Stríð, sekt og þroski

Sebastien Junger er blaðamaður með stríð sem sérsvið. Í viðtali vegna frumsýningar á heimildarmynd um hermennsku, Koregal, segir Junger að stríð þroski unga menn til ábyrgðar. ,,Sumir hermannanna áttu ekki bíl heima en keyrðu skriðdreka í Afganistan."

Annað einkenni stríðsreyndra er sektin vegna fallinna félaga. Þeir sem komast frá hildarleik finna oft til sektar vegna þeirra sem fórust. Sekt eftirlifenda er ekki bundin við hermennsku. Gyðingar sem lifðu herförina fundu til sektar.

Eftirlifendasekt eykur vitundina um hve lífið er brothætt enda ræður tilviljun oft lífi og dauða. Byssukúla í enni félaga gæti svo auðveldlega hitt mann sjálfan.

Junger segir stríð gefa mönnum þrótt og tilgang. Hermönnum reynist mörgum erfitt að aðlagast hversdagslífinu á ný enda það einatt þróttlítið og merkingarlaust. Annar þrautreyndur stríðsblaðamaður, Chris Hedges, segir blákalt að stríð sé afl sem gefi okkur merkingu. ,,Við" í orðfæri Hedges vísar til þeirra sem gefa sig í stríðsþátttöku.

Stríð býr að merkingu þvert á menningarheima. Ungir múslímskir karlmenn, sem aldir eru upp á Vesturlöndum, leita sér tilgangs með þátttöku í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi.

Mótsögnin sem felst í því að finna lífi sinu tilgang með athæfi sem deyðir og tortímir er í senn augljós og myrk.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband