Þriðjudagur, 21. janúar 2014
Einsmálsfólkið og misheppnaða búsáhaldabyltingin
Búsáhaldabylting er heiti á mótmælum í byrjun vetrar 2009, sem leiddu til falls ríkisstjórnar Geirs H. Haarde og myndun ríkisstjórnar Jóhönnu Sig. í kjölfarið. Byltingin mistókst, um það eru flestir sammála.
Ekki er þó samstaða um hvers vegna fór sem fór; að byltingarflokkarnir þrír Samfylking, VG og Borgarahreyfing guldu afhroð þegar kjósendur fengu að segja sitt álit vorið 2013 - eftir 4ra ára byltingarstjórn.
Einsmálsfólkið var samnefnari búsáhaldabyltingarinnar. Einsmálsfólk er, eins og nafnið bendir til, fólk sem er þrungið sannfæringu að ef eitt tiltekið mál nær fram að ganga verði heimurinn bjartur og fagur á ný. Grunnt er á haturs- og ofstækispólitík hjá einsmálsfólki enda yfirmáta öruggt um hina einu sönnu afstöðu.
Meginhópar einsmálsfólksins voru eftirfarandi: andstæðingar kvótakerfisins, ESB-sinnar, ný-stjórnarskrársinnar, andstæðingar verðtryggingar og hópurinn blint-hatur-á-Sjálfstæðisflokknum.
Einsmálsfólkið reyndi í fjögur ár að mynda samstöðu um megináherslur í stjórnmálum en tókst ekki. Á fjórum árum lærði einsmálsfólkið ekki neitt í pólitík og bauð fram marga lista í kosningunum í vor; Samfylking, VG, Björt framtíð, Píratar, Dögun og Lýðræðisvaktin.
Einsmálsfólkið skilur ekki einfaldasta grunnatriði stjórnmála: til að samfélag fái staðist þarf málamiðlun.
Athugasemdir
Til að stjórnlagafrumvarpi stjórnlagaráðs fengi stuðning allra 25 ráðsmanna, þurfti margar málamiðlanir. Í ráðinu var fólk með mjög mismunandi skoðanir, allt frá hægri til vinstri og hörðu skipulagi til anarkisma.
Af 13 fulltrúum, sem höfðu tengst stjórnmálaflokkunum opinberlega á einhvern hátt voru hlutföllin svona: Sjálfstæðisflokkur 4, Samfylking 4, Framsókn 2, Vg 2 og Frjálslyndi flokkurinn 1, þ. e. nokkurn veginn flokkamynstrið síðustu 10 árin á undan.
Ómar Ragnarsson, 21.1.2014 kl. 13:00
Ómar, af þessum 25 manns í Stjórnlagaráði, hve margir voru úr stærsta flokki landsins, Sjálfstæðisflokki, án þess að vera ESB-sinnar? Kannski einn.
Ívar Pálsson, 21.1.2014 kl. 14:22
Ég nefni aðeins tölur, sem eru óvéfengjanlegar, voru birtar í blaðaumfjöllun og aldrei véfengdar. Ég hef ekki minnstu hugmynd um hve margir sjálfstæðismenn voru "ESB"-sinnar og hverjir ekki og hafði heldur engan áhuga á því við vita það.
Ómar Ragnarsson, 21.1.2014 kl. 16:23
Ég nefndi þetta af því að stærsti hluti stærsta flokksins er gegn ESB-aðild, en sú aðild krefst breytinga á stjórnar- skránni. Þessi stærsti hópur landsins hafði því líklega aðeins 1 af 25 fulltrúum, sem gaf augljósa niðurstöðu.
Ívar Pálsson, 21.1.2014 kl. 16:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.