Mánudagur, 13. janúar 2014
RÚV smíðar ESB-sinnum vígstöðu
Um helgina bjó RÚV til fréttaspuna til að styrkja stöðu ESB-sinna, sem heita raunar núna viðræðusinnar. Fréttaspuninn byrjaði með viðtali við forsætisráðherra í hádeginu á sunnudag þar sem hann var þýfgaður um sérstakt áhugamál RÚV - þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald ESB-umsóknarinnar sem Samfylkingin fékk samþykkta naumlega á alþingi 16. júlí 2009.
Um kvöldið spann RÚV þráðinn áfram með viðtölum við stjórnarandstöðuna undir þeim formerkjum að forysta ríkisstjórnarinnar væri komin í vanda. Að vanda tók RÚV stjórnarandstöðuna silkihönskum, spurði t.d. ekki Katrínu Jakobs hvort VG væri orðinn ESB-flokkur eða Guðmund Steingríms í Bjartri framtíð hvernig hægt væri að vera hlynntur ESB-aðild án þess að samningur lægi fyrir en segja í hinu orðinu að ekki væri hægt að taka upplýsta ákvörðun nema samningur lægi fyrir.
Kostulegast var þó viðtalið við Árna Pál Árnason formann Samfylkingar. Árni Páll sagði
Það er ekkert land í Evrópu sem hefur byrjað á því að spyrja þjóðina hvort hún vilji inn, enda væri slíkt land í skelfilegri samningsstöðu. Ef viðsemjandinn vissi að það væri búið að ákveða að ganga inn, nú þá fengum við ekkert í samningum.
Allar þjóðir, sem hafa gengið inn í Evrópusambandið, hafa ákveðið það fyrirfram með því að kjósa til valda stjórnmálaflokka sem hafa aðild á stefnuskrá. Þannig gengur lýðræðið fyrir sig; stjórnmálaflokkar boða stefnu sem almenningur tekur afstöðu til í kosningum.
Það þarf foráttuheimskan eða óvenju ósvífinn stjórnmálamann til að halda því fram að það sé ,,skelfileg samningsstaða" fyrir þjóð að sækja um aðild að Evrópusambandinu á grundvelli lýðræðislegrar niðurstöðu. Skelfingin er vitanlega öll hjá Árna Pál og Samfylkingunni, sem fékk 12,9 prósent stuðning í síðustu kosningum.
Í öðru lagi lítur Árni Páll svo á að það sé eitthvað annað að fá í samningum en aðild að Evrópusambandinu. Evrópusambandið veitir viðtöku nýjum aðildarríkjum með ferli sem heitir á ensku ,,accession process" og er þýtt sem aðlögunarferli. Í enskri útgáfu ESB á ferlinu segir á bls. 9
The term "negotiation" can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 100,000 pages of them. And these rules (also known as the acquis, French for "that which has been agreed") are not negotiable.
Á íslensku: Hugtakið ,,viðræður" getur verið misvísandi. Aðildarviðræður eru með áherslu á skilyrði og tímasetningar á því hvernig umsóknarríki aðlagar sig að reglum ESB - sem telja 100 þúsund blaðsíður. Og þessar reglur (einnig kallaðar acquis, sem er franska og þýðir ,,það sem hefur verið samþykkt) er ekki hægt að semja um.
Árni Páll vill ekki skilja einföldustu atriði ESB-ferlisins og klifar á því í tíma og ótíma að hægt sé að fá samning til að skoða. Það er einfaldlega ekki hægt. Evrópusambandið býður aðeins upp á eina leið inn í sambandið og það er leið aðlögunar.
Evrópusambandið gerir ráð fyrir að stjórnmálaumræða umsóknarríkis hafi leitt fram þjóðarsamstöðu áður en umsókn er lögð fram. Ekkert slíkt gerðist á Íslandi. Á veikum grunni knúði Samfylkingin í gegn ESB-umsókn á alþingi sumarið 2009 en það fór illa fyrir þeirri vegferð.
Kjörtímabilið 2009 til 2013 reyndi Samfylkingin að halda uppi aðlögunarferli inn í Evrópusambandið, en það strandaði vegna þess að ekki var þingvilji og enn síður þjóðarvilji til inngöngu. Þorsteinn Pálsson, sem er yfirlýstur ESB-sinni, útskýrði á síðasta kjörtímabili hvernig aðlögunarferlinu vindur fram:
Aðildarsamningurinn verður til smám saman. Samkvæmt þingræðisreglunni getur utanríkisráðherra ekki gengið frá lokun einstakra kafla nema að baki sérhverri slíkri ákvörðun sé vís meirihlutastuðningur á Alþingi.
Aðlögunarferlinu var einfaldlega slitið í þingkosningunum síðast liðið vor þegar eini ESB-flokkurinn galt afhroð. Þingið sem þjóðin kaus er á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu og getur ekki haldið haldið ESB-ferlinu áfram.
Með fréttaflutningi sínum í ESB-málinu reynir RÚV ítrekað að blekkja almenning með því að fela mikilvægar staðreyndir um ferlið inn í Evrópusambandið. Spunafréttir RÚV eru ekki samboðnar almenningsútvarpi.
Athugasemdir
Það var kostulegt að fylgjast með þessari uppákomu Rúv í gær. Skelfingin sem heltekið hefur Árna Pál og alla laumu ESB-sinnana er áþreifanleg. Nú óttast þeir skýrsluna um aðildarumsóknina og framistöðu þeirra sjálfra á þeim vettvangi og reyna að skapa glundroða í samfélaginu áður en hún kemur út.
Ragnhildur Kolka, 13.1.2014 kl. 10:16
Þannig var mér innanbrjosts í gærkvöldi Ragnhildur horfandi upp á Rúv flytja átakanlega angist formanns Samfylkingar,stöðugt klifandi á skoðun.Miðað við þessa framgöngu veitti honum ekki af.
Helga Kristjánsdóttir, 13.1.2014 kl. 16:47
Undarlegir órar.
Eiður Svanberg Guðnason, 13.1.2014 kl. 16:59
Guð sé lof að ég missti af þessu!!
Guðni Karl Harðarson, 13.1.2014 kl. 17:26
já - það er nú tími til kominn að við 'já-sinnar' fáum okkar tíma á rúv
Rafn Guðmundsson, 13.1.2014 kl. 17:42
Eða þráhyggjuviðtal Helga Seljan við utanríkisráðherra í gærkvöldi. Skilja ekki þessi vinstri þverhausar að þessi ríkisstjórn vill ekki ganga í ESB frekar en meirihluti þjóðarinnar.? Það er bráðnauðsynlegt að stjórnin slíti þessu rugli opinberlega.
Aðalbjörn Þ Kjartansson, 14.1.2014 kl. 02:30
Rafn Guðmundsson. Þið þurfið ekki að kvarta sem hafið fasta áskrift á RÚV á ESB þráhyggju ykkar
Aðalbjörn Þ Kjartansson, 14.1.2014 kl. 02:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.