Drykkjavenjur Morgunblaðsins

Að jafnaði eru forystugreinar Morgunblaðsins alsgáðar og í borgaralegum anda. En þegar kemur að umræðu um drykki, áfengum eða ekki, hættir blaðinu til að beita röksemdafærslu sem heldur ekki vatni. Nú síðast um sykraða gosdrykki.

Í Staksteinum á miðvikudag var Ágústi Ólafi Ágústssyni þingmanni Samfylkingarinnar hrósað fyrir að vilja leggja af skatt á sykraða gosdrykki. Rökin sem Ágúst færir fyrir máli sínu eru gamalkunn úr áfengisumræðu í leiðaraskrifum Morgunblaðsins.

Ágúst Ólafur segir að þrátt fyrir að við séum með háa skatta á sykurgosdrykki sé neyslan mikil. Því ættum við að leggja skattana af, enda séu þeir forsjárhyggja. Við eigum að setja fjármuni í fræðslu og treysta fólki að fara eftir skynsamlegum ábendingum um hollustu. Margsinnis hefur Morgunblaðið farið með áþekka rullu um áfengi, blaðið vill selja það í matvörubúðum og treysta fólki.

Ef við prófum röksemdina á öðrum sviðum þjóðfélagsins sést hversu haldlítil hún er. Treystir Ágúst Ólafur sér til þess, nú eða þá Morgunblaðið, að halda eftirfarandi fram?

Á Íslandi eru meiri hraðatakmarkanir í umferðinni en víðast hvar í nágrannalöndum okkar. Þrátt fyrir það er há slysa- og dánartíðni hér á landi vegna hraðaksturs. Við eigum að afnema hámarkshraða í umferðinni, það er gamaldags forsjárhyggja, og treysta fólki til að aka varlega.

Hægt er að setja fíkniefni inn í rökhenduna og fá út að við eigum að leyfa þau; skotvopn og afnema skotvopnaleyfi; læknaleyfi og hætta að gefa þau út því að þrátt fyrir læknaleyfin eru gerð læknamistök. Og svo má áfram telja lög og reglur sem ætti að afnema samkvæmt rökleiðslunni.

Sjálfsagt er að ræða hvort eitt eigi að leyfa en banna annað og endurskoða reglulega gildandi lög og reglur. En það er full langt gengið að setja málefni eins og offitu barna og áfengisneyslu inn í jöfnu sem gefur alltaf sömu niðurstöðuna og kalla það rökstuðning.

Ef Ágúst Ólafur og Staksteinn telja að offita barna sé ekkert tiltökumál og óþarfi að samfélagið reisi skorður við sykurneyslu fer betur á því að segja það upphátt.

Ágúst Ólafur er með í því að gera Samfylkinguna að hægrisinnuðum popúlistaflokki með eftirtektarverðum árangri. En má ekki gera þær kröfur til Morgunblaðsins að vera ekki ónærgætið sjálfu sér þegar það fjallar um drykki, áfenga sem óáfenga?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að mikill meirihluti þjóðarinnar sé sammála Ágústi og Mogganum þarna.   Fólk er ekkert fyrir það að misvitrir stjórnmála- eða embættismenn hafi vit fyrir því hvað varðar þess eigið líf, svo lengi sem það er ekki á kostnað annars fólks.  Dæmin sem þú tekur varðandi hraðakstur, skotvopn og læknaleyfi eru einmitt af þeim meiði, þ.e.a.s. þú hefur ekki frelsi til að ógna lífi og frelsi annarra einstaklinga.  

Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 2.3.2007 kl. 01:28

2 identicon

Ertu ekki lengur með Baug á heilanum Palli litli. Eru sinnaskipti í aðsigi eftir að Jóhannes sendi þér tékkann.

Sigurður Té (IP-tala skráð) 2.3.2007 kl. 03:11

3 identicon

Sammála Sigurði. Neyslustýring á ekki að sjást á Íslandi og við getum ekki lagt hana að jöfnu við lög og reglur sem snúa að því að vernda borgarana fyrir hverjum öðrum.

Mér fannst Ágúst Ólafur standa sig vel í þessari deilu við Ögmund, þó það þurfi reyndar ekki mikið til. Hins vegar er ég hjartanlega sammála Páli þegar hann segir Samfylkinguna vera popúlistaflokk, er þetta ekki sama fólkið og lagði til bann á auglýsingum á fitandi vörum á kvöldin?

Björn Berg Gunnarsson (IP-tala skráð) 2.3.2007 kl. 09:59

4 Smámynd: Ólafur Als

Tilhneygingin til þess að hafa vit fyrir samborgurum sínum er sterk en frjálslyndir menn og skynsamir reyna að líta í eigin barm og setja sjálfum sér og e.t.v. sínum nánustu viðmið sem þeir annað hvort halda eða stefna að. Kemur mér á óvart hvað Páll teygir sig langt í rökhyggju sinni fyrir afskiptum af borgurum þessa lands (samanburðurinn vid umferðarlögin heldur ekki vatni af ástæðum sem ég hélt að sæmilega lesnum manni ætti að vera kunnugt um). Er ekki kominn tími til að menn á borð við Pál leggi fram hugmyndir um hvar hið opinbera mætti láta af afskiptasemi og forræði í stað þess að hafa vit fyrir okkur hinum?

