Mánudagur, 20. janúar 2014
Evrópuverkefnið 1914 og evru-verkefnið 2014
Fyrri heimsstyrjöld hófst með því að Þjóðverjar gáfu fjölþjóða tvíríkinu Austurríki-Ungverjalandi skilyrðislausan stuðning í deilunni við Serbíu vegna morðsins á ríkisarfanum Frans Ferdínand og Sofíu konu hans í Sarajevo 28. júní 1914.
Þjóðverjar óttuðust einangrun í Evrópu og héldu því dauðahaldi í bandalagið við fjölþjóðaríkið Austurríki-Ungverjaland, sem var komið að fótum fram. Þýski sagnfræðingurinn Dominik Geppert sér hliðstæður milli stöðu Þýskalands í dag og fyrir hundrað árum.
Í dag styður Þýskaland skilyrðislaust evruna þótt gjaldmiðillinn fjölþjóðlegi sé illa á sig kominn og býr við tvísýnar framtíðarhorfur. Eins og fyrir hundrað árum þá óttast Þjóðverjar einangrun ef þeir láta evruna lönd og leið.
Þriðja og mest afgerandi hliðstæðan milli stöðunnar í Evrópu í dag og fyrir einni öld, segir Geppert, er að fyrir hundrað árum taldi stjórnmálaelítan í Evrópu að engin lausn væri möguleg á pólitískum deilum í álfunni önnur en stríð. Í dag telur stjórnmálaelíta álfunnar að enginn valkostur sé við evruna - falli evran þá fellur Evrópusambandið.
Víð eigum að vara okkur á stjórnmálamönnum sem segja engan valkost við markaða stefnu, segir Geppert.
Í Þýskalandi er einmitt nýstofnaður stjórnmálaflokkur sem vill vinda ofan af evru-verkefninu. Flokkurinn heitir Alternative für Deutschland, Valkostur fyrir Þýskaland.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.