Föstudagur, 4. apríl 2014
Auðmaður veðjaði á Samfylkinguna - og tapði
Helgi Magnússon er auðmaður með sterka tengingu í lífeyrissjóðakerfið; hann fer fyrir lítlum hópi sem stjórnar Samtökum iðnaðarins og hefur víða ítök öflugum fyrirtækjum, t.d. Símanum. Helgi er búinn að vera lengi að; tók þátt í Hafskipsævintýrinu með Björgólfi eldri á níunda áratug síðustu aldar.
Í dag er Helgi ekki maður sáttur. Hann veðjaði á að Samfylkingin yrði ráðandi afl í íslenskum stjórnmálum og ætlaði með samfylkingardeild Sjálfstæðisflokksins (ásamt Benedikt Jóhannessyni, Þorsteini Pálssyni og fleiri slíkum) að náð góðri stöðu á gráa svæði stjórnmála og fjármála þar sem auðssöfnun er hvað hagkvæmust.
Helgi yfirlýstur ESB-sinni enda aðild að Evrópusambandinu sú pólitík sem límir Samfylkinguna við auðmenn af sauðahúsi Helga.
Helgi er með böggum hildar eftir að Samfylkingin varð að smáflokki með 12,9 prósent fylgi. Án atbeina Samfylkingar er Helgi kominn út í horn á gráa svæði stjórnmála og fjármála og þar er ekki gott að vera. Samfylkingardeild Helga og félaga í Sjálfstæðisflokknum er algerlega áhrifalaus á meðan móðurflokkurinn er með léttvínsfylgi.
Örvæntingin um að komast ekki að kjötkötlunum leiddi Helga til að skrifa tölvupóst til félaga sinna þar sem hann dregur upp dökka mynd af möguleikum sínum og sinna bandamanna til að klófesta eignir og fyrirtæki sem brátt koma á markað vegna uppgjörs föllnu bankanna. Kjarninn birtir tölvupóstinn. Lykilmálsgrein er eftirfarandi
Spillt hugsun Framsóknar og Sjálfstæðismanna, sem mjög hefur verið gagnrýnd og er talin hluti af orsökum hrunsins árið 2008, er enn til staðar. Helmingaskiptamórallinn er enn í fullu gildi. Og þá gegnir Seðlabankinn lykilhlutverki. Hjá bankanum er vistað eignarhaldsfélag sem tekur við ýmsum eignum sem tilheyra uppgjörum eftir hrun vegna þrotabúa og annara mála. Framundan er að þetta eignarhaldsfélag taki við krónueignum úr þrotabúum Kaupþings og Glitnis, m.a. hlutabréfum í Arion og Íslandsbanka. Þá skiptir miklu máli að Framsóknarmenn fái annan bankann á mjög góðu verði og handgengnir sjálfstæðismenn hinn.
Helgi er vitanlega hafinn yfir spillingu og myndi aldrei nýta sér stöðu á gráa svæði stjórnmála og fjármála til að auðgast. Helgi er hugsjónamaður sem allt frá dögum Hafskipa er vakandi og sofandi yfir velferð þjóðarinnar. Allt sem Helgi gerir er í þágu almannahags. Honum svíður sárt að aðrir auðmenn en hann sjálfur komist í sterka stöðu á gráa svæðinu enda veit hann - líklega af reynslu - að aðrir auðmenn eru skítseiði sem hugsa aðeins um eigin hag.
Helgi Magnússon er réttnefndur Helgi prúði sakir göfuglyndis og ósérhlífni við að fletta ofan af spilltum auðmönnum.
Athugasemdir
Helgi Magnússon þarf ekki óvini til að benda á siðleysi viðskipta hans meðan hann hefur lyklaborð til að spila á.
Ragnhildur Kolka, 4.4.2014 kl. 09:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.