Sunnudagur, 12. janúar 2014
Kynjamisrétti Bílastæðasjóðs
Bloggari fór síðdegis með dóttur sína á Leifsstöð. Eins og jafnan áður var bílinn stöðvaður á til þess merkt stæði, töskurnar teknar út og fjölskyldan fór með dótturina inn í Leifsstöð til að kveðja. Um tíu mínútum síðar skyldi haldið heim á leið en viti menn var þá ekki tveir vaskir menn, annar með myndavél, búnir að skrifa stöðubrot á bíl bloggara.
Bloggari tók stöðumælaverðina tali, þeir starfa hjá Bílastæðasjóð Sandgerðisbæjar, og spurði hvernig í veröldinni væri hægt að skrifa stöðubrot þegar hvergi væri tekið fram hve lengi mætti hafa bílinn á svæðinu merkt ,,losun" án þess að tímamörk séu tiltekin.
Á meðan bloggari útskýrir mál sitt fyrir starfsmönnum Bílstæðasjóðs dundar annar sér við að skrifa nýja sekt á bíl sem hafði staðið jafn lengi á stæðinu og bíll bloggara. Ung kona kemur aðvífandi og segir að þetta sé misskilningur hjá stöðumælavörðum, hún eigi ekki að fá sekt. Þeir bukta sig og beygja og sá með myndavélina biður um að fá að taka mynd af konunni við bílinn, - sennilega til að eiga til minja.
Bloggari býðst til að leyfa myndatöku af sér við bílinn gegn því að sleppa við stöðumælasekt, líkt og unga konan. Stöðumælaverðir hafna þessu tilboði umsvifalaust. Unga konan sýnir bloggara samúðarbros, ekur á brott án stöðumælasektar en bloggari, miðaldra karlmaður, situr uppi með fimm þúsund króna sektarmiða.
Hér er vitanlega gróft dæmi um kynja- og aldursmisrétti þar sem miðaldra karl fær aðra og miklu verri meðferð en ung kona í fullkomlega sambærilegu máli.
Núna þegar málið er orðið opinbert hlýtur Bílastæðasjóður Sandgerðis að sjá að sér, fella niður stöðubrot bloggara og biðja hann afsökunar á misréttinu.
Athugasemdir
Eitt lítið dæmi. Í apríl í fyrra lagði ég bíl mínum í bílastæði á Tryggvagötunni, borgaði í stöðumæli og setti miðann í gluggakistuna við framrúðuna.
Þegar ég kom til baka stóð stöðumælavörður við bílinn og var að setja á hann sektarmiða.
Ég opnaði bílinn og tók upp miðann, sem hafði án þess að ég tæki eftir því, fokið á hvolf í kistunni.
Á honum sást greinilega að enn var helmingurinn eftir af þeim tíma, sem ég hafði sannanlega borgað fyrir.
En stöðumælavörðurinn neitaði að taka sektina aftur, sama hvernig ég talaði við hann. Hann sagðist bara mega ákvarða sekt en ekki mega draga óréttmæta sekt til baka.
Ég var að flýta mér og hafði ekki tíma til að rekast í þessu frekar þarna, en fyrr en varði var þessi sekt kominn í innheimtufyrirtæki, sem harðneitaði að taka sektina til baka.
Því var líka neitað hjá Stöðumælasjóði.
Niðurstaða: Stöðumælaverðir, Stöðumælasjóður og Innheimtufyrirtæki njóta trausts til ákvarða gögnum samkvæmt að leggja sektargjöld á bíla. En enginn þessara aðila virðist treyst til að endurskoða ranga álagningu.
Ómar Ragnarsson, 12.1.2014 kl. 19:19
Er þetta í fyrsta sinn sem þú ferð út á Leifsstöð, Páll? „Losun" þýðir losun. Þar hleypir maður farþegum út. Maður leggur þar ekki og fer inn í stöð. Ef maður gerir það fær maður sekt. Auðvitað hefði konan átt að fá sekt líka.
Wilhelm Emilsson, 12.1.2014 kl. 20:39
Þessi tvö dæmi hér eru ranglát. Aðilar sem þessu stjórna hljóta að sjá það.
Helga Kristjánsdóttir, 12.1.2014 kl. 21:01
Nei nei ekki ranglát þetta er í anda hins nýja Íslands þar sem lögleysa gildir framar öllu.
Eyjólfur Jónsson, 12.1.2014 kl. 21:29
Já þú meinar! Kannski ráðið sé að misskilja skilta-fyrirmæli ..losun,, og í þessu tilfelli tæma blöðrurnar á staðnum.
Helga Kristjánsdóttir, 12.1.2014 kl. 21:35
Stutt er að bíða þess að dómstólar þurfi að eyða dýrmætum tíma sínum í afleiðingar af handvammarekstri svona innheimtufyrirtækja sem t.d. í Skandinavíu hafa nálgast að stunda glæparekstur í kringum svona bílastæði.
Kveðjur
Gunnar Rögnvaldsson, 12.1.2014 kl. 22:22
Næst er best að leggja í þar til gerð bílastæði gegn vægu gjald, fara inn og kveðja og knúsa alla nærstadda.
Í þessu tilviki Páll hefur konan notið þeirra forréttinda að vera kona á réttum aldri.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 13.1.2014 kl. 03:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.