sigurjónsson hlutu eldskírn í opinberri umræðu.
Eftir Icesave áttu lýðveldissinnar sviðið. ESB-umsóknin strandaði og stjórnarskrárbreytingar Jóhönnustjórnarinnar voru skotnar í kaf. Lýðveldissinnar tryggðu Ólafi Ragnari glæsilega kosningu 2012. Flokkar lýðveldissinna, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, voru sigurvegarar þingkosninganna 2013 en vinstriflokkarnir guldu afhroð.
Í viðtalinu við Morgunblaðið segir Ólafur Ragnar að besta framlag Íslands til alþjóðsamfélagsins er að sýna umheiminum að fámenn þjóð geti búið borgurum sínum efnahagslega og menningarlega velsæld. Lýðveldissinnar geta náð þessum árangri enda reisa þeir framtíðarsýn á íslenskum grunni. Vinstrimenn geta ekki náð viðlíka árangri enda þjakaðir af ,,sjálfsblekkingu neikvæðninnar" þar sem allt íslenskt er ónýtt en útlönd vegsömuð í bernskri einfeldni.
Lýðveldið var ekki sjálfgefið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Páll, þessi pistill er sá besti sem skrifaður hefur verið í íslensku bloggi. Takk fyrir.
Snorri Hansson, 17.6.2014 kl. 16:25
Góð grein, Páll, og margt vel mælt, m.a. er þetta athyglisvert:
"Ef Icseve-skuld Landsbankans hefði verið samþykkt sem þjóðarskuld Íslendinga gagnvart Bretum og Hollendingum væru Íslendingar hvorki með fjárhagslegt né siðferðilegt þrek til að standa gegn innlimun Íslands inn í Evrópusambandið."
Jón Valur Jensson, 17.6.2014 kl. 17:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.