Miðvikudagur, 28. febrúar 2007
Upphaf Baugsmála og umræðan um mútufé
Hreinn Loftsson stjórnarformaður Baugs andmælir síðustu bloggfærslu og segist ekki hafa breytt framburði sínum frá því hann sagði fyrst frá fundi sínum og Davíðs Oddssonar í London í janúarlok 2002. Athugasemd Hreins er svohljóðandi
Alrangt hjá þér Páll, að ég hafi breytt framburði mínum. Davíð nefndi bæði nafn Jóns Geralds og Nordica á fundi okkar í Lundúnum 26. janúar 2002. Í réttinum í gær gat ég þess að um þetta atriði væri ágreiningur á milli mín og Davíðs. Ég þekkti ekki manninn áður en ég hitti Davíð og hélt að hann héti Jón Gerhard" en þannig var hann nefndur af Davíð á fundinum. Þetta var leiðrétt nokkrum dögum síðar þegar ég hitti þá Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggva Jónsson.
Óskráður (Hreinn Loftsson), 27.2.2007 kl. 13:23
Það eru sem sagt Jón Ásgeir og Tryggvi sem leiðrétta það sem Davíð sagði á fundi þeirra Hreins í London. En hvorki Jón Ásgeir né Tryggvi voru viðstaddir fundinn. Hreinn er ótrúverðugur vegna þess að hann lætur aðra hafa fyrir sig orð. Fréttablaðið sagði fyrst frá fundinum í forsíðufrétt 1. mars 2003. Þá var það Jón Ásgeir sem vitnaði um fundinn í London eins og fram kemur í tilvitnun í síðasta bloggi.
Forsíðufrétt Fréttablaðsins var skrifuð til að blekkja, ekki til að upplýsa. Í niðurlagi fréttarinnar sagði að ,,Hreinn Loftsson vildi í samtali við Fréttablaðið í gær ekkert tjá sig um þessi mál." Nokkrum dögum síðar, í hádegisfréttum RÚV 4. mars, viðurkenndi blaðamaðurinn, Reynir Traustason, að Hreinn væri heimildarmaðurinn fyrir fréttinni.
Hreinn Loftsson, fyrrum aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar og gamall baráttufélagi, vó að æru Davíðs úr launsátri. Hreinn veit það einn hvað rak hann til atlögunnar. Hann hlýtur þó sjálfur að geta viðurkennt að menn sem vega úr launsátri standa ekki hreinir og beinir. Það er ekki manndómsmerki að bera sig að með þeim hætti.
Í viðtali við Morgunblaðið 4. mars 2003 kemur Hreinn með þá skýringu, sem hann ítrekar hér að ofan, að hafa heyrt nafnið Jón Gerhard" í fyrsta sinn. En er líklegt að hann hafi lagt þetta nafn sérstaklega á minnið fyrst hann heyrði það þarna í fyrsta sinn? Í sama viðtali kveðst Hreinn ekki muna eftir einstökum ummælum Davíðs. Og hvers vegna var þessu nafni ekki teflt fram í tölvupóstum og fundargerðum Baugs sem Fréttablaðið maulaði úr í forsíðufréttinni 1. mars?
Hreinn útskýrir í Morgunblaðsviðtalinu hvers vegna Baugsmönnum hafi þótt mikilvægt að Davíð hafi nefnt nafn Jóns, hvort heldur Gerhards eða Geralds. Jú, það var vegna þess að Davíð hafi misst það út úr sér" í viðtali við Stöð 2 að hafa ekki heyrt nafnið fyrr en það kom fram í fjölmiðlum.
Til að botna ólíkindin þá var Fréttablaðið í eigu Jóns Ásgeirs á þessum tíma án þess að neinn vissi það nema lítil klíka í kringum Jón Ásgeir. Eignarhaldið á blaðinu var ekki gefið upp fyrr en 2. maí 2003. Hefði einhver lagt trúnað á fréttina 1. mars ef vitneskja hefði legið fyrir um eignarhaldið? Vitanlega ekki. Jón Ásgeir kom fram í fjölmiðlum og sagðist steinhissa á því hvernig fundargerðir og tölvupóstar Baugs komust í hendur Fréttablaðsins. Hér er tilvitnun í viðtal Morgunblaðsins við Jón Ásgeir 4. mars 2003 sem sýnir hversu ótrúlega óskammfeilinn maðurinn er.
Það er slæmt fyrir okkur og fyrirtæki okkar, að hluti úr fundargerðum félagsins og tölvupósti komist í dagblöð. Um slík mál á að ríkja trúnaður."
- Hver lét Fréttablaðinu í té þær upplýsingar sem stuðst var við í frásögn Fréttablaðsins á laugardag?
"Ég veit bara, að það var ekki ég. Mín eina aðkoma að þessari umfjöllun Fréttablaðsins var sú, að ákveðinni spurningu var beint til mín frá blaðinu sl. mánudag."
- Þarf ekki að rannsaka hvaðan lekinn úr stjórn Baugs er?
"Stjórn Baugs mun hittast á fundi á fimmtudaginn og þar munum m.a. fara gaumgæfilega yfir þessi mál. Ég á von á því að við munum breyta og herða okkar vinnureglur, því það er ekki minn vilji að svona upplýsingar, eins og hlutar úr fundargerðabókum stjórnar Baugs, berist til fjölmiðla.
Það eru um tuttugu manns sem með einum eða öðrum hætti geta haft aðgang að slíkum gögnum og þetta kallar á breytingar sem uppræta svona vinnubrögð."
Jóni Ásgeiri munaði ekki um að bendla tuttugu samstarfsmönnum við trúnaðarbrot til að fela eigin sekt. Hvernig er hægt að trúa einu einasta orði frá slíkum manni?
Hvað efnishliðina áhrærir: Hvernig í veröldinni átti blaðamaður Fréttablaðsins að vita það án aðstoðar Jóns Ásgeirs að hann ætti að spyrja forstjóra Baugs hvað stjórnarformaðurinn hefði heyrt forsætisráðherra segja á fundi í London rúmu ári áður?
Jón Ásgeir stýrði atlögunni að Davíð Oddssyni en Hreinn lagði honum til kutann og hljóp svo í felur.
Hreinn gerir einnig athugasemd við umræðuna í síðustu bloggfærslu um tilboð hans til Davíðs Oddsonar um mútur. Athugasemd Hreins fylgir hér.
Og eitt enn fyrst ég er að svara þér á annað borð. Davíð Oddssyni voru aldrei boðnar mútur eða tilraun gerð til þess að bera á hann mútur á fundi okkar í Lundúnum, 26. janúar 2002. Leyfi ég mér í eitt skipti fyrir öll að mótmæla þessari aðdróttun þannig að þau mótmæli liggi fyrir á þessari síðu.
Óskráður (Hreinn Loftsson), 27.2.2007 kl. 13:38
Aftur er orðalag mótmælanna afhjúpandi. Davíð Oddssyni voru aldrei boðnar mútur..." skrifar Hreinn rétt eins og margir kæmu til greina sem mútugjafar. En Hreinn hefur sjálfur viðurkennt að hafa haft í frammi eitthvað sem auðveldlega má líta á sem tilboð um mútur. Rétt er að gefa honum sjáfum orðið í viðtali við Morgunblaðið 4. mars 2003.
Bæði undir borðum og á eftir voru menn að ræða ýmis mál. Við fórum vítt og breitt yfir sviðið og ég greindi meðal annars Davíð frá því að ýmsar miður fallegar sögusagnir væru á sveimi í þjóðfélaginu, ekki bara um þessa menn, heldur einnig hann og erfitt væri að bera slíkar sögur af sér. Í hans tilviki væru meðal annars sögusagnir um samband hans við Kára Stefánsson. Þá gat ég þess að Jón Ásgeir hefði sagt í hálfkæringi að það væri kannski rétt að borga honum [Davíð - innsk. blm.] 300 milljónir inn á reikning í útlöndum, líkt og sagt var að Kári hefði gert.
Hreinn og Davíð voru ekki á skemmtispjalli þarna í London að rifja upp gamla daga. Hreinn var mættur í tvöföldu hlutverki sem stjórnarformaður Baugs annars vegar og hins vegar formaður einkavæðingarnefndar til að ræða gagnrýni Davíðs á verðhækkanir Baugsverslunarinnar, sem voru úr takti við gengisþróunina. Hreinn sjálfur hafði orðspor sitt að verja. Jón Ásgeir hafði fengið hann til liðs við Baug vegna þess að hann var trúnaðarmaður Davíðs en ekki vegna reynslu Hreins af viðskiptum eða smásöluverslun. Ef Hreinn gæti ekki dekkað Davíð var hann lítils virði fyrir Baug.
Davíð Oddsson var með á hreinu hvað stjórnarformaður Baugs var að fara og lét hann segja sér tvisvar tilboðið um sporlausu peningana.
Hreinn Loftsson getur mótmælt sig hásan en fyrirliggjandi gögn og málsatvik benda eindregið og afgerandi til þess að
a) Blekkingar og ósannindi voru höfð í frammi af hálfu Hreins og Jóns Ásgeirs til að bendla Davíð Oddsson við upphaf Baugsmálsins.
og
b) Hreinn Loftsson bauð forsætisráðherra Íslands mútufé, 300 milljónir króna, á fundi þeirra í London 26. janúar 2002.
Hvert er þá upphaf Baugsmálsins? Viðskiptafélagi Baugs og Baugsfeðga, Jón Gerald Sullenberger, fór með gögn til lögreglu sem gáfu tilefni til að ætla að framin hafi verið refsilagabrot.
Athugasemdir
Páll, - en það var ekki ákært fyrir það.
Það sem ég hef haft mestar áhyggjur af í Baugsmálinu er það sem kært var fyrir og ferlið í heildina. Hversu mörg fyrirtæki á Íslandi myndu þola samskonar rannsókn og Baugur hefur þurft að þola árum saman? Ég er ansi hrædd um að þau eru fá.
Og það sem við sjáum í dómskerfinu og hjá lögreglunni er að mennirnir sem hafa borið hitann og þungann af rannsókninni hafa fengið stöðuhækkanir! Þrátt fyrir að dómstólar hafi ítrekað gert athugasemdir við ákæruatriðin.
Eygló Þóra Harðardóttir, 28.2.2007 kl. 01:46
Þú ert alveg að negla þetta. Það er ekkert að marka þessa menn. Allt sem þeir segja hefur verið fabrikerað af Propoganda maskínuninni sem plottar allt fyrir þá.
Af hverju talar þú ekkert um nafnlausa bréfið á síðunni þinni. Baugsmiðlarnir voru fyrstir til að fjalla um það. Þeir náðu strax að stjórna umræðunni um það. Ógeðfellt!!! Hvers vegna, mér finnst það ekkert ógeðfellt. Þetta er bréf sem er greinilega skrifað að lögfróðum aðilum sem eru að benda á það hvernig þeir upplifa málið. Þeim finnst greinilega það vera algjört hneyksli hvernig þetta mál hefur þróast í dómskerfinu. Ég get líka vel skilið það að starfandi lögmenn geti ekki komið fram undir nafni með þessar upplýsingar.
Það eru fjölmörg dæmi um það í ýmsum málum að fólk kemur fram ónafngreint með uppljóstranir til fjölmiðla. Tökum sem dæmi Byrgismálið. Hvernig væri staða mála þar ef einhver hefði ekki komið fram og uppljóstrað um hneykslið sem gekk á þar. Og t.d. Watergate málið. Hvað ef það hefði verið talið ógeðfellt það sem Deep Throat uppljóstraði um aðild Richard Nixon að því máli.
Ég upplifi þetta mál þannig að Baugsmiðlarnir náðu að setja tóninn fyrst allra sem enginn fjölmiðill náði að breyta.
