Landamæri í Evrópu: Belgía 1914 og Úkraína 2014

Landamæri Belgíu voru tryggð með stórveldasamkomulagi í London 1839. Í upphafi fyrri heimsstyrjaldar gerðu Þjóðverjar Bretum orð að þeir þurfi að fara yfir belgískt landsvæði til að herja á Frakka og jafnframt að ætlunin væri ekki að hernema Belgíu.

Bretar sögðu Þjóðverjum stríð á hendur 4. ágúst 1914 vegna landamæra Belgíu, sem Þjóðverjar virtu ekki.

Bretar hefðu án vandkvæða eða verulegra eftirmála sem hægast látið sáttmálann frá 1839 liggja grafinn í skjalageymslum í Westminster. En þeir gerðu það ekki og ástæðan var ekki samúð með Belgíu heldur allt önnur. Bretar töldu Þjóðverja óttuðust forræði á meginlandi Evrópu og töldu það ógna hagsmunum sínum.

Víkur nú sögunni til landamæra Úkraínu í samtímanum. Þau voru staðfest með stórveldasamkomulagi í Búdapest árið 1994 í tengslum við kjarnorkuafvopnun landsins eftir fall Sovétríkjanna. Bandaríkin og Bretland voru aðilar að samkomulaginu.

Fyrir nokkrum vikum hirtu Rússar hluta af Úkraínu, það er Krímskaga, og gerðu að rússnesku landsvæði. Hvers vegna sögðu Bretar og Bandaríkjamenn ekki Rússum stríð á hendur?

Jú, ástæðan er stórveldapólitík. Bandaríkjaforseti sagði Rússa ekki stórveldi heldur héraðsvald í Austur-Evrópu sem ógnaði næstu nágrönnum en ekki friði í álfunni. Hvorki Bandaríkin og enn síður Bretaland eiga nægilega ríkra hagsmuna að gæta í þessum hluta Austur-Evrópu að það réttlæti hernaðaraðgerðir af þeirra hálfu.

Héraðshöfðinginn Pútín fær þess vegna að breyta landamærum evrópsks ríkis árið 2014, þótt landmærin séu tryggð með stórveldasamkomulagi. Þjóðverjar, á hinn bóginn, sem vildu aðeins nota belgíska vegakerfið til að komast að Frökkum, fengu á sig stríðsyfirlýsingu. Hér skortir á samkvæmni.

Þegar til stykkisins kemur skipta sáttmálar ekki máli. Ef Bandaríkin teldu Rússa ógna Evrópu og þar með bandarískum hagsmunum væri annað hljóð í strokknum vegna Búdapestsamkomulagsins. En það væri ekki vegna umhyggju fyrir Úkraínu. Óvinur Úkraínu er ekki nógu mikil ógnun fyrir hagsmuni stórveldanna til að þau virði undirskrifaða sáttmála um landamæri milli ríkja.

Munurinn á Belgíu 1914 og Úkraínu 2014 er að Þjóðverjar ógnuðu stórveldahagsmunum Breta fyrir hundrað árum en Bandaríkjamönnum stafar ekki hætta af útþenslustefnu Rússa - enn sem komið er.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Sigurðsson

Gott að þú skulir minnast á að rússar skrifuðu undir alþjóðlegan samning um að verja landamæri Úkraínu gegn því að þeir afsöluðu sér kjarnorkuvopnum. Það er hryllilegt að hugsa sér til um það fordæmi sem komið er hér hjá Rússlandi gagnfram þjóðum sem vilja afvopna sig kjarnorkuvánni og skilaboðin eru skýr, EKKI AFVOPNA YKKUR. Og gleymum ekki, úkraínumenn eru fullkomnlega færir um að byggja aftur upp kjarnorkuvopnabúr sitt enda sitja þeir uppi með enn eina blessun Rússlands, Chernobil...

Þorsteinn Sigurðsson, 20.4.2014 kl. 12:54

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er hárrétt hjá þér, Páll, að Þjóðverjar fóru aðeins fram á það 1914 að fá að flytja her í gegnum Belgíu en ekki að leggja landið allt undir sig. Hugsanlega hefðu þeir getað notað járnbrautir til þess.

Raunar fengu þeir leyfi hjá hinum hlutlausu Svíum í seinni heimsstyrjöldinni til að flytja hermenn í járnbrautum frá Noregi í gegnum Svíþjóð til Finnlands. Samt hrófluðu hvorki Þjóðverjar né Bandamenn Svía við því mati að Svíar væru hlutlaust ríki. Hvers vegna? Af því að það hentaði hvorki Þjóðverjum né Bandamönnum.   

Enn 1914 óraði engan fyrir umfangi og afleiðingum stríðs. Allir stríðsaðilar héldu að þetta yrði stutt stríð, jafnvel búið fyrir jól.

Nú, 2014, reynslunni ríkari, telja menn greinilega ekki rétt að taka neina áhættu, vitandi það að Rússar eru annað mesta kjarnorkuveldi heims.

1956 réðust Sovétríkin inn í Ungverjaland til að berja niður uppreisn án þess að Vesturveldin hreyfðu hönd né fót.

1968 réðust Sovétríkin ásamt bandamönnum sínum (leppríkjum)  í Austur-Evrópu inn í Tékkóslóvakíu, án þess að Vesturveldin hefðust að.

Vesturveldin höfðust heldur ekki að hernaðarlega þegar Sovétríkin réðust inn í Afganistan 1979.

Á móti létu Rússar sér það vel líka þegar NATO réðist inn í Afganistan eftir árásina á Bandaríkin 2001, af því að það hentaði Rússum beint í þeirra eigin vandræðum vegna múslima á suðurvæng fyrrum Sovétríkja.   

Ómar Ragnarsson, 20.4.2014 kl. 14:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband