Sunnudagur, 13. apríl 2014
Alþjóðleg eftirspurn eftir íslenskri verðbólgu
Frá aldamótum er verðbólga á Íslandi um og yfir fimm prósent, að frátöldu skoti eftir hrun. Við erum að missa verðbólguna niður í tvö prósent einmitt þegar alþjóðahagkerfið er í sárri neyð vegna skorts á verðbólgu.
Til skamms tíma var viðurkennt að æskileg verðbólga væri fyrir ofan tvö prósent en fyrir neðan þrjú prósent. Þróuð hagkerfi austan hafs og vestan hafa misst verðbólguna niður fyrir tvö prósentin og stefna lóðbeint í verðhjöðnun.
Ef verðbólga er fordyr helvítis þá er verðhjöðnun sjálf vítisvistin. Verðhjöðnun lýsir sér þannig að verðfall á vöru og þjónustu leiðir til væntinga um aukið verðfall og þar með minni eftirspurn sem þrýstir verðinu enn meira niður. Efnahagskerfið verður eins og gamalmenni; hreyfir sig hægt, brennir litlu og tekur lítið til sín enda á leið í gröfina. Verðhjöðnun leikur ríkisfjármál grátt. Þegar efnahagskerfið skreppur saman verða skuldirnar hlutfallslega meiri því að nafnverð þeirra breytist ekki þótt verðhjöðnun ráði ferðinni á markaði.
Á evru-svæðinu er verðbólga 0,5 prósent, sem þýðir að verðhjöðnun er hafin í jaðarríkjum. Mario Draghi seðlabankastjóri evrunnar hótar að búa til verðbólgu með peningaprentun - en tengir hótunina við sterka stöðu dollars gagnvart evru til að selja hótunina Þjóðverjum sem óttast verðbólgu meira en flest annað - nema ef vera skyldi hrun útflutningsmarkaða fyrir þýskar vörur.
Hagfræðipælarar velta upp þeirri spurningu hvort lægri vextir, sem endurspegla lága verðbólgu, sé forsögn um grundvallarbreytingu á hagkerfinu. Ef það er tilfellið og verðbólga verður rétt á mörkum þess að detta niður í verðhjöðnun er orðinn verulegur vandi að reka seðlabanka og var hann þó ærinn fyrir.
Vextir eru vald og máttur seðlabanka um allan heim til að auka virkni hagkerfisins, með því að lækka vexti, eða draga úr þenslu með því að hækka vexti. Ef vexti eru rétt ofan við núllið þá eru seðlabankar ekki lengur með neitt svigrúm til að vinna með.
Síðustu fréttir af mikilvægasta seðlabanka alþjóðahagkerfisins, þess bandaríska, herma að hálfgert öngþveiti sé að grípa um sig. Hagvöxtur og atvinnuleysistölur voru lengi vel ráðandi viðmið um vaxtaákvarðanir. Núna er eins og samkomulag sé um að fleiri þætti þurfi að meta en engin eining er um hvaða þætti.
Á meðan alþjóðahagkerfið líður fyrir skort á verðbólgu er Ísland með eindæmum heilbrigða stöðu í verðlagsþróun. Brátt leita hagfræðingar úr víðri veröld fyrirmyndar til Íslands þar sem hornsteinn hagstjórnarinnar er krónan.
Gera ráð fyrir 2,3% verðbólgu í apríl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.