Föstudagur, 16. maí 2014
Obama stjórnar Evrópu; Merkel vildi ekki sjálfsmorð
Barak Obama Bandaríkjaforseti var í forsæti á fundi í franska kvikmyndabænum Cannes í nóvember 2011 þegar evru-kreppan var við það að brjóta Evrópusambandið í sína upphaflegu þjóðríkjabúta. Leiðtogar ESB voru ráðalausir eins og þeir voru örvæntingafullir.
Á fundinum sagðist Angela Merkel ekki fremja pólitískt sjálfsmorð með því að fara gegn ráðum þýska seðlabankans við lausn evru-kreppunnar. Hvöss skoðanaskipti milli Obama og Merkel leiddu ekki til niðurstöðu. Eftir fundinn tók Obama utan um Merkel til að hugga hana. Augnablikið náðist á ljósmynd sem endurbirt er í greinarflokki FT um evru-kreppuna.
Merkel framdi ekki pólitískt sjálfsmorð en hún tók þátt í því með Frakklandsforseta að velta úr valdastól tveim forsætisráðherrum í Suður-Evrópu; Papandreou í Grikklandi og Berlusconi á Ítalíu. Félagarnir voru ekki nógu leiðitamir og móuðust við ákvörðunum teknum á vettvangi ESB - en af Merkel og Sarkozy, þáverandi Frakklandsforseta.
Greinarflokkur FT veitir innsýn í stjórnmál Evrópusambandsins; hve veik og ruglingsleg ákvarðanataka er og hve lítt hirt er um lýðræðislegar meginreglur; svo sem að lýðræðislega kjörnir leiðtogar þjóðríkja skuli halda embættum sínum þótt þeir lendi upp á kant við máttarvöldin í Brussel.
Evrópusambandið er ekki góður staður til að vera á fyrir þjóðir sem einhvers meta fullveldi sitt og sjálfsákvörðunarrétt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.