Föstudagur, 3. janúar 2014
Hvers virði eru 365-miðlar?
Fréttablaðið og Stöð 2 eru flaggskip 365-miðla. Fréttablaðið er fríblað þar sem auglýsingar eru allsráðandi. Viðskiptahugmyndin byggir á ódýrum pappír, lágum dreifingarkostnaði og endalausri þolinmæði lesenda að finna áhugavert efni innan um auglýsingarnar. Á tímum netmiðlunar er Fréttablaðið ekki beinlínis framtíðin.
Stöð 2 er áskriftarsjónvarp sem keppir við til muna ódýrari efnisveitur á netinu, s.s. Netflix og Hulu, er bjóða áskrifendum sínum nær óþrjótandi efnisval og sveigjanlegri notkun. Enski boltinn var lengi skrautfjöður Stöðvar 2 en hann fæst ókeypis á netinu.
Að því marki sem Stöð 2 er með innlenda dagskrá keppir stöðin við RÚV, Skjá einn, ÍNN og núna tvær nýjar sjónvarpsstöðvar.
Til skamms tíma var dagskrárvald 365-miðla all nokkuð. Fjölmiðlar samsteypunnar gátu með sameiginlegu átaki verið ráðandi afl í mótun dægurumræðunnar. Á tímum útrásar og í eftirmálum hrunsins var þetta dagskrárvald eigenda 365-miðla, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, gulls ígildi. Vegna ofnotkunar dagskrárvaldsins er það ekki lengur álíka sterkt, auk þess sem netmiðlun, t.d. blogg og samfélagsmiðlar, draga vígtennurnar úr yfirvaldi stóru fjölmiðlanna.
365-miðlar munu vera til sölu. Nokkurt hugarflug þarf til að ímynda sér kaupendur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.