Huglaus (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 01:53
Eitt skulum við hafa alveg á hreinu Páll. Davíð Oddssyni voru ekki boðnar mútur eða tilraun gerð til þess að bera á hann mútufé á fundi okkar í Lundúnum 26. janúar 2002. Aðspurður í Morgunblaðinu og Kastljósi Sjónvarpsins á Bolludaginn 3. mars 2003 sagði hann skýrt, að hann ætlaði mér ekki slíkt (áréttaði að hann hefði aldrei sagt að Hreinn hefði verið aðili að því að bera á sig mútufé og það myndi hann aldrei ætla honum). Rangt er af þér Páll að halda öðru fram gegn orðum Davíðs sjálfs. Davíð Oddsson nefndi nafnið Jón Gerhard á fundi okkar og ég bar það undir þá Jón Ásgeir og Tryggva hvort þeir könnuðust við þann mann og fyrirtæki hans, Nordica, og þá kom fram hjá þeim, að átt væri við Jón Gerald Sullenberger. Þetta er sú leiðrétting, sem ég átti við í fyrsta svari mínu til þín. Fundur minn með þeim Jóni Ásgeiri og Tryggva fór fram síðdegis þriðjudaginn 29. janúar 2002 og ég hafði ekki hitt þá eða rætt við þá í millitíðinni. Í mínum huga er alveg klárt, að þennan mann heyrði ég fyrst nefndan á fundi okkar Davíðs, en um þetta er Davíð mér ósammála líkt og menn vita. Nafnið Jón Gerhard er nefnt í minnisblaði mínu til Stefáns Hilmarssonar, endurskoðanda hjá KPMG, sem ég afhenti honum á fundi að morgni þriðjudagsins 29. janúar 2002 og einnig er fyrirtæki hans, Nordica, nefnt í því minnisblaði svo og í fundargerðum Baugs frá 14. febrúar 2002 þegar ég skýrði stjórninni frá fundi okkar Davíðs. Að sjálfsögðu lagði ég nafnið á minnið og mundi það aðeins örfáum dögum síðar vegna þess að með nafninu fylgdi saga Davíðs um hækkun í hafi, þ.e.a.s. að þeir feðgar, Jón Ásgeir og Jóhannes, ættu fyrirtæki með þessum manni í Flórída þar sem lagt væri á vöru áður en hún væri flutt til landsins og peningarnir yrðu eftir á bankareikningum erlendis. Davíð Oddsson hefur staðfest, að þetta hafi hann sagt mér, en neitar því að hafa nefnt nafn mannsins. Sagan um hækkun í hafi var reyndar ósönn svo að það sé á hreinu. Fjöldi manna, karla og kvenna, vissi af þessum samskiptum okkar Davíðs Oddssonar í janúar 2002 bæði utan og innan Baugs, þegar hann kom fram opinberlega í aðdraganda kosninga 2003 og sagðist fyrst hafa heyrt minnst á Jón Gerald Sullenberger eftir húsleitina 28. ágúst 2002. Reynir Traustason ræddi við mig við undirbúning frásagnar sinnar í Fréttablaðinu og augljóst var í mínum huga, að hann var kominn með þessar upplýsingar áður en hann ræddi við mig. Þýðingarlaust var að mótmæla þessu enda var frásögn hans rétt í öllum aðalatriðum. Ég kaus að láta ekkert hafa eftir mér um málið. Þá veit ég til þess að Davíð Oddson nefndi þetta nafn við fleiri en mig í janúar 2002, en af einhverjum ástæðum hafa þeir aðilar ekki lagt í að skýra frá því opinberlega. Nánustu samstarfsmenn Davíðs Oddssonar, Jón Steinar Gunnlaugsson og Kjartan Gunnarsson, þekktu til þessa manns nokkrum vikum eða mánuðum áður en húsleitin fór fram hjá Baugi líkt og fram kemur í tölvupóstum Styrmis Gunnarssonar til Jónínu Benediktsdóttur. Því er svo við þetta að bæta að eftir heimkomu mína af Lundúnafundi okkar Davíðs Oddssonar og fram í febrúar 2002 áttum við þó nokkur samskipti þegar ég gekk frá störfum mínum fyrir hann sem forsætisráðherra og ég varð þess ekki var þá, að hann teldi að alvarlegir hlutir hefðu gerst í samskiptum okkar. Öðru nær. Hann þakkaði mér með hlýjum orðum fyrir náið og gott samstarf og góðan árangur við framkvæmd einkavæðingar á árunum 1992-2002. Yfirlýsingu hans um þetta efni er að finna í fjölmiðlum frá þessum tíma og þar kemur fram, að hann bað mig um að hætta ekki störfum strax heldur ljúka ákveðnu verki og taka til þess tvær vikur frá uppsögninni. Varð ég við þeirri beiðni. Af einhverjum ástæðum kaus Davíð að segja ósatt um þessi samskipti okkar í fjölmiðlum á Bolludaginn 2003 þegar hann sagðist ekki hafa rætt við mig eftir fund okkar í Lundúnum. Hann sagði einnig ósatt um það á Bolludaginn, 2003 að ég hefði ekki sagt mig úr framkvæmdanefnd um einkavæðingu, en sá var einmitt tilgangur fundarins og fundinum lýst og afsögninni í yfirlýsingu frá mér í Morgunblaðinu þriðjudaginn 29. janúar 2002.
Hreinn Loftsson (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 08:49
Hrein er hvorki hreinn né beinn í málflutningi sínum.
"Margur verður af aurum api", segir máltækið.
Er þetta ekki eina skiptið sem Davíð Oddsson er vændur um lygar á sínum merkilega stjórnmálaerli?
Heimir Lárusson Fjeldsted, 28.2.2007 kl. 09:06
Leiðr.
Hreinn.
stjórnmálaferli.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 28.2.2007 kl. 09:08
Gott ad Hreinn sjalfur finni ser tom til ad leidretta thad augljosa sem "bladamadur" bendir a i fyrstu tilvitnun. Thad var nafn mannsins sem augljoslega er att vid ad their Tryggvi og Jon hafi leidrett, ekki annad...
Eg skil ekki ad David og Hreinn seu komnir i har saman yfir thessu mali thar sem hvorugur theirra er akærdur i malinu. En allur thessi skætingur er torkennilegur svo ad ekki se meira sagt. Eg fæ ekki sed ad med thær takmorkudu upplysingar sem almenningur hefur fyrir ser i malinu og eg vil tleja utursnuning mestan part, se nægjanlegur til nokkurar domsnidurstødu. Oska thvi eftir nædi dømendum til handa til ad leysa thetta vidkvæma mal.
Gudjon (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 10:12
Frekar var það nú ómerkilegt af þér Páll að snúa út úr upphaflegum orðum Hreins eða látast ekki skilja þau. Hvað veldur annars þessari óstjórnlegu heift íslenska neo-íhaldsins í garð Baugs? Þetta er miklu fremur sálfræðilegt rannsóknarefni en pólitískt eða þjóðfélagslegt.
Kári (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 10:40
Hjarðeðlið,hjarðeðlið! Eins og sauðfé fylgja þeir forystusauðnum fyrir björg, ef því er að skipta. Talandi um Davíð. Skaðleg áhrif hans verða sífellt augljósari. Vil ég nefna 3 mikilvæg atriði: 1. Baugsmálið; það hefur skaðað íslenskt viðskiptalíf og skemmt fyrir Íslenskum fyrirtækjum erlendis. 2. Stuðningur íslenskra stjórnvalda við stríðsglæpinn í Írak. 3. Nú hefur verið upplýst að Davíð Oddsson kom í veg fyrir að erlendir bankar gætu komið til greina sem kaupendur bankanna í einkavæðingunni. Afleiðingin er fákeppni og þau fáheyrðu kjör sem það hefur við búum við. Íslensku bankarnir búa svo til viðskiptahindranir m.a. með Reiknistofu Bankanna.
APG (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 12:14
Þessi langi pistill er svo ómálefnalegur og fullur af dylgjum og útúrsnúningi í bland við eitthvað sem hugsanlega er að einhverju eða öllu leyti satt að ég er eiginlega hissa á að Hreinn leggi það á sig að svara þessu. Megi hann njóta virðingar fyrir.
Tími til kominn að hætt sé að ræða um mútuboðsmálið. Það mál er ekki fyrir dómi og fæst ekki séð að það muni nokkurn tímann koma fyrir dóm. Því mun aldrei fást úr því skorið fyrir dómstólum hvort til hafi staðið að bjóða mútur eða hvort Davíð hafi vegið ómaklega að æru manna, en það er það sem málið snýst um. Úr því að þetta mál fer ekki fyrir dómstóla verður að ganga út frá því að ekkert sé til í því máli sem tilefni gefur til opinberra aðgerða. Þannig á okkar réttarkerfi að virka, óháð því hvað almenningur og fjölmiðlamenn halda að kunni að hafa gerst.
Eilífur útúrsnúningur á víxl er þreytandi og leiðir aldrei til niðurstöðu.
Karl Ólafsson, 28.2.2007 kl. 13:21
Í Hávamálum er sagt að orðspor deyji ekki, hjá þeim er að góðu er getið. Mér finnst pistill þinn Páll góður og trúverðugur og orðspor Davíðs er gott. Nema auðvitað hjá spunameisturum afturhaldskommatittsflokksmönnum. Og merkilegt...eða kannski ómerkilegt frekar að Samfylkingin skuli skipta sér af þessu máli í jafn miklum mæli og raunin er. Er kálfurinn eftir allt saman að launa ofeldið?
Gunnar Th. Gunnarsson, 28.2.2007 kl. 16:50
Fundur Hreins og Davíðs var haldinn í London 26.janúar 2002. Þá segist Hreinn hafa heyrt Davíð nefna nafn Jóns Gerhards/Geralds. Rúmu ári síðar 1. mars 2003 kemur þessi vitneskja fyrst fram opinberlega á forsíðu Fréttablaðsins sem Jón Ásgeir átti með leynd. Látið var líta svo út að Fréttablaðið væri sjálfstæður fréttamiðill sem hefði komist á snoðir um samsæri forsætisráðherra gegn Baugi.
Hreini og Jón Ásgeiri var í lófa lagið að koma „upplýsingum" sínum á framfæri allar götur frá janúar 2002. Hvers vegna biðu þeir í rúmt ár? Jú, þeir komust að því eftir að lögreglurannsókn hófst á Baugi í ágúst 2002 að best væri að kenna Davíð Oddssyni um málatilbúnaðinn. Þeir stjórnuðu fjölmiðlum til að búa í haginn fyrir réttu stemninguna og vissu að stjórnarandstaðan myndi spila með. Þess vegna var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir Samfylkingarforkólfur spurð hvort hún vildi ekki tjá sig um málið í Fréttablaðinu 1. mars 2003. Baugur bauð Samfylkingunni upp í dans.
Tímasetningin var ekki tilviljun. Davíð stóð vel til höggs tveim mánuðum fyrir kosningar vorið 2003.
Hreinn bítur höfuðið af skömminni með vísun tölvupósta. Lögmenn Baugs hafa farið hamförum í réttarsalnum undanfarið við að sannfæra auðtrúa dómara um að einfalt mál sé að búa til tölvupósta eftir þörfum. Er grínið orðið svo mikið hjá Hreini að hann dregur dár að sjálfum sér?
Hvað múturnar varðar stendur það óhaggað að Davíð Oddsson segir í viðtali við Morgunblaðið 4. mars 2003 að hann hafi fengið tilboð um 300 milljónir króna frá Hreini. Sama dag og í sama blaði viðurkennir Hreinn að hafa ámálgað 300 milljón króna mútufé en sagt það í öðru samhengi en Davíð vill vera láta.
Ég bíð bara eftir því að Hreinn leggi fram tölvupóst sem sanni að hann hafi ekki boðið mútur.
Páll Vilhjálmsson, 28.2.2007 kl. 19:57
ég minni á að Jón Gerald var búinn að eiga í viðskiptum við Baug og þar af leiðandi var nafn hans í ársskýrslu Baugs sem stjórnarformaðurinn hefur væntanlega lesið
ólafur jóhannsson (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 20:04
Mig minnir líka að Davíð hafi komið í fréttum á RÚV og sagt að hann vissi alveg að Fréttablaðið væri í eigu Baugsfeðga, en Jón Ásgeir neitaði því. Ég upplifi allt þetta mál þannig að Baugsmenn hafa verið staðnir að lygum sérstaklega hvað varðar eignahaldið á Fréttablaðinu. Þess vegna trúi ég ekki orði sem þeir segja. Það getur vel verið að Davíð hafi verið pirraður út í þá en hann hefur ekki enn verið staðinn að lygum eins bersýnilega eins og þeir allir.
