Morgunblaðið telur fjölmiðla hafna yfir gagnrýni

Víkverji Morgunblaðsins í dag tekur sjálfan sig til bæna fyrir að hafa gagnrýnt fjölmiðil í liðinni viku. Ritstjórn Morgunblaðsins telur að fjölmiðlum sé ekki sæmandi að gagnrýna fjölmiðla. Þetta viðhorf er einstætt meðal fjölmiðla á Vesturlöndum. Ef dagblað í Evrópu eða Bandaríkjunum vogaði sér að tefla fram þessu sjónarmiði yrði það sakað um svik við upplýsta umræðu. Með því að gefa fjölmiðlum undanþágu frá gagnrýni er með öðrum orðum sagt að þeir séu hafnir yfir gagnrýni.

Morgunblaðið hefur áður haldið fram sama sjónarmiði. Í nóvember árið 2000 skrifaði höfundur þessarar síðu grein í Morgunblaðið. Kjarninn í greininni fer hér á eftir.

Í leiðara Morgunblaðsins frá 7. nóvember er fjallað um orð forsætisráðherra á fundi með sagnfræðingum í vikunni áður um griðabandalag fjölmiðla.

,,En er til griðabandalag á milli fjölmiðla? Frá sjónarhóli Morgunblaðsins er skýringin á því, að fjölmiðlar gera lítið af því að gagnrýna fagleg vinnubrögð hver annars þessi: veruleikinn er sá, að hver fjölmiðill um sig og þar á meðal Morgunblaðið á fullt í fangi með að halda uppi viðunandi faglegum vinnubrögðum á eigin vettvangi. Það er því hætt við að þeir, sem taka upp á því að gagnrýna aðra á þeim forsendum, séu að kasta grjóti úr glerhúsi. Þetta er áreiðanlega meginskýringin á því að svo lítið er um innbyrðis gagnrýni á milli fjölmiðla."

Ef sama röksemdafærsla væri notuð á stjórnmál ætti stjórnarandstaðan ekki að gagnrýna ríkisstjórnina. Ríkisstjórnir hvers tíma eiga jú fullt í fangi með að halda uppi réttu og góðu stjórnarfari og stjórnarandstaðan kastaði grjóti úr glerhúsi ef hún leyfði sér að gagnrýna stjórnina í dag því hún var ríkisstjórnin í gær og gæti farið á ný í stjórn á morgun.

Vísindi og fræði yrðu ekki stunduð ef rök Morgunblaðsins væru tekin gild. Framþróun vísinda byggist á að fyrri aðferðafræði og niðurstöður eru gagnrýndar. Þar með er ekki sagt að gagnrýnin sé ávallt réttmæt, fremur en gagnrýni stjórnarandstöðu á stjórn. Gagnrýni er tilraun til að bæta það sem fyrir er. Og oftast þarf margar tilraunir til að bæta úr ríkjandi ástandi, hvort heldur það er í stjórnmálum, vísindum eða - hjálpi okkur - blaðamennsku.

Þegar háborg íslenskrar blaðamennsku gefur það út að íslensk blaðamennska geti ekki haldið úti gagnrýni á sjálfa sig vegna þess að hún er svo léleg þá eru höfð endaskipti á sannleikanum. Íslensk blaðamennska er í kreppu vegna þess að stéttin sjálf og forráðamenn fjölmiðla eru í þegjandi samkomulagi um að grið skuli haldin og fjölmiðlagagnrýni höfð í lágmarki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Ásbjörnsson

Bíddu nú við var ekki Mogginn hrútakofi nr. 1 hjá þér fyrir nokkrum færslum?

Sigurður Ásbjörnsson, 4.3.2007 kl. 21:09

2 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Jú, en Moggi hrútur er ekki hafinn yfir gagnrýni.

Páll Vilhjálmsson, 4.3.2007 kl. 21:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband