Tvíreglan um vinstriflokka á Íslandi

Tvíreglan um vinstriflokka á Íslandi er frá 1930 þegar Kommúnistaflokkurinn klofnaði úr Alþýðuflokknum. Tvíreglna segir að þegar vinstriflokkarnir eru orðnir þrír þá verði þungur pólitískur straumur að sameina þá í einn flokk en innbyrðis ósamkomulag vinstrimanna leiðir alltaf til þess að vinstriflokkar verði aldrei færri en tveir.

Sameiningarflokkur alþýðu átti að sameina kommúnista og sósíaldemókrata á fjórða áratugnum, en tókst ekki. Þjóðernissinnaðir sósíalistar stofnuðu Alþýðubandalag á sjötta áratugnum og stóðu jafnfætis eða framar Alþýðuflokknum. Árið 1969 klofnaði úr Alþýðubandalaginu hópur sem hét Samtök frjálslyndra og vinstrimanna og óðara átti að sameina vinstrimenn. Ekki tókst það tvíveldi Alþýðubandalags og Alþýðuflokks hélt velli.

Bandalag jafnaðarmanna Vilmundar Gylfasonar frá 1983 ætlaði að fylkja vinstrimönnum í einn flokk en það fór á sömu lund og fyrr.

Um aldamótin átti enn og aftur að búa vinstrimönnum stórt heimili í Samfylkingunni. Vinstri grænir sáu til þess að svo yrði ekki og gamla tvíveldi A-flokkanna fékk nýtt nafn.

Núna er komin til sögunnar Björt framtíð, snýtt úr nösum Samfylkingar. Flokkurinn er kominn með fótfestu á alþingi og stefnir í góða kosningu í höfuðborginni í vor. Þar með eru vinstriflokkarnir orðnir þrír ár ný.

Tvíreglan segir að í haust verði farið að ræða sameiningu vinstrimanna, ,,af fullri alvöru" eins og það heitir á vinstramáli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Allt er þetta satt og rétt hjá þér, nafn Sameingarflokks alþýðu - sósíalistaflokksins segir sína sögu, en á bak við lá örvæntingarfull "lína" frá Moskvu um að ná jafnaðarmönnum inn í sameinaðar fylkingar vegna ógnunarinnar frá fasistahreyfingum á Spáni, Ítalíu og í Þýskalandi og Rúmeníu.

1956 gekk svonefnt Málfundafélag jafnaðarmanna, sem var eitt af flokksfélögum Alþýðuflokksins, til liðs við Sósíalistaflokkinn og stofnaði Alþýðubandalagið sem Þjóðvarnarmenn runnu síðar inn í. Auðséð var að Alþýðuflokkurinn myndi aldrei ganga inn í sameingu með öðrum vinstri mönnum.

Samtök frjálslyndra og vinstri manna var með það sem höfuðstefnu að sameina vinstri menn sem auðséð var að gat aldrei heppnast.

Sama var að segja um sams konar höfuðstefnumál Bandalags jafnaðarmanna, eins og nafnið sjálft bendir til, en merkilegt var að menn skyldi dreyma um sameiningu vinstri flokkanna þá.

Munurinn á Bjartri framtíð og fyrrnefndum flokkum um sameiningu vinstri manna er sá, að hvergi hefur heyrst hjá fylgjendum Bjartra framtíðar, að hún  sé stofnuð til að koma slíkri sameiningu á.  

Ómar Ragnarsson, 4.2.2014 kl. 20:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband