Þriðjudagur, 14. janúar 2014
Dómsvísindi eru ímyndun; réttlæti er það ekki
Lögfræði er ekki vísindagrein sem tekur við hráum staðreyndum lífsins og skilar óvefengjanlegum niðurstöðum. Helstu iðkendur lögfræði, lögmenn og dómarar, eru ekki vísindamenn sem standa frammi fyrir mælanlegum veruleika, heldur eru þeir hluti af samfélagi þar sem tekist er á um siðagildi og skilgreiningar; bæði um hvað er rétt og rangt og réttlætið sjálft.
Samfélagið rekur dómstóla fyrir eigin reikning til að stuðla að réttlæti. Jafngömul hugmyndinni um réttlæti er togstreitan milli einstaklingsréttar og réttar samfélagsins til að verja hornsteina sína. Sjálfur Sókrates, sem vissi sitthvað um réttlæti, galt fyrir með lífi sínu að Aþenubúar höfðu aðrar hugmyndir en hann um rétt samfélagsins gagnvart einstaklingnum.
Eftir samfélagsleg stóráföll á borð við hrunið 2008 verður óhjákvæmilegt endurmat á siðagildum og þar með réttlæti. Atburðirnir sjálfir knýja fram endurmatið fremur en að um sé að ræða niðurstöðu tilgreindra aðila, einstaklinga eða stofnana.
Í réttlæti eftirhrunsins er hægt að koma auga á eitt dómsmál þar sem málatilbúnaður var einelti fremur en réttmæt saksókn. Það er landsdómurinn yfir Geir H. Haarde sem ranglega var einn látinn svara fyrir stjórnmálakerfi lýðveldisins.
Önnur dómsmál og niðurstöður þeirra bera, í það minnsta séð úr fjarlægð, saksókn og dómum fagurt vitni um ástundun réttlætis.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.