Fimmtudagur, 20. mars 2014
Hagfræðitilraun að ljúka - útkoma óviss
Kaup Seðlabanka Bandaríkjanna á skuldabréfum er peningaprentun til að auka fjármagnsflæði í hagkerfinu. Kaupin voru ákveðin í kjölfar bankakreppunnar 2008 til að vinna gegn samdrætti í útlánum banka.
Í meginatriðum tókst tilraunin, séð frá bandarískum sjónarhóli. Bandaríkin standa efnahagslega sterkt í samanburði við aðrar þjóðir. Tvær helstu hagstærðir sem metnar eru í samhengi við tilraunina, atvinnuleysi og verðbólga, eru frambærilegar, einkum í samanburði við Evrópu. Atvinnuleysi í Bandaríkjunum er 6,7% en 12,1% í ESB og verðbólga er 1,1% vestan hafs en 0,7 á meginlandi Evrópu - og stefnir þar í verðhjöðnun.
Ódýru dollararnir, sem prentaðir eru í Bandaríkjunum, fóru víða um heim í leit að ávöxtun. Þegar skipulega er dregið úr peningaprentuninni veldur það útflæði fjármagns frá nýmarkaðslöndum eins og Tyrklandi, Indónesíu og Rússlandi (sem reyndar margfaldast vegna deilunnar um Krímskaga). Útflæði fjármagns veldur efnahagssamdrætti og pólitískri ókyrrð, sem ekki ekki sér fyrir endann á.
Bandarísk umfjöllun um áherslubreytingar seðlabankans þar í landi taka eðlilega mið af bandarískum aðstæðum. Viðskipti og efnahagsmál eru á hinn bóginn alþjóðleg. Ef minna framboð af ódýrum bandaríkjadollurum veldur efnahagskreppu og pólitískri upplausn annars staðar í heiminum er ekki víst að hagfræðitilraunin, sem hófst 2008, verði talin vel heppnuð þegar kurlin koma öll til grafar.
Seðlabankinn dregur enn úr stuðningi sínum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.