Sunnudagur, 4. mars 2007
Bloggið bjargar stjórnmálaumræðunni
Tvö til þrjú ný framboð eru í bígerð fyrir þingkosningarnar í vor og er það til marks um líflegan stjórnmálaáhuga landsmanna. Ekki síður eru framboðin vitnisburður um að áhugafólk telji sig hafa möguleika á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Bloggið er án efa snar þáttur í þeirri sannfæringu væntanlegra framboða að útgerðin geti gert sig.
Bloggið jafnar að nokkru þann lýðræðishalla sem myndaðist þegar starfandi stjórnmálaflokkar komu sér saman um stóraukinn opinberan fjárstuðning sér til handa. Þrátt fyrir að rök stóðu til þess að réttmætt væri að auka opinberan stuðning til stjórnmálaflokka, m.a. til að þeir geti betur staðist þrýsting peningaafla í landinu, þá var hætta á að erfitt yrði fyrir ný framboð að keppa við ríkisstyrkta flokka.
Bloggið hefur þegar sannað sig fyrir Margréti Sverrisdóttur sem bloggaði sig í gegnum átökin í Frjálslynda flokknum fyrr í vetur. Ómar Ragnarsson nær eyrum, eða á maður að segja augum, þúsunda með bloggsíðu sinni. Þá eru margir ungir stjórnmálamenn í gömlu flokkunum sem hafa nýtt sér þennan vettvang til að ræða sín mál. Eygló Harðardóttir, Sóley Tómasdóttir, Andrea Ólafsdóttir og Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir eru í þessum flokki auk fjölda annarra.
Í blogginu tala stjórnmálamenn milliliðalaust við fólk. En ekki síður er bloggið mikilvægur milliliður milli nýrra framboða og ungra stjórnmálamanna annars vegar og hins vegar ráðsettu fjölmiðlanna (hrútana og sauðina, þið vitið). Starfandi blaða- og fréttamenn fylgjast með blogginu og gera sér mat úr því eftir efnum og ástæðum. Tveggja þrepa fyrirkomulag af þessu tagi er báðum aðilum til gagns og þjónar einnig almannahagsmunum. Ef ekki væri fyrir bloggið myndu færri raddir heyrast í fjölmiðlum.
Er nokkuð ofmælt að bloggið bjargi stjórnmálaumræðunni?
Athugasemdir
Ég hef fylgst með því hvaða áhrif Netið hefur á stjórnmál nokkrar síðustu kosningar og flest bendir til að það hafi ekki haft veruleg áhrif hingað til - nema helst til að dreifa gróusögum um fólk. Ég er hins vegar sannfærð um að það mun breytast en sennilega hægar er maður ímyndar sér af umræðunni á moggablogginu.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 5.3.2007 kl. 15:29
Öll skoðanaskipti, séu þau uppbyggjandi og studd rökum, eru af hinu góða og styður við lýðræðið. Auðvitað er alltaf hægt að sýna fram á að netið hafi ýtt undir sóðaskap og ákúrur í kringum kosningar eða í tengslum við almenna umræðu. Það er hins vegar fólks að meta það sem það les og móta sér skoðanir útfrá því.
Netið hefur verið kallað á ensku "information highway" þegar það ætti í raun að vera kallað "data highway". Netið er fullt af gögnum, en það þarf að vinna úr þeim til að þau geti talist upplýsingar. Með auknu magni gagna, eykst um leið krafan til almennings um að vinna úr því sem það les.
Vandamálið er hvort almenningur hafi hæfnina til að taka allan þennan fjölda gagna og vinna úr þeim.
Annað er líka nokkuð sem vert er að huga að, hvort aukin umræða á netinu verði til þess að stjórnmálamenn sem hingað til hafa elt skoðanakannanir, fari að elta dægurmál og skoðanir þeim tengdum, allt vegna þess að þetta er aðgengilegra nú en áður.
Bloggið hefur áhrif á almenna umræðu og hegðun stjórnmálamanna, klámmálið svo kallaða er gott dæmi um það.
Jón Lárusson, 5.3.2007 kl. 17:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.