Ákall frá Brussel um að Bretar yfirgefi ESB

Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hvetur Breta til að yfirgefa Evrópusambandið með því að vísa í Zürich-ræðu fyrrum forsætisráðherra Bretlands, Winston Churchill. Ræðan var flutt haustið 1946 í sömu andrá og kalda stríðið milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna gekk í garð.

Upphafsorð Churchill er stöðumat á meginlandi Evrópu eftir seinna stríð: ,,Í dag ætla ég að ræða við ykkur um harmleik Evrópu." Meginboðskapur Churchill var að Frakkland og Þýskaland yrðu að sameinast um að leiða álfuna til framtíðar. Ástæðan er einföld. Þýskaland var stofnað sem þjóðríki eftir að Prússar sigruðu Frakka í styrjöld 1870/1871 og tóku af þeim iðnhéruð Frakklands í austri. Frakkar tók þessi héruð tilbaka í Versalasamningunum eftir fyrra stríð og í seinni heimsstyrjöld sigruðu Þjóðverjar Frakka enn á ný en töpuðu fyrir Bandaríkjunum og Sovétríkjunum.

Meginland Evrópu var rifið í sundur með járntjaldi sem klauf Þýskaland í tvennt. Vestur-Evrópa átti að rétta úr kútnum með því að Þjóðverjar og Frakkar gerðu með sér bandalag.

Churchill sá ekki fyrir sér að Bretland yrði hluti af sameinaðri Evrópu undir forystu Frakka og Þjóðverja. Hann taldi Stóra-Bretland og breska samveldið að nokkru fyrirmynd um hvernig bandalag ríkja á meginlandinu ætti að líta út. Þegar Bretland loks gekk í Evrópusambandið, sem þá hét Efnahagsbandalag Evrópu, árið 1973 var það fyrst og fremst til að tryggja viðskiptahagsmuni sína en ekki í þágu hugsjónar um sameinaða Evrópu. Bretar eiga meira sameinginlegt með Bandaríkjunum en meginlandi Evrópu.

Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, þekkir ræðu Churchill. Með því að hvetja Breta til að hlýða kalli mesta stjórnmálaskörungs eyríkisins á síðustu öld freistar Barroso þess að flýta ferli sem þegar er hafið í Bretlandi, sem er útganga úr Evrópusambandinu.

Vaxandi þungi er í andstöðu Breta við aðild að Evrópusambandinu. Síðustu þrjú ár hafa skoðanakannanir sýnt meirihluta Breta á móti aðild. David Camelon forsætisráðherra gaf loforð um að þjóðaratkvæði yrði haldið í Bretlandi um framhaldsaðild að ESB. Fyrst ætlar Cameron að freista þess að fá Evrópusambandið til að draga saman seglin og skila tilbaka valdheimildum til þjóðríkjanna 28 sem mynda sambandið.

ESB-sinnar á meginlandi Evrópu eru sannfærðir um að eina leið sambandsins úr yfirstandandi efnahagskreppu, sem staðið hefur yfir í meira en fimm ár, sé að hraða samrunaþróun Evrópusambandsins. Ríkjandi viðhorf ESB-sinna á meginlandinu er þannig í fullkominni andstöðu við meirihlutasjónarmið í Bretlandi um að stórlega skuli draga úr valdheimildum Evrópusambandsins en yfirgefa sambandið að öðrum kosti.

Bretland mun ekki undir nokkrum kringumstæðum fallast á aukna miðstýringu frá Brussel. En það er einmitt aukin miðstýring sem á að bjarga evru-svæðinu frá varanlegu kreppuástandi sem eyðileggur efnahagskerfi jaðarríkja álfunnar og dæmir tugmilljónir til langtímaatvinnuleysis.

Þjóðaratkvæði um hvort Bretland ætti segja sig úr Evrópusambandinu fer líklega ekki fram fyrr en 2016 eða 2017. Þangað til munu Bretar bremsa af allar tilraunir til að auka samrunaþróun ESB. Kreppuástandið í Evrópu er eldfimt og leyfir ekki úrræðaleysi í nokkur ár enn. Þess vegna vilja ráðandi öfl í Brussel losna við Breta fyrr heldur en seinna. 

 


mbl.is Stefna verði að sameiningu Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband