Föstudagur, 28. mars 2014
ESB-aðild er afgangsstærð, líka meðal ESB-sinna
Þeir sem gefa sig upp sem ESB-sinna/viðræðusinna/kíkja-í-pakkann-sinna tefla yfirleitt fram tvennum rökum. Í fyrsta lagi að Íslendingar geti ekki staðið á eigin fótum og í öðru lagi að við græðum á aðild (lægri vextir, ódýrari matvara o.s. frv.)
Afar sjaldan heyrast þau rök að Ísland eigi erindi í ,,Evrópu-verkefnið" sem svo er kallað á meginlandinu með tilheyrandi sögulegum tilvísunum í sambúðarvanda þjóða álfunnar. Hugmyndin um ,,Evrópu-verkefnið" er framandi Íslendingum enda ekki í neinn sögulegan sambúðarvanda að vísa í. Þær tvær innrásir sem íslensk saga geymir, Tyrkjaránið 1627 og hernám Breta 1940, eru léttvægar í samanburði við ófriðarsögu meginlandsins.
Ísland var lengi einangruð hjálenda evrópsks smáríkis. Söguleg arfleifð þess tímabils er óbeit á erlendum yfirráðum og andstyggð á fyrirætlunum að flytja forræði íslenskra mála til meginlands Evrópu.
Í skoðanakönnunum um Evrópumál er staðfesta aðspurðra mæld með því að spyrja hvort fólk sé mjög hlynnt/andvígt aðild eða fremur hlynnt/andvígt. Á þann mælikvarða skora andstæðingar mun hærra þar sem afstaða þeirra til málsins er eindrægnari en ESB-sinna.
ESB-sinnar áttu flokk og eiga enn, Samfylkinguna, sem í pólitíska litrófinu er miðvinstriflokkur. Við síðustu þingkosingar var Samfylkingin eini flokkurinn sem bauð fram aðild að Evrópusambandinu sem lausn á almennir pólitískri og efnhagslegri stöðu landsins. Aðeins 12,9 prósent þjóðarinnar studdi Samfylkinguna. En þó sýna mælingar að allt að þriðjungur þjóðarinnar vill ESB-aðild.
Samantekið: ESB-aðild er aukaatriði í íslenskum stjórnmálum. Þeir sem í orði kveðnu eru hlynntir aðild setja Evrópumál neðarlega í forgangsröð pólitískra málefna. Af þessu má ráða að stofnun flokks um ESB-aðild yrði aðeins til þess að auglýsa veikleika ESB-sinna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.