Þriðjudagur, 26. nóvember 2013
Japanskt ástand á evru-svæðinu
Japanskt ástand er það kallað þegar hagkerfi lendir í langvarandi stöðnun. Einkennin eru verðhjöðnun og lítill eða enginn hagvöxtur. Evru-svæðið stendur frammi fyrir japönsku ástandi, einkum ríki Suður-Evrópu.
Samkvæmt fréttaskýringu þýska dagblaðsins Die Welt krefjast Suður-Evrópuríki, Portúgal og Spánn fyrst og fremst, að Seðlabanki Evrópu kaupi ríkisskuldabréf í stórum stíl til að auka fjármagn í umferð.
Verðbólga á evru-svæðinu mælist 0,7 prósent, langt undir viðmiði Seðlabanka Evrópu sem er 2 prósent. Stýrivextir eru 0,25 prósent. Engu að síður lána bankar ekki til atvinnulífsins í ríkjum Suður-Evrópu og því ríkir þar stöðnun.
Seðlabankar í Bandaríkjunum og Japan kaupa ríkisskuldabréf sinna landa til að halda uppi peningamagni í umferð og þar með er vöxtum haldið í lágmarki. Þessi aðgerð er umdeild meðal hagspekinga, sem margir hverjir telja hagkerfið verða háð ódýrum peningum líkt og fíkill eiturlyfjum.
Þjóðverjar telja að stórfelld kaup á ríkisskuldabréfum Suður-Evrópuríkja jafngildi að Þýskaland sitji uppi með ábyrgðina á skuldum viðkomandi ríkja. Þess vegna leggjast þeir gegn slíkum ráðstöfunum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.