Ólafur Als, 2.3.2007 kl. 13:28

5 identicon

Nú er ég ekki sérlegur frjálshyggjumaður. Ég hef kosið Vinstri Græna (það var áður en þeir vildu að ég kallaði sig Vinstri Græn, sem ég geri aldrei) en aldrei samfylkinguna, þess þá heldur allt hitt.

En mér finnst þú snúa út úr þessu, væntanlega sökum misskilnings. Ég er ekki góður í hagfræði en mig minnir að þetta kallist staðkvæmdaráhrif. Þ.e.a.s. þær vörur sem keppa við sykraða gosdrykki eru aðrir drykkir í svipuðum umbúðum. Verð á þeim helst í hendur við verð á sykruðum gosdrykkjum. Hugmynd þessa samfylkingarpésa er s.s. að lækka skatta á sykruðum gosdrykkjum til að lækka verðið á þeirri vöru og að um leið lækki þá verð á staðkvæmdarvörum sykraða gosdrykkja. Rökin eru sú að fólk tími ekki að kaupa vatn í flösku á því verði sem er í gangi núna. Sem er s.s. verð sem fylgir verðlagningu sykraða gosdrykkja.

Þessu er ekki hægt að líkja saman við umferðarlögin eða eitthvað svoleiðis, a.m.k. ekki ef menn vilja halda röksemdunum tiltölulega heilum.

Mbk,

Drengur Óla Þorsteinsson 

Drengur (IP-tala skráð) 2.3.2007 kl. 16:55

6 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þegar ég huga að kaupum á súkkulaði eða gosdrykk fyrir sjálfan mig hugsa ég frekar um hitaeiningar en sykurskatt.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 2.3.2007 kl. 18:59

7 identicon

Ég get ekki með nokkru móti séð að þau dæmi sem hér eru tekin til samanburðar við þau rök sem Ágúst notar máli sínu til stuðnings séu sambærileg.

Að reyna að stemma stigu við sykurneyslu einstaklinga er forsjárhyggja þar sem reynt er að hafa vit fyrir einstaklingnum og forða honum frá sjálfum sér. Að stemma stigu við því hverjir fái að starfa sem læknar, hafa byssuleyfi og hraðakstri er allt annað mál, það að þú neytir sykurs skaðar engan nema en sjálfan þig en hraðakstur, byssa og að leika lækni getur orðið öðrum að skaða, það er munur þarna á. 

Hef nú oft lesið efni hérna, alla jafna er það mjög málefnalegt. Það brást núna 

Baldvin Guðjónsson (IP-tala skráð) 2.3.2007 kl. 21:29

8 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Ég var fyrst og fremst að gagnrýna hvernig niðurstaðan var fengin. Rökhendan sem beitt er þannig sett saman að hægt er að setja inn í hana aðskiljanlegustu hluti og fá út sömu niðurstöðu.

Sykurneysla er síst hættuleg af þeim efnum og atriðum sem voru til umræðu. Og það er rétt að sykurneysla skaðar aðeins neytandann. En gildir ekki það sama um áfengi og fíkniefni? Ef við samþykkjum aðferðina sem notuð er til að rökstyðja að engar skorður skuli settar við sykurneyslu verðum við þá ekki að fallast á sömu meðferð á áfengi og fíkniefnum?

Mergurinn málsins er að við sem samfélag ákveðum að reglur skuli gilda um þetta eða hitt út frá efnislegum rökum sem taka tillit til helstu þátta viðfangsefnisins. Ágúst Ólafur og Morgunblaðið skautuðu yfir efnisumræðuna með hókus pókus aðferð.

Páll Vilhjálmsson, 2.3.2007 kl. 23:12

9 identicon

Eigum við ekki að hafa frelsi til að athafna okkur hvernig sem við viljum, svo lengi sem það skaðar ekki aðra? Þú velur að kaupa kók og hlaupa í spik, en þú getur lítið gert ef einhver keyrir á þig í Ártúnsbrekkunni á 120

Baldvin (IP-tala skráð) 3.3.2007 kl. 00:29

10 identicon

Er þessi of mikla sykurneyslan tilkomin af því að fólk er að hella kóka kóla upp í opið ginið á náunga sínum?

Þegar fólk keyrir hratt,  kann ekki að fara með vopn eða er lélegra í læknisfræði en það vill viðurkenna, varðar það líf annars fólks en þess sjálfs. Eða getur haft banvæn áhrif á líf annars fólks.

Ég held annars að sykurneyslan sé komin upp í vana hjá fólki og verði ekki minnkuð með svona aðferðum. Ef menn vilja bæta heilsu fólks á Íslandi ætti fremur að taka upp almenna herskyldu og tryggja þannig að fólk héldi sig í ágætu líkamlegu formi almennt.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 3.3.2007 kl. 00:55

11 Smámynd: Ólafur Als

Páll, mér er það óskiljanlegt að þú sjáir ekki muninn á sykurneyslu og áhrifum hennar annars vegar og áhrifum áfengisneyslu og annarra fíkniefna hins vegar. Aðferðafræðin er ekki aðalatriðið hér. Í gagnrýni þinni á framsetningu tiltekinna sjónarmiða hefur þú opinberað forræðishyggju sem mörgum samborgara þinna er afar illa við. Það hefur valdið mér og eflaust fjölmörgum öðrum vonbrigðum.

Ólafur Als, 3.3.2007 kl. 13:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband