Fimmtudagur, 14. nóvember 2013
Spuninn fóðraður og ný víglína opnuð
Spuni stjórnarandstöðunnar er að ríkisstjórnin sé að klofna vegna ósamkomulags milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, einkum um skuldamál heimilanna. Sumir stjórnarþingmenn fóðra þennan spuna, til dæmis Brynjar Níelsson. Vilhjálmur Bjarnason lagði til spunafóður fyrir skemmstu.
Vilhjálmur og Brynjar eru nýir þingmenn og finnst allt í lagi að fikta við eldinn. Húsvanir þingmenn dunda sér ekki við íkveikju nema þeir sjái fyrir sér nýja vist ef fiktið skyldi brenna til kaldra kola stjórnarheimilið.
Ríkisstjórnin, á hinn bóginn, er búin að opna nýja víglínu með tillögum hagræðingarhópsins og ráðningu Ásmundar Einars sem aðstoðarforsætisráðherra. Til að halda lágmarka skaða íkveikjumanna þarf ríkisstjórnin að halda samstöðunni í hagræðingarmálinu.
Samstaðan mun bresta ef ríkisstjórnin verður gerð afturreka með tillögurnar sem hún ætlar að framkvæma. Augljóst er að 110 tillögur um breytingar á ríkisrekstri verða ekki allar framkvæmdar á kjörtímabilinu og sumar líklega aldrei.
Stjórnarflokkarnir verða að hafa samráð um forgangsröðun á tillögum hagræðingarhópsins. Með því að verkalýðshreyfingin vill hafa skoðun á tillögunum eru þær orðnar hluti af væntanlegum kjarasamningum. Og þegar meira er um að semja aukast líkurnar á samkomulagi.
Hagræðingartillögur setja strik í reikninginn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég fæ ómögulega séð hvernig þessar tillögur hafa áhrif á núverandi kjarasamninga. Sjálfur hef ég nokkuð starfað við verkalýðsmál og þekki nokkuð vel kjaraviðræður.
Þessar tillögur eru flestar þess eðlis að þær koma ekki beint inná verkalýðsmál. Auðvitað má toga sumar þeirra til svo hægt sé að segja að þær geri það, en það er langsótt.
Mestu skiptir þó að þarna er um tillögur að ræða, eftir að taka ákvörðun um hverjar þeirra verði að veruleika og útfæra þær. Fyrr er ekki hægt að segja til um hvort þær koma inná verksvið verkalýðsfélaga.
Þá er ljóst að fæstar þessara tillagna geti orðið að veruleik á þeim tíma sem talað er um að komandi kjarasamningar muni gilda. Þar er verið að tala um skammtímasamning og því ekkert í þessum tillögum sem ætti að stöðva það.
Þarna er Gylfi Arnbjörnsson að nýta sér stöðu sína til pólitískra skítverka, eins og honum er svo gjarnt.
Gunnar Heiðarsson, 14.11.2013 kl. 08:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.