Bréf Gestapó-Himmlers koma í leitirnar

Persónuleg bréf Heinrich Himmler, eins valdamesta nasista í hirð Hitlers, eru komin i leitirnar 69 árum eftir sjálfsmorð höfundar. Bréfin voru geymd í Ísrael í áratugi og eru staðfest höfundarverk Himmlers, samkvæmt dagblaðinu Welt, sem birtir á næstu vikum fréttaröð um fundinn.

Himmler var yfirmaður SS-sveitanna sem voru helsta verkfærið í útrýmingarherferðinni gegn Gyðingum. Þá var hann einnig Gestapó, öryggislögreglu þriðja ríkisins. Ásamt Göring og Göbbels hélt Himmler æðstu völdum í Hitlers-Þýskalandi frá 1933 til 1945.

Flest bréfin eru til Mörgu eiginkonu Himmlers og þykja varpa ljósi á manninn sem ábyrgur var fyrir ,,Lokalausninni" en það hét áætlun Þjóðverja um útrýmingu Gyðinga. Um sex milljónir Gyðinga létu lífið í dauðaherferð nasista í seinna stríði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég bíð spenntur eftir því að sjá, hvað þetta skrímsli í mannsmynd hefur skrifað því að hann leikur mikilvægt hlutverk í uppkasti mínu að riti um "alternate history" varðandi það ef Þjóðverjar hefðu tekið Ísland af Þjóðverjum haustið 1940.

Á heimili foreldra minna og síðar á mínu heimili hefur síðan 1948 verið risastór öskubakki með hauskúpu og krosslögðum leggjum, sem var höfuðatriðið í merki SS-sveitanna.

Himmler var mikill áhugamaður um höggmyndalist og leirkerasmíði, auk norræns og germansks menningararfs, og tveir Íslendingar fóru í boði hans til Dachau í Þýskalandi 1938 til að nema mótasmíði og fleira varðandi þetta áhugamál þessa skelfilega manns.

Annar þessara ungu manna, einstakur ljúflingur, var heimilisvinur foreldra minna og gaf föður mínum þennan sérsmíðaða og áletraða öskubakka  í afmælisgjöf, en sleppti þó lárétta borðanum, sem er í SS-merkinu.

Ómar Ragnarsson, 24.1.2014 kl. 22:09

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Já mann leikur forvitni á að vita hvernig mannskrímsli skrifa,að öðru leyti fæ ég hroll,er hugsa um stríðstíma barnæskunnar. Það tíðkaðist ekki að fræða börn þá um alvarleika lífsins,hvað þá um strið út í heimi. En ég kom mér fyrir þegar fréttir byrjuðu á Gufunni gömlu og drakk í mig stríðsfréttir. Hvað bandamenn höfðu grandað mörgum flugvélum eða tundurspillum,hvar var víglínan sem færðist sífellt til eftir hverja unna/tapaða orrustu. Ekki beint eðlilegt og aðlaðandi að vera þátttakandi í huganum,með því að fagna þegar Bretar og Bandaríkjamenn náðu að stráfella herfylki óvinarins. Verst þótti mér að hlusta á loftárásarfréttir,þær voru á víxl á Breta og þjóðverja,þá greyptust nöfn borga eins og Dresden,Köln ofl.í huga manns. Seinna komst maður að djöfulganginum í nazistum, mál að leggja pennann á hilluna!!

Helga Kristjánsdóttir, 25.1.2014 kl. 03:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband