Föstudagur, 6. desember 2013
Samfylkingin svindlar á lýðræðinu
Þjóðir sem sækja um aðild að Evrópusambandinu gera það ekki nema að undangengnum þingkosningum þar sem ESB-flokkar fá umboð kjósenda í Brussel-leiðangur. Í lýðræðisríkjum er öruggur þingmeirihluti forsenda fyrir ESB-umsókn enda endurspeglar þing þjóðarvilja.
Á Íslandi svindlaði Samfylkingin á þessari meginreglu. Flokkurinn fékk innan við 30 prósent fylgi í þingkosningum 2009 og var eina þingframboðið sem bauð fram ESB-aðild. Samfylkingin fór langt út fyrir lýðræðislegt umboð sitt sumarið 2009 þegar flokkurinn knúði þingmenn VG til að svíkja meginstefnu sína um að Íslandi væri betur borgið utan ESB en innan.
Svindl Samfylkingar á lýðræðinu hófst fyrir meira en áratug. Flokkurinn bjó til innanflokksferli til að taka afstöðu þess hvort taka ætti upp þá stefnu að Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu. Í stað þess að spyrja af eða á: ,,vilt þú að það verði stefna Samfylkingar að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu," var eftirfarandi glassúr borinn á borð flokksmanna haustið 2002
Á það að vera stefna Samfylkingarinnar að Íslendingar skilgreini samningsmarkmið sín, fari fram á viðræður um aðild að Evrópusambandinu og að hugsanlegur samningur verði síðan lagður fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar?
Til að segja nei við þessari spurningu þarf maður að vera á móti bæði skilgreiningu samningsmarkmiða og þjóðaratkvæðagreiðslum. Spurningin er beinlínis hönnuð til að ekki sé hægt að svara neitandi.
Það kemur úr hörðust átt þegar ESB-sinnar eins og Egill Helgason setja sig á háan hest og segja það rökleysu að ef þjóðaratkvæði eigi að fara fram um ESB-málið þá verði samningur að liggja fyrir.
Egill hefur ekki frekar en aðrir ESB-sinnar gagnrýnt skefjalausa vanvirðingu Samfylkingar fyrir meginreglum sem virtar eru í flestum lýðræðisríkjum.
Líkt og fyrir fjórum árum gekk Samfylkingin í ár einn flokka fram undir merkjum ESB-aðildar. Flokkurinn fékk 12,9 prósent fylgi í þingkosningunum í vor.
Kosningaúrslitin í vor gerðu ESB-aðild að jaðarsporti íslenskra stjórnmála.
Athugasemdir
Þetta var Landrá og er það ennþá. Landráð fyrnast ekki. Það er spurning þegar flokkur sem hefur stefnu sem stangast á við æðstu lög landsins er hann þá ekki sekur fyrir Landráð. ? Hversvegna fór sjálfstæðisflokkurinn og aðrir and ESB ekki í mál þ.e. kærðu þeir ekki Landrá. Það flokkast líka sem landráð að þegja yfir aðilum sem frömdu það.
Valdimar Samúelsson, 6.12.2013 kl. 17:46
er ekki Samfylkingin Landráðaflokkur Íslands.
Ómar Gíslason, 6.12.2013 kl. 21:21
Þráhyggjupistlar þínir um ESB eru fremur þreytandi. Finnst að svona ritsnillingar einsog þú ættu frekar að skýra út fyrir sauðsvörtum almúganum hverjar séu framtíðarhorfur íslendinga í efnahagsmálum. En einsog Nóbelsskáldið sagði þá deila íslendingar um tittlingaskít en setur hljóða þegar kemur að kjarna málsins.
Ágúst Marinósson, 6.12.2013 kl. 21:37
Og þýðir það þá að Brusselveldið sé tittlingaskítur og Samfylkingin þráhyggjuflokkur? Hljómar ekki vitlaust.
Elle_, 8.12.2013 kl. 00:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.