Föstudagur, 10. janúar 2014
Englendingar og Íslendingar jafngamlar þjóðir
Um það bil sem alþingi kom fyrst saman á Þingvöllum, hefðin miðar við árið 930, var í Norður-Englandi háð mannskæð orusta er þykir marka tímamót. Með orustunni verður til þjóðarsaga Englendinga þar sem Aðalsteinn konungur fær sigur og treystir ríki sitt.
Þórólfur og Egill Skallagrímssynir börðust með Aðalsteini á Vínheiði við Vínuskóga og féll Þórólfur en Egill fékk tvær kistur góðmálma frá konungi fyrir liðveisluna, eins og segir í sögunni.
Englendingar kenna orustuna við Brunanburh og er staðurinn týndur. Vegna sögulegs mikilvægis orustunnar ætla Englendingar að finna vettvanginn og skipað starfshóp undir forystu miðaldafræðings til þess arna.
Þjóðir verða ekki til í einni orustu eða með stofnun þjóðarsamkundu. Engu að síður er þokki í þeirri tilhugsunin að Íslendingar verði þjóð með stofnun alþingis á meðan enska þjóðin fæðist í blóðugri orustu og það á sama tíma.
Athugasemdir
Norðmenn telja að þeir hafi ekki farið að líta á sig sem eina þjóð fyrr en eftir orrustuna á Stiklastöðum 1030.
Alþingi átti Gulaþing í Noregi sem fyrirmynd, og deila má um hvort Íslendingar hafi litið á sig sem þjóð í nútíma skilningi árið 930, enda sést vel að þar er talað um austmenn eftir það þegar minnst er á að viðkomandi sé frá Noregi.
Trúboðar kristninnar komu með það erindi frá Noregi og Íslendingar voru gjaldgengir og höfðu réttindi þar í landi.
Þórður kakali meira að segja settur yfir Skíðishérað (Skien) á miðri þrettándu öld og féll niður örendur við að fagna því.
En vegna þess að Ísland er afmörkuð eyja má kannski segja að samkennd Íslendinga hafi orðið mikil snemma og skilgreina hana sem þjóðarkennd.
Ómar Ragnarsson, 10.1.2014 kl. 22:44
Jú, Ómar, það er ávallt álitamál við hvað á að miða í upphafi þjóða. Ólafur digri féll á Stiklastöðum og pólitískur spuni gerði hann að helgum manni og í framhaldi þjóðargersemi. Þá er stundum talað um ríki Haralds hárfagra sem upphaf norskrar þjóðar.
Ekkert er hægt að ,,sanna" um upphaf þjóða en óneitanlega er stofnun alþingis allra héraða landsins all nokkur yfirlýsing um að hér búi ein þjóð.
Páll Vilhjálmsson, 10.1.2014 kl. 22:57
Íslensk þjóð varð til við sumarsólstöður árið 930 þegar tvennt gerðist: Allsherjarþing sameinaðra héraðsþinga var stofnað - en þau höfðu áður verið sjálfstæð. Þegar nýbúar á eyjunni Ísland (sem voru frá fleiri svæðum en vestur Noregi) söfnuðust saman undir einn málstað.
Margir nútíma menn hafa lesið bækurnar Uppruni Íslendinga eftir Bárð Guðmundsson sagnfræðing og fyrrum Þjóðskalavörð svo og Uppruni Íslendinga eftir Björn Björsons þar sem báðir rekja rætur Vestur Norðmanna til germönsku þjóðarinnar Herúla sem flakkað hafði um Evrópu í fimm aldir eða lengur.
Englar voru þjóð við Niðurlönd áður en þeir hernámu Bresku eyjarnar ásamt Söxum. Engilsaxar urðu hugsanlega til um svipað leiti og Herúlar (sem flýðu ofríki Kvena eins og BG og BB nefna þá) byggðu hér nýtt land með sérstökum siðum.
Gleymum ekki að forfeður okkar voru fyrstir þjóða til að sameina heilt ríki undir beint lýðræði - sem vissulega var barn síns tíma - og beittu því í fjórar aldir tæpar.
Slíkt hefur aldrei áður né síðar sést í mannkynssögunni.
:)
Takk fyrir frábæran pistill Páll. Og Ómar fyrir frábærar áminningar. Ég vona að þið, mér mun mætari menn, fyrirgefið óvenjulega sögurýni mína.
Guðjón E. Hreinberg, 10.1.2014 kl. 23:08
Þetta eru athyglisverðar söguskýringar og pælingar.
Það hefur alla tíð þvælst óþægilega mikið fyrir mér í huganum, að svona "þjóðsögur" eru frekar götóttar, svo ekki sé sterkar að að orði kveðið.
Í Gulaþings-svæði dagsins í dag eru fleiri en ein tegund af fólki, ef maður ber saman ólíkan augnlit og háralit þarlendra. Eins er það á Íslandi.
Skráningarmeistarar "sannleikans", vítt og breitt um veröldina, hafa einhvernvegin sloppið við að koma öllum heildarmyndar-sannleikanum á prent. Til dæmis hefur þeim heimsveldis-skráningarmeisturum eitthvað fipast boglistin með fjaðrapennana, þegar kemur að "stórasannleik" Páfaveldis-leyniklúbba-hakakrossara, og sannleikann um Papa-munkanna í Papey?
Og þeir haka-krossarar Páfaveldis hafa komist upp með svona götótta sögufölsun, sem kennd er, sem heilagur sannleikur út um allar jarðir?
Betur trúi ég kærleiks/sannleiks-boðskap Jesú Krists, heldur en Páfa-samþykktum og svokölluðum "stóra" sannleik hakakross-fríkmúraranna.
Hverjir voru munkarnir í Papey, og hvers vegna eru þeir ekki taldir með þeim "fyrstu"?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 10.1.2014 kl. 23:58
Það sem eftir fylgdi sannar að innbyggjar litu ekki á sig sem eina þjóð. Sturlungaöldin? Einhver heyrt um það? Ísland var aldrei eitt land eða byggt einni þjóð í nútímaskilningi fyrr á tímum. Langur vegur frá því. Þessi nútímaskilningur kemur ekki til fyrr en í gær, má segja. Sagnfræðileg staðreynd. Fyrr á tímum litu menn lengi vel á sig sem norðmenn eða norræna menn sem byggju á Íslandi. Allt og sumt. Landið var mjög héraðaskipt eða landshlutaskipt og nokkrar sérhagsmunaklíkur hreiðruðu um sig og ríktu yfir almenningi með öfga-ofstopa og hótunum. Þetta leiddi auðvitað til samfelldra bardaga áratuga ef ekki árhundraða skeið. Þó útlendingum tækist nú yfirleitt að skakka leikinn áður en sérhagsmunaklíkurnar mundu bókstaflega sökkva því. En klíkunum tókst að rústa því.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 11.1.2014 kl. 01:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.