Laugardagur, 25. janúar 2014
Krónuhatur, gjaldmiðlaheimska og pólitískur vilji
Ef ,,Íslandshrun" verður í kínverska hagkerfinu mun enginn segja að ástæðan sé þjóðargjaldmiðill Kína, júan. Enginn mun halda því fram að ef Kína væri aðeins með dollar sem gjaldmiðill þá væri engin umræða um yfirvofandi hrun þar í landi, hvað þá ,,Íslandshrun."
Gjaldmiðlar eru ekki sjálfstæð orsök kreppu. Ekki er til vitneskja um hagkvæmustu stærð myntsvæða, hvort það sé bæjarfélag eins og Garðabær eða Evrópusambandið. Við getum ekki flett upp í hagbókmenntum og komist að því hvaða myntsvæði væri hagkvæmast að tilheyra og í framhaldi valið mynt: dollar, júan, jen, evru, norska krónu, kanadískan dollar, svissneskan franka eða hvaðeina sem ,,fræðin" mæltu með.
Það er einfaldlega ekki til uppskrift að hagkvæmum gjaldmiðli. Á útlensku heitir það ,,dollarization" þegar eitt hagkerfi ákveður að taka upp gjaldmiðils annars hagkerfis. Vanalega er það svo að smáþjóð skiptir út þjóðarmynt og tekur upp gjaldmiðil stærra myntsvæðis, t.d. dollar. Um aldamótin gaf Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn út stutta samantekt á kostum og göllum þess að skipta á gjaldmiðli. Aftur er sama niðurstaðan: ekki er hægt að gefa uppskrift að því fyrir neina þjóð hvort heppilegt sé að hún búi við eigin gjaldmiðil eða gjaldmiðil stærri þjóðar. Á endanum er þetta spurning um pólitískan vilja viðkomandi þjóðar.
Evran er stærsta ,,dollarization-verkefni" sögunnar. Núna búa 18 þjóðir við evru sem lögeyri. Á evru-svæðinu hefur verið kreppa í meira en fimm ár. Á meðan önnur hagkerfi, t.d. Bandaríkjanna og Bretlands, eru komin upp úr kreppunni eru evru-ríkin þar föst. Evran deilir kreppunni ekki jafnt á öll 18 hagkerfin. Þýskaland er í fínum málum en Suður-Evrópa býr við 25 prósent atvinnuleysi og ömurlegar framtíðarhorfur.
Leiðtogar Evrópusambandsins segjast hafa pólitískan vilja til að halda saman evru-svæðinu. Á hinn bóginn fjölgar þeim sífellt sem segja drauminn um Stór-Evrópu löngu orðinn að martröð.
Hér á Íslandi er hópur manna sem þreytist ekki á því að kenna krónunni um nærfellt allt sem aflaga fer í hagkerfinu. Síðasta útspilið er að segja þá sem hlynnta eru krónu þjást af Stokkhólmseinkenninu, að elska kvalara sinn.
Krónuhatrið birtist í sinni nöktustu lágkúru þegar fjármálaráðherra úr röðum Samfylkingar, Katrín Júlíusdóttir, sagði gjaldmiðil íslensku þjóðarinnar ónýtan.
Gjaldmiðlar eru spurning um pólitískan vilja, eins og Mario Draghi bankastjóri Seðlabanka Evrópu, sagði í viðtali við Wall Street Journal fyrir skemmstu.
Íslendingar lýstu yfir sínum pólitíska vilja þegar þeir veittu miðstöð krónuhatara, Samfylkingunni, aðeins 12,9 prósent stuðning í þingkosningunum síðast liðið vor.
Íslandshrun framundan í Kína? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Góð ogt fróðleg samantekt, takk fyrir. - Hún er fáránleg þessi sífellda umræða um að skipta út gjaldmiðli og halda að það "reddi" öllu. -
Hagstjórn Íslands er í molum (alla tíð) en ótrúlegt hvað hægt er að gera með ekki fleiri greiðendum inn á heftið.
Einhver er yfirdrátturinn t.d. hjá "Ísland ohf"....og alltaf hlýtur á einhverjum tímapunkti að koma að greiðslufalli hjá þjóðum sem haga sér svona.
Már Elíson, 25.1.2014 kl. 12:27
Um áraraðir hefi ég sett fram mína kenningu um verðmæti krónunnar og annara gjaldmiðla. Kannske ætti ég að taka "áhættuna" af því að deila minni kenningu, enn einu sinni.
En mín kenning er afar einföld, og hún er sú, ... að verðmæti eins gjaldmiðils er jafn gott - (og stöðugt) - eða jafn slæmt og ótryggt, eins og stjórnunin er í því sama landi.
Þegar stjórnun landsins er slæm, þá er gjaldeyririnn lélegur og veikur, en þegar stjórn (efnahagsmála) landsins er góð, þá er gjaldeyririnn góður, stöðugur og verðmætur.
Tryggvi Helgason, 26.1.2014 kl. 01:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.