Vont fólk, kennarar

Merkilegt er að þegar kjarasamningar kennara eru á dagskrá snýst umræðan um að kennarar vinni ekki vinnuna sína eða séu beinlínis vont fólk. 365 miðlar (Fréttablaðið, Stöð 2 og Bylgjan) eru í verktöku að níða skókinn af kennurum.

Í gær var umfjöllun um að kennarar væru latir og sinntu ekki nemendum sínum. Í dag heggur leiðarahöfundur Fréttablaðsins í sama knérunn og skrifar ,,Það er nefnilega þannig að til er fólk sem á ekki að koma nálægt börnunum okkar en stjórnendur skóla hér á landi þurfa oft að sætta sig við vanhæft starfsfólk af ótta við málaferli."

Langstærsti hluti Íslendinga á þrítugsaldri og yfir á að baki um 14 ára nám i grunn- og framhaldsskóla. Af þeirri staðreynd leiðir að meginþorri landsmanna býr að ítarlegri reynslu af samskiptum við kennara. Og ef það er svo að kennarastéttin sé illa mönnuð hysknu og vanhæfu fólki ætti það ekki að dyljast. Þegar nemendur vonda fólksins í kennarastétt komast í valda- og áhrifastöður í samfélaginu skyldi ætla að gerð væri gangskör í því að uppræta ósvinnuna.

Framhaldsskólakennari er á hverjum degi með um 90 til 100 nemendur á aldrinum 16 til 20 ára sem meta kennarann; hvort hann sé stundvís, kunni námsefnið, geti miðlað því, hafi stjórn á bekknum, skili yfirförnum verkefnum og prófi nemendur úr námsefninu en ekki einhverju allt öðru. Kennari er sem sagt daglega í prófi hjá nemendum sínum og það er fremur langsótt að hann geti í áravís dag inn og dag út fallið á prófinu en samt haldið starfinu.

En það eru önnur rök, en segir frá í subbuumræðu 365-miðla, sem benda til þess að kennarar séu vont fólk. Það hlýtur að vera svo að vont fólk fái léleg laun. Og enginn þarf að efast um að kennarar eru illa launaðir. Til að verða gott fólk þarf góð laun, - þannig virkar heimurinn. Þegar kjarasamningar kennara renna út í vetur eiga vondu kennararnir að hætta kennslu og mæta ekki í vinnuna á ný fyrr en launin hækka nóg til að verða góðu fólki samboðin. Það er í hendi kennara að verða gott fólk.


mbl.is Kennarar vilja meiri hækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Skömm sé þeim sem níðast á kennarastéttinni og leitast við að gera launa- og kjarabaráttu þeirra tortryggilega í augum almennings.

 Gott hjá þér Páll að viðra grun um slíka tilburði vafasamra pappíra.

Kristinn Snævar Jónsson, 23.12.2013 kl. 12:04

2 Smámynd: Óskar Guðmundsson

Kennarastéttin býr í mjög vernduðu umhverfi hérlendis.

Nú vilja kennarar bera sig t.d. saman við kennara í OECD.

Verði þeim að góðu.

Kennarar í OECD ríkjunum kenna nefnilega fullann vinnudag alla starfsævina.

Ef að kennarar vilja hækkun að þá er það ekkert mál vs það að þeir vinni þá sömu hlutföll og við hin til þess dags þar er þeir fara á ellilífeyri.

Óskar Guðmundsson, 23.12.2013 kl. 17:59

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hikandi spái ég í hvað er í gangi. Náði rétt að spyrja önnumkafna dóttur mína,framhaldsskólakennara,hvort hún fylgdist með kjarabaráttu og umræðu um vinnu og laun kennara,eiginlega ekkert svaraði hún, enda tekur jólahald drjúgan tíma akkurat núna.

Helga Kristjánsdóttir, 24.12.2013 kl. 05:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband