Laugardagur, 7. desember 2013
Þingleiði Hitlers hundrað árum seinna
Í neðanmálsgrein á bls. 68 í bókinni Svefngenglar segir höfundurinn, Christopher Clark, frá heimsóknum hins unga Adolfs Hitler í austurríska þingið árin 1908 til 1909. Löngu síðar sagðist Hitler hafa læknast af ungæðislegri aðdáun á þingræði eftir að þessa reynslu.
Svefngenglar er bók um frum-katastrófu Evrópu, fyrri heimsstyrjöld. Lærdómar af þessum atburði verða til umræðu á næsta ári sem aldrei fyrir þegar hundrað ár eru frá upphafi fyrra stríðs.
Í austurríska þinginu á tímum síðasta keisarans var ekkert eitt opinbert tungumál viðurkennt. Þar töluðu Tékkar sitt mál innan um þýsku, serbó-króatísku, pólsku, ítölsku og nokkur önnur tungumál menginlands Evrópu. Langtímum saman voru þingstörf lömuð.
Evrópusambandið ákvað, til að forða Evrópuþinginu frá örlögum þess austurríska fyrir hundrað árum, að þing ESB skyldi ekki hafa nein raunveruleg völd. Þingmenn á Evrópuþinginu fá ekki að leggja fram frumvörp að lögum fyrir Evrópusambandið, aðeins embættismenn framkvæmdastjórnarinnar fá heimild til þess. Evrópuþingið er virðingarsnauð umsagnarstofnun fyrir embættisverk ESB.
Valdleysi Evrópuþingsins endurspeglast í kjörsókn. Innan við helmingur kjósenda nennir á kjörstað að kjósa fulltrúa á þingið.
Athugasemdir
Það er rangt hjá þér að embættismann framkvæmdastjórnarinnar geti lagt fram lagafrumvörp. Það er leiðtogaráðið sem er eini aðilinn innan ESB sem getur lagt fram lagafrumvörp. Það eina sem embættismennirnir í framkvæmdastjórninni gera er að útfæra ákvarðanir leiðtogaráðið og búa til tillögu að lagatexta eftir að hafa ráðfært sig við sérfræðinga á viðkomandi sviði.
Leiðtogaráðið samanstendur af þjóðhöfðingjum aðildarríjanna þar sem hvert ríki hefur einn fulltrúa óháð stærð. Það eru því aðeins þjóðhöfðingjar aðildarríkjanna sem geta lagt fram lagafrumvörp en ekki neinir embættismenn.
Sigurður M Grétarsson, 7.12.2013 kl. 22:44
Takk fyrir athugasemdina, Sigurður. Ef Páll telur þetta rangt hjá þér, þá svarar hann væntanlega. Menn geta verið ósammála um ESB og allt milli himins og jarðar, en til þess að vitræn umræða geti farið fram verða grunnstaðreyndir að liggja fyrir.
Wilhelm Emilsson, 8.12.2013 kl. 02:35
Eins og flest annað sem kemur frá Sigurði M. Grétarssyni um málefni ESB er þessi athugasemd út í móa. Hér er texti frá ESB sem útskýrir málið:
The EU’s standard decision-making procedure is known as 'Ordinary Legislative Procedure’ (ex "codecision"). This means that the directly elected European Parliament has to approve EU legislation together with the Council (the governments of the 28 EU countries). The Commission drafts and implements EU legislation.
Það er framkvæmdastjórnin, þ.e. embættismenn, sem leggja fram frumvörp og lögum og reglugerðum. Það fer eftir atvikum hvernig samráði er háttað við leiðtogaráðið og þingið. Frumkvæðið að lagasetningu kemur frá embættismönnum sem ekki eru lýðræðislega kjörnir.
Páll Vilhjálmsson, 8.12.2013 kl. 10:13
Enn sýnir þú vanþekkingu þína Páll. Vissir þú að það eru embættismenn í ráðuneytunum hér á landi sem semja öll lagafrumvörp sem frá ráðherrum koma. Það eru þó ekki þeir sem taka ákvarðanirnar um hvað það er sem seta á í lög. Það gerir ráðherran en embættismennirnir semja svo lagatexta í kringum ákvarðanir ráðherrana.
Það sama á við hjá ESB. Það er leiðtogaráðið sem er skipað lýðræðislega kjörnum þjóðarleiðtogum aðildarríkja sem taka ákvarðanir um það hvaða lagabreytingar á að leggja til en það eru síðan embættismenn í Framkvæmdarráðinu sem semja lagatextan eftir forskrift frá leiðtogaráðinu. Síðan þarf bæði Evrópuþingið og Ráðherraráðið sem er skipað fagráðherrum á viðkomandi sviði að samþykkja lagafrumvarpið. Það eru því á öllum stigum lýðræðislega kjörnir aðilar sem taka allar ákvarðanirnar en embættirmennirnir sjá um fagmennskuna í orðalagi lagafrumvarpa og að lokum lagatextans.
Þannig virkar þetta í öllum lýðræðisríkjum og þannig virkar þetta líka hjá ESB.Framkvæmdaráðið hefur ekki völd til að hafa frumkvæði að lagabreytingu. Það er einungis leiðtogaráðið sem hefur það.
Sigurður M Grétarsson, 8.12.2013 kl. 19:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.