Föstudagur, 10. janúar 2014
Vinstristjórnin og ónýta Ísland
Pólitískir eftirlifendur vinstristjórnar Jóhönnu Sig. 2009-2013 kvarta undan skorti á sannmæli. Björn Valur Gíslason vekur athygli á því að efnahagsbatinn hófst 2010. Björn Valur segir forystu núverandi stjórnar ábyrga fyrir því að ríkisstjórn Jóhönnu Sig. naut ekki afreka sinna.
Þetta er kolrangt hjá Birni Vali. Ábyrgðin liggur alfarið og eingöngu hjá vinstristjórninni sjálfri.
Innbyggt í ríkisstjórn Jóhönnu Sig. var orðræðan um ónýta Ísland, þar sem allt er í kaldakoli og svartnætti framundan að óbreyttu. Ástæðan? Jú, annar ríkisstjórnarflokkanna, Samfylkingin, ætlaði að troða Íslandi inni í Evrópusambandið með pólitískum sleipiefnum.
Sleipiefnið sem virkaði best í ESB-áróðrinum var að Ísland væri ónýtt og yrði að fá bjargir sínar frá Evrópusambandinu. En einmitt með þessari orðræðu hraunaði vinstristjórnin yfir eigin afrek í efnahagsmálum og eftirhrunstiltektinni.
ESB-umsókn Samfylkingar er einfaldlega vanhugsaðasta pólitíska áætlun Íslandssögunnar og sá til þess að ríkisstjórn Jóhönnu Sig. var þegar í upphafi dæmd til að verða ónýtasta ríkisstjórn lýðveldisins.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.