Huglaus (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 20:06
Þú ert augljóslega kominn út í horn með þessa röksemdafærslu þína Páll. Lýkur þar með þessum samskiptum okkar. Tilvitnuð orð Davíðs Oddssonar úr Morgunblaðinu og Kastljósi Sjónvarpsins standa óhögguð þar sem hann áréttaði "að hann hefði aldrei sagt að Hreinn hefði verið aðili að því að bera á sig mútufé og það myndi hann aldrei ætla honum".
Hreinn Loftsson (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 20:15
Davíð átti við að Hreinn hefði aðeins verið sendiboði fyrir baugsfeðga því að hann tryði því ekki upp á Hrein að fá svona siðlausar hugmyndir að bera fé á forsætisráðherra þjóðarinnar. Öðru máli gegndi um þá baugsfeðga
ólafur jóhannsson (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 20:38
P.s. mánudaginn 10. mars 2003 ritaði Þorvaldur Logason heimspekinemi grein í Morgunblaðið um Bolludagsmálið . Læt ég hana fylgja til fróðleiks þar sem margir hafa áhuga á viðfangsefninu, en tekið skal fram að ég þekki viðkomandi ekki neitt:
Orsakasamhengi og milljónamútur
Hreinn Loftsson (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 20:43
Ég skal trúa því Hreinn að þér þykir vænt um greinina. Þér er lýst sem heilsteyptum manni og málflutningur þinn í fullkomnu röklegu samhengi. Ég þekki þig ekki og hef því enga skoðun á þér sem persónu. Á hinn bóginn hef ég lesið og fylgst með orrahríðinni frá 1. mars 2003 og hvorki get ég Baugsmegin í málinu séð heilsteypta einstaklinga né röklegt samhengi. En það eru, vel að merkja, mörg, mörg ár síðan ég var heimspekinemi.
Páll Vilhjálmsson, 1.3.2007 kl. 00:24
Páll,
í Krónikunni í dag koma fram tölvupóstar sem snerta Baugsmálið.....þar er einn postur frá Joninu Ben til Styrmis Gunnars þar sem hún hvetur til að hafa hraðar hendur þar sem greiðslutilboð hafi borist Sullenberger fra Baug þar sem allt væri gert upp sem hann vildi.
Er það virkilega Páll að þú teljir það helbera tilviljun að siðan hafnar Sullenberger tilboðinu greinilega og ritstjóri moggans, frk.stjori sjalfstæðisflokksins tengist málinu alla leið síðan ?
SAMA dag og Baugur leggur fram sáttatilboð til að gera upp við Sullenberger leggur jónina áherslu i brefi til mogga ritstjórans að þau verði að hafa hraðar hendur ???
Og það er serstaklega athyglisvert að þegar Jónina sendir Tryggva forstjóra Baugs póst um að hun geti "saltað þá" vegna gagna sem Sullenberger hafi sent henni og hun vilji fund vegna fjárhagsvandræða sinna vegna Planet Pulse að þá svari Tryggvi. "Ef þu telur þig hafa gögn sem syna fram á ólöglegt athæfi okkar er eina rétta leiðin að fara til yfirvalda".
Pall,
Er EKKERT athugavert við þetta að þinu mati ???
Gunnar Sig. (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 19:44
Sæll Gunnar
Mér dettur ekki annað í hug en að bæði Jón Gerald og Jónína, saman og hvort í sínu lagi, hafa með ýmsu móti reynt að koma sínum málum á framfæri við hina og þessa aðila í samfélaginu.
Ég hef hins vegar neitað að trúa því að forsætisráðherra hafi skipað lögreglurannsókn á Baugi. Til vara, svo ég tali eins og lögfræðingur, trúi ég því ekki að þótt lögreglu og skattayfirvöld fengju, beint eða óbeint, tilmæli frá forsætisráðherra um að hefja rannsókn að þau myndu gera það. Ég hef enga trú á að embættismenn í viðkomandi stofnunum myndu láta hafa sig út slíka óhæfu.
Okkar á milli sagt, Gunnar, þá er til sennilegri kenning um upphaf Baugsmálsins. Mig vantar eitt eða tvö púsl til að ég treysti mér að birta hana en þau finnast vonandi.
bestu kveðjur
páll
Páll Vilhjálmsson, 1.3.2007 kl. 21:26
Allt er þetta nú hið besta mál og í höndum dómskerfis okkar. Það er skipað vönduðum og vel meinandi skólabræðrum úr lagaskóla sem hefur þrifist í nærri heila öld í samkeppni við sjálfan sig einan. Afraksturinn er sá að dómstólarnir njóta trausts 31% þjóðarinnar. Það er sannarlega áhyggjuefni fyrir lögfræðingastétt þessa lands og reyndar fyrir réttaröryggisvitund hins almenna borgara.
hetja (IP-tala skráð) 2.3.2007 kl. 00:43
Mikil er trú þín Páll.
Þú upplýsir hér að allur hamagangurinn sem svo langtum fremsti stuðningsmaður DO og ófræingar í garð allra sem með einhverjum hætti tengjast Baugi stafi af því að þú TRÚIR að forsætisráðherra hafi ekki aðhafst neitt vafasamt gagnvart Baugsmönnum, -þú hlýtur að geta gengið á vatni.
-Mikil er trú þín Páll, tak sæng þína og gakk.
Helgi Jóhann Hauksson, 2.3.2007 kl. 02:12
Sæll Páll. Ég þekki hvorki þig né Hrein Loftsson (hann, ásamt Birni Bjarnasyni, var reyndar viðstaddur smá tölu sem ég gaf í Hótel Holt fyrir 35 árum eða svo) - en ég fæ ekki betur séð en að þú vaðir reyk í eftirfarandi umsögn þinni um nafn Jóns "Gerhards", sem Davíð nefndi svo á fundi þeirra Hreins í London, sem hét reyndar Jón Gerald eins og Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggvi Jónsson "leiðréttu" við heimkomu Hreins:
<> Hreinn Loftsson stjórnarformaður Baugs andmælir síðustu bloggfærslu og segist ekki hafa breytt framburði sínum frá því hann sagði fyrst frá fundi sínum og Davíðs Oddssonar í London í janúarlok 2002. Athugasemd Hreins er svohljóðandi:
"Alrangt hjá þér Páll, að ég hafi breytt framburði mínum. Davíð nefndi bæði nafn Jóns Geralds og Nordica á fundi okkar í Lundúnum 26. janúar 2002. Í réttinum í gær gat ég þess að um þetta atriði væri ágreiningur á milli mín og Davíðs. Ég þekkti ekki manninn áður en ég hitti Davíð og hélt að hann héti Jón "Gerhard" en þannig var hann nefndur af Davíð á fundinum. Þetta var leiðrétt nokkrum dögum síðar þegar ég hitti þá Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggva Jónsson."
<>Það eru sem sagt Jón Ásgeir og Tryggvi sem leiðrétta það sem Davíð sagði á fundi þeirra Hreins í London. En hvorki Jón Ásgeir né Tryggvi voru viðstaddir fundinn. Hreinn er ótrúverðugur vegna þess að hann lætur aðra hafa fyrir sig orð.
***
Davíð segir mann heita Jón Gerhard.
Hreinn heldur að maður heiti Jón Gerhard.
<>Jón Ásgeir og Tryggvi segja manninn heita Jón Gerald.
<>Hreinn veit þá rétt nafn mannsins.
<>Páll Vilhjálmsson efar ekki að maðurinn heitir Jón Gerald.
<>Páll veit sem sé rétt nafn mannsins.
Bæði Hreinn og Páll vita rétt nafn mannsins.
Ergo Hreinn er ótrúverðugur?
<>Ég kem þessu ekki heim og saman. <>Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 2.3.2007 kl. 03:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.