Dansk-þýska stríðið og Ísland

Dansk-þýska stríðið frá 1864 á 150 ára afmæli í ár. Sameinaður her Prússa og Austurríkismanna sigraði Dani í stríði um hertogadæmin Slésvík og Holstein sem frá miðöldum voru hluti danska konungdæmisins, líkt og Ísland.

Í kjölfar ósigurs Dana voru friðarsamningar bæði í London og Vín. Í ríkisstjórn Dana var rætt um að bjóða Þjóðverjum Ísland og fá í staðinn dönskumælandi íbúa Slésvíkur undir dönsk yfirráð. Danir báru hag landa sinna meira fyrir brjósti en hagsmuni Íslendinga. Ekki kom til þess að Þjóðverjum var formlega boðið Ísland, en vel hugsanlegt er að slík skipti hafi verið rædd óformlega.

Á þessum tíma var verið að setja saman Þýskaland úr þýskum smáríkjum sem tilheyrðu áður Heilaga rómverska keisaradæminu. Tvenn stríð í viðbót þurfti til; milli Prússa og Austurríkismanna 1864 og milli Prússa og Frakka 1870 til 1871. Eftir það varð Þýskaland til sem keisaradæmi.

Ísland kom aftur við sögu í tilraunum Dana til að endurheimta samlanda sína í Slésvík rúmlega 50 árum eftir tapið í dansk-þýska stríðinu. Undir lok fyrri heimsstyrjaldar töldu Danir sig eiga möguleika á að endurheimta Norður-Slésvík og dönsku íbúana þar.

Til að bæta samningsstöðu sína gagnvart sigurvegurum fyrra stríðs gengu Danir að kröfum Íslendinga um fullveldið sumarið 1918. Án hvatans sem fólst í löngun Dana til að stækka ríki sitt í suður, á kostnað Þýskalands, er ólíklegt að Ísland hefði fengið fullveldi 1918.

Íslendingar vissu sem var að Dönum væri ekki treystandi fyrir íslenskum málefnum og notuð seinna stríð til að stofna lýðveldi og slíta sig með því úr konungssambandi við Dani. Þeir fáu Íslendingarnir sem voru á móti stofnun lýðveldis voru með pólitíska heimilisfestu í Alþýðuflokknum, forvera Samfylkingar.

Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkur landsins sem vill afhenda útlendingum forræði íslenskra mála, með því að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu. Sagan sýnir að það er ekki tilviljun að það er einmitt Samfylkingin sem ber fram þá pólitík að við eigum að segja okkur til sveitar hjá Brussel.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í umræðum um Samfylkinguna í dag er óþarfi að fara rangt með það sem var á seyði í stjórnmálum landsins 1943-44.

Það liggur fyrir af öllum gögnum að einhugur var á Alþingi um að Íslendingar skyldu nýta sér uppsagnarákvæði Sambandslaganna frá 1918 sem kvað á um það að hvort landið um sig gat krafist þess að segja samningnum upp frá og með 1.desember 1943.

Ef ekki hefði geysað stríð hefðu löndin tvö líklega ræðst formlega við um þetta og Íslendingar síðan nýtt sér rétt sinn.

Svonefndir "lögskilnaðarmenn"voru aldrei andvígir stofnun lýðveldis á Íslandi.

Heitið "lögskilnaðarmenn" vísar einmitt til þess að þeir vildu formlegar viðræður við Dani áður en lýðveldið yrði stofnað, en það var ómögulegt meðan löndin tvö voru hernumin, Danmörk af Þjóðverjum og Ísland af Bretum og Bandaríkjamönnum.

Ef lögskilnaðarmenn hefðu haft betur, hefði lýðveldið verið stofnað eigi síðar en 17. júní 1946, en það ár gengu Íslendingar í Sameinuðu þjóðirnar.

Þegar gerður var herverndarsamningur við Bandaríkin 1941 hétu Íslendingar stuðningi í sjálfstæðismálinu og um stofnun lýðveldis var einhugur á Alþingi en aðeins deilt um formlega aðferð.

Ómar Ragnarsson, 2.2.2014 kl. 16